Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Torfi í Torfabæ

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Torfi í Torfabæ

Svo er sagt, einkum af Selvogsmönnum, að Torfi hafi maður heitið og byggt Torfabæ og hafi það þá verið stórbýli, en nú er það kotbær við sandjaðar. Skal hann (Torfi) hafa látið gjöra garð þann er „girti af heila sveit“, frá Vogsósum til Snjólfshúsa fyrir austan Nes. Þar er nú varða. Milli þess garðs og sjávar voru tún ein. Er sagt að Torfi hafi gjört hvurjum manni að skyldu að leggja þrjá steina í garðinn og þar af sé „Torfalög“ komin (að gjalda Torfalögin). Til þessa garðs sér enn frá Vogsósum austur á móts við kirkju; þá er sandlægð til Torfabæjartúngarðs.