Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Veizluréttirnir og skinnfatagarmarnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Veizluréttirnir og skinnfatagarmarnir

Þegar Erlendur Hjálmarsson var umboðsmaður á Munkaþverá[1] var hann gleðimaður og gestrisinn, bjó þar gamall maður í sókninni sem Jón hét. Komst hann í kærleika við Erlend sökum greindar sinnar og prúðmennsku. Eitt sinn hélt Erlendur jólaveizlu og sparði ekki föng til. Bauð hann þar til vinum sínum og var þá Jón einn í boði hans. Veizlan fór vel fram og urðu menn hreifir. Spyr Erlendur þá Jón að hvort hann nokkru sinni setið hefði við betri krásir en þar væru þá. „Já,“ segir Jón, „ég hefi neytt langtum ljúffengari og sætari réttar en hér fram kemur og þá þakkaði ég guði mínum matinn með hrærðu hjarta og gleðitárum, en það gjöri ég ekki núna og skortir hér þó ekkert til að vel sé veitt.“ Erlendi brá við svarið því hann vænti annars, og segir: „Er það satt Jón?“ „Já, satt er það,“ segir Jón. „Nær og hvar var það?“ spurði Erlendur aftur. „Það var,“ segir Jón, „þegar ég í manndauðaharðindunum steikti skinnfatagarmana mína og át þá þurra.“ Mælt er að Erlendur sem var maður viðkvæmur og hjartagóður tárazt hafi við þessa sögu Jóns og að hún hafi mjög hrært alla borðgestina.

  1. Erlendur Hjálmarsson (1750-1835) var klausturhaldari og bjó á Munkaþverá 1783-1796.