Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Um Rút í Rútshelli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Um Rút í Rútshelli

Rútfell heitir bær undir Eyjafjöllum, almennt nefnt Hrútafell. Bærinn stendur undir litlu fjalli og er sund milli fjallsins og bæjarins, og rennur þar vatn í leysingum og er þar sandur. Á sandinum er steinn, er Sebbasteinn heitir. Á honum er hol eða hvilft, öldungis lík mannsspori. Skammt þaðan í fjallbrekkunni er hellir (klappaður?) er Rútshellir heitir. Upp í honum er stúka eða líkt og loft. Þar var sæng hellisbúans er Rútur hét. Gat er á stúku þessari ofan í hellinn. Þrælar Rúts hétu Sebbi, Guðni (írskir?) og Högni. Þeir vildu drepa Rút og lögðu spjótum upp um gatið. Hann spratt upp og hljóp að þeim; þeir hrukku út og hlupu undan. Rútur náði Sebba við Sebbastein og drap hann þar. Þá elti hann hina og náði Högna við Högnaklett og drap hann. Guðni hljóp allt upp á jökul og náði Rútur honum undir Guðnasteini og drap hann þar. Aðrir segja að óvinir Rúts hafi lagt hann í gegn upp um gatið.