Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Um Jón lærða og Jón litla-lærða
Um Jón lærða og Jón litla-lærða
Jón Guðmundsson hinn lærði nam seinast staðar á Austurlandi. Hann bjó eitt sinn í Bjarnarey; hún er út af Hlíðarfjöllum. Gullborg heitir klettur einn á eyjunni, kenndur við þann mann er fyrstur byggði eyjuna og hét Gullbjörn. Hann átti gullhellur tvær og fól þær undir Gullborginni. Haugur hans stendur á nesi einu á landi upp af eynni, kallaður Gullbjarnarhaugur.
Í Gullborginni vestanverðri er eins og sæti; þar sat Jón lærði jafnan. Upp yfir sætinu er kletturinn sléttur; þar hafði Jón klappað ártalið þá hann bjó þar. Það sást vottur til þess þá ég kom í eyna, en ég gleymdi hvað það var; þó minnir mig það væri 1639, og þar út af J. G. Þetta var mjög óglöggt. Ég held Jón hafi verið þar eitt ár. Síðan bjó hann á ýmsum stöðum með kellingu sinni Sigríði sem þókti margvís og forn í skapi. Í Gagnstaðahjáleigu var hann einu sinni; þá bjó Einar digri Magnússon í Njarðvík. Þeir vóru kunningjar og skrifuðust á. Heyrt hefi ég kafla úr bréfi sem hann eitt sinn skrifaði Einari; hann er svona: „Sagt er að séra hafi sönglað á sunnudaginn um það að uppræta skyldi illgresið úr akrinum; en sú gamla örn mun hreiðurföst sitja og halda sínu arm fyrir hvörs manns takk.“ Hann sagði honum frá að rekið hefði bugspjót á sandinn. Fleira heyrði ég ekki úr bréfi þessu.
Seinast ævi sinnar var hann á Hjaltastað hjá Guðmundi presti syni sínum. Jón lærði varð gamall mjög, níræður eða meir. Þá hann var kominn að níræðu sókti hann fótakuldi mikill svo kvenmaður var látinn vera á fótum hans til að verma hann; en svo fór að hún varð ólétt eftir hann. En þá hann varð þess var fékk hann þvílíkt hatur á henni að henni var ekki viðvært svo hún var látin burt og sett í hrosshús sem prestur átti út á eyjum á Engilækjarhólum; þar sér enn tóftina. Þar fæddi hún barnið, piltbarn sem hét jón og kallaði sig litla-lærða. Hann varð gamall og riðaði alla ævi sína. Þá hann var nýfæddur, tók [hann] ógurleg flog; eignuðu menn þau töfrum föður hans.
Jón litli-lærði þóktist margfróður og vildi láta virða sig mikils. Hann var eitt sinn látinn stika dýpi í Lagarfljóti að utan alla leið upp í fljótsbotn. Aldrei var hann við konu kenndur og átti ekki barn, en tíðum vildi hann þukla um kvenfólk þá hann fékk færi. – Eitt sinn þá hann var orðinn gamall og blindur, var hann staddur á Kirkjubæ á helgum degi í mannfjölda. Hafði hann sig til kvenfólks eftir vana, en Ólafur nokkur bóndi á Litla-Steinsvaði tók á honum hendina og lét undir merartagl, við hvað karlinn varð æfareiður, sagði hann nyti þess að hann væri blindur; hefði hann haft sjónina, þá skyldi hann hafa drafnað allur sundur þar sem hann stæði. Fleira hefi ég ekki heyrt af Jóni litla-lærða.
Jón lærði áður hann dó gekk hann út í kirkjugarð, lagði sig niður að hvorju leiði [í] garðinum, en hvört sinn hann stóð upp sagði hann: „Hér eru of margir.“ Þetta lét hann ganga kring kirkjuna þar til hann kom fyrir kirkjudyr; þar voru engir fyrir og þar sagði hann að grafa sig undir arinhellunni og lagði fyrir að sorpið úr kirkjunni væri látið á helluna, ekki mundi þurfa að skipta sér meira af því; hélzt sá siður lengi á Hjaltastað að sorpið úr kirkjunni var látið á helluna, en ætíð horfið þá að var gáð.
Sigríður kelling, kona Jóns, lifði nokkur ár eftir lát Jóns. Þegar Brynjólfur biskup fór kirkjuskoðun í Austfjörðu var hann lengi dags á tali við kellingu, þókti hún margfróð og skemmtin. „Að einni spurningu dirfist ég spyrja yður herra,“ sagði kelling, „ég ætlaði að tólf andar hefðu átt að vera kringum höfuð yðar, en ég get ekki séð nema ellefu.“ „Rétt segir þú,“ kvað biskup, „en að þessu hefir enginn gáð nema þú. Þá ég var utanlands,“ sagði biskup, „sendi ég þá tvo inn í Svíaríki, en ekki kom nema annar aftur.“ „Svo er sem þér segið, herra,“ kvað Sigga.
Eitt sinn festi Guðmundur prestur konu í sæti í kirkjunni, sem honum þótti ganga að óþörfu úr kirkjunni, en gat ekki losað hana aftur, svo hann bað móður sína liðs. Þá sagði kelling: „Illt að gjöra, það getur Gvendur, en ráða bót og við sjá, það getur ekki Gvendur,“ og losaði konuna.
Þá ég kom fyrst í kirkju á Hjaltastað var bitinn milli kórs og kirkju málaður eftir Jón lærða og yfir kórdyrum dökkt mál með hvítum dropum.