Fara í innihald

Útlegðin

Úr Wikiheimild

eftir Stephan G. Stephansson

Ég á orðið einhvern veginn
ekkert föðurland,
þó að fastar hafi um hjartað
hnýst það ræktarband,
minn sem tengdan huga hefur
hauðri, mig sem ól,
þar sem æskubrautir birti
björtust vonarsól.


Fóstran gekk mér aldrei alveg
í þess móðurstað.
Það var eitthvað, á sem skorti —
ekki veit ég hvað —
og því hef ég arfi hennar
aldrei vera sagst.
Þó hefur einhver óviðkynning
okkar milli lagst.


Eins eru ei dalir, firðir, fjöllin
fósturjarðar góð,
byggi héruð, hlíðar, strendur
hálfókunnug þjóð.
Muntu eins feginn faðma að þér
frænda og vina lið,
getirðu andans ættarsvip þinn
ekki kannast við?


Enn um vornótt velli græna
vermir sólskin ljóst,
enn þá lækir hverfast kringum
hvelfdra hlíða brjóst,
báran kveður eins og áður
út við fjörusand —
en ég á orðið einhvern veginn
ekkert föðurland.
Andvökur, úrval Sigurðar Nordals, 2. útgáfa 1980.