Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Um kirkjur

Úr Wikiheimild

Það er gömul trú á Stokkseyrarkirkju að hún skal alltaf standa opin þegar skip eru á sjó, því þar farist ekkert skip á réttu sundi, þegar hún er opin, enda er sagt það hafi viljað svo til þegar skip hafa farizt á Stokkseyrarsundi að kirkjan hafi af ógáti verið aftur.

Sama er að segja um Kirkjuvogskirkju í Höfnum að ekkert skip ferst á Kirkjuvogssundi rétt förnu, þegar hún er opin.

Í Holti undir Eyjafjöllum skal líka hafa opna kirkjuna þegar skip eru þar á sjó.

Kirkjan á Strönd í Selvogi hefir um langan aldur staðið „einmana á eyðisandi“ og hefir bæði verið reynt að flytja hana þaðan heim að Vogsósum og Nesi, en þá hefir alltaf eitthvurt tilfelli komið í veginn svo það hefir farizt fyrir. En þegar hefir átt að endurbæta hana hefir líka eitthvurt happ viljað til, rekið stórtré og stundum hval o. s. frv. Þegar einhvur heitir á hana vill henni ekki einungis til, heldur verður hann auðnumeiri eftir en áður.

Kirkjan í Odda stendur í útsuður frá bænum vegna þess að áður en hún var byggð sáust þar menn sigla í loftinu. Þeir köstuðu niður sverði og stóð það á oddinn útsuður frá bænum. Bóndinn í Odda vissi að þar átti hann að setja kirkjuna, en honum þótti það óvanalegt og vildi setja hana austsuður frá bænum og það byrjaði hann, en þá var hvurt sinn fallið að morgni það sem áður var búið að byggja að kvöldi. Þá var af ráðið að setja hana þar sem hún nú er og tókst það vel.