Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Torfi í Klofa (2)

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Klofa-Torfi bjó fyrst í Skarði enu eystra, en átti annað bú í Klofa. Hann var þá ungur. Þá gaus Hekla. Smalamaður Torfa [sem] var skyggn kom seint heim á kvöldin fram eftir vetri. Torfi spurði hann hvað til þess kæmi. Hann sagðist vera að horfa á huldufólkið, það væri að flytja sig. Torfi þóttist vita hvað það mundi boða og sagði smalanum að segja sér fljótt ef það flýtti sér meir einn tíma en annan. Smalinn lofaði því. Á gamlaárskvöld kom hann heim með flýti og sagði að nú flýtti huldufólkið sér svo mikið að það tæki ekki upp neitt sem dytti, og jafnvel ekki börnin. Torfi bað hann leggja á reiðhest sinn sem fljótast, en fór sjálfur inn og bað hvurn mann koma burt með sér, því í nótt mundi Heklueldur eyða bænum. Húsfreyja sagði að Stóraskarð mundi standa eins og það hefði staðið og fór enginn með honum sem inni var. Hann tók peningakistil sinn og hljóp út og á hest sinn og setti smalann fyrir aftan sig. Þeir riðu út að Klofa. En þegar þeir komu á hæð nokkra hjá Rangá sáu þeir eldinn upp yfir fjöllin. Þá fóru af átján bæir um dögunarbil á nýársmorgun og hvurt mannsbarn sem þar var. Tveir af þessum bæjum voru stórbæir, Skarð[1] sem Torfi var, og Tjaldstaðir. Í Skarði vóru krossarnir sem merktu hæð Ólafs konungs og Hjalta Skeggjasonar. Torfi gaf þá smalamanni Mörk og bjó hann þar, en Torfi bjó í Klofa langa ævi og var höfðingi mikill. Þá kom svartidauði, plágan seinni, og er svo sagt að það aðbærist þannig sem nú skal segja:

Eitt kvöld komu að Klofa strákur og stelpa og báðu gistingar. Torfa leizt illa á þau, en af því hann var aldrei vanur að úthýsa nokkrum manni vísaði hann þeim í gestahús, gekk út og lét aftur, stóð svo á hleri og heyrði tal þeirra. Varð hann þess vís að þetta voru sendingar gjörðar út til að eyða fólkinu af Íslandi. Höfðu þau um kvöldið áður beðið gistingar tvo mestu höfðingja landsins og verið úthýst, því þeim leizt illa á þau, og hefði hinn þriðji (Torfi) úthýst þeim var úti um erindi þeirra. Stelpan sagði seinast við strákinn: „Þú skalt fara yfir fjallbyggðir, en ég mun fara með sjó, þar er fólksmegn meira, en ég treysti mér betur en þér.“ Nú þögnuðu þau, en Torfi bjóst í snarræði burt um nóttina með allt sitt fólk og fénað sem varð, og nóga björg. Er sumra manna sögn að hann færi þá í Torfajökul, en um hann (Torfajökul) er önnur saga, og mun það réttara að Torfi gjörði sér búð í Búðarhálsi og var þar meðan plágan gekk yfir. Sýndist þá sífellt mistur eða þoka vera yfir byggðinni, en þegar henni létti af sendi Torfi tvo menn fram að Klofa að forvitnast um hvurnig ástatt væri í byggð. Þeir fundu engan mann lifandi. Annar snerti klæði eða þefaði á því, sá féll dauður, en hinn fór til Torfa. Sumir segja honum hafi þá verið orðið illt í tánni og hafi Torfi höggvið hana af. Þegar Torfi hafði verið þrjú eða fjögur ár í óbyggð sendi hann enn að Klofa og varð þá ekkert til tíðinda. Þá fór Torfi heim að Klofa og nam sér þá land milli Þjórsár og Rangár, allan efra hlut Landsveitar. Eftir það lét hann gjöra göngugarð frá Klofa út í Skarðsfjall og rak þangað á honum sauði sína þegar ófærð var, og kvað sjást til þess garðs þar sem ekki er blásið. Sumir segja að þá hafi „Torfalög“ orðið til því Torfi hafi sett upp á hvurn sem á ferð var að leggja þrjá kekki eða þrjá steina í garðinn. Torfi hafði jafnan átján sporgöngumenn og stundum þrjátíu. Hann átti mjög andstætt og var honum oft veitt heimsókn, en ávallt forgefins. Þó hann sæti í stofu er óvinir hans komu, vissu þeir ekki fyrr en hann kom að baki þeirra með menn sína, því undirgangur var úr bænum og kom upp í Kollakotshólum fyrir vestan tún. Þar var einhvurn tíma kot, nú fjárhús.


  1. Jón Jónsson bóndi á Selsundi, dáinn fyrir nokkrum árum, var einu sinni að elta kindur þar í hrauninu, rak fótinn í holu, aðrir segja niður með húsburst, og sá fúaspýtur á rist sér, en varð að halda áfram og fann ekki holuna aftur. [Hdr.]