Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Við embættismannakonurnar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Við embættismannakonurnar“

Þegar Bjarni sýslumaður Halldórsson var á Þingeyrum[1] bjó á Geirastöðum fátækur maður nokkur, sem sýslumaður hafði fyrir böðul og lét vera með sér í þingaferðum til þess að hýða þegar við þurfti. Einu sinni þá þeir höfðu nokkra stund í burtu verið, kemur konan frá Geirastöðum heim að Þingeyrum og finnur að máli konu sýslumannsins og spyr hana, heillina góða, hvert henni sé ekki farið að leiðast eftir manni sínum. „Ekki svo mikið,“ segir hin, „mér þarf ekki að bregða við það, þó honum dveljist, ég er því alvön.“ „Ég trúi það,“ segir böddakonan, „við megum tíðum reyna þetta embættismannakonurnar.“

  1. Bjarni (1703-1773) var sýslumaður í Húnavatnssýslu frá 1728 til dauðadags, bjó á Þingeyrum frá 1737.