Ölvísur I

Úr Wikiheimild
Ölvísur I
höfundur Stefán Ólafsson
Ölið í kvæðum ýmist bjór
ellegar veig má heita,
hreina lögur, horna sjór,
hrosti og milskan feita,
gildi, suml og vegleg virt,
vín og mjöður, en ei er stirt
af slíku bögunum breyta.
Frægðarmenn þeir fyltu horn
forðum upp á barma
víkja tekur venjan forn,
það vekur sumra harma,
skálir og staupin stikla nú
stór og smá, en það er mín trú
eg þurfi af þorsta að jarma.
Skenkjarar þá skapa af list
skúmin eins og rjóma,
opt það fælir vitið úr vist,
virtin legst á góma,
í flestu vaða fyrðar krap
fullhitnaðir af drykkjuskap,
og deila ei synd frá sóma.
Þegar í kolli ölið er,
ypt er leyndarmálum,
það, sem efa ódrukkner
er örugg vissa í skálum,
verjulaus í vopna klíð
verður fús og byrjar stríð
en skríður á skónum hálum.
Áhyggjurnar þrungin þrá
þrýtur í drykkjuranni,
hálærðan við horna lá
heimskur trú eg sig sanni;
en hver er sá, eð staupin stór
staðfylt upp með skúm og bjór
ei gerðu að mælskumanni?
Hver er svo snauður af hölda drótt,
að hann ei örbyrgð gleymi
þegar að mjaðar iðan ótt
inn um varirnar streymir?
En alt er að morgni víl sem var,
vizka farin og hreysti par
að dvínuðum drykkju eimi.
Það er vont að verða ær
með vilja og líkjast svínum,
því enginn veit hvort aptur nær
öllu vitinu sínu,
og þó það veitist víst til sanns,
í valdi reiknast einskis manns,
það er af guði þínum.
Hann hefur gefið þér hugarins megn
og heilsuna utan kvilla,
ilt er að hefjast honum í gegn
og hvorutveggju spilla;
með öli gerir þú einatt það
í óhófinu, er steðjar að,
og það er vondsleg villa.
Styggir þú guð, en sturlar menn
í staupa langri drykkju,
vendu þig á, þá víma renn,
virða að mýkja þykkju,
en fyrri þó við föður vorn Krist
að friðmælast með helgri lyst
og skríða undir hans skikkju.
Í hófi þó ver hreifum oss
honum er stygðin engi
við þann skýra skálafoss
er skemtir lýða mengi;
þar er oss bezt að bíða við,
að bergja og súpa í herrans frið
og stilla hans dýrðar strengi.