Fara í innihald

Útnesjamenn

Úr Wikiheimild
Ótitlað

Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn,
fast þeir sóttu sjóinn
og sækja hann enn.

Unnur bauð þeim faðm sinn svo ferleg og há;
kunnu þeir að beita hana
brögðum sínum þá.

Kunnu þeir að stýra, og styrk var þeirra mund;
bárum ristu byrðingarnir
ólífisund.

Áttu þar á óðalsjörðum auðkýfingar bú;
rjeðu þeir þar ríkjum,
sem rofin eru nú.

Reistu þeir og gáfu þar Guði sínum hús.
Þá var hver á blessaða
bænrækni fús.

Kirkja stóð í Vogi, sem veglegust var,
helguð sankti Máríu
og hennar nafnið bar.

Hún var gefin Maríu, og henni gafst því margt,
gull og eir og silfur
og glóandi skart.

Köldu reis úr hafinu klettaeyja ber.
Gefið var henni nafnið
Geirfuglasker.

Gefið var henni nafnið af Geirfugli þeim,
sem átti þar sinn bjarta,
bárum lukta heim.

Þar átti hann vígi sín, voldug og stór;
umhverfis var brimgarður,
ófærusjór.

Eins frá liðnu öldunum annáll sýnir mjer,
að gefin voru Máríukirkju
Geirfuglasker.

Gull að sækja í greipar þeim geigvæna mar
ekki nema ofurmennum
ætlandi var.

Ekki nema ofurmenni ætluðu sjer
að brjótast gegnum garðinn
kringum Geirfuglasker.

Sem betur þekktu brimið en bókara ment;
loftið og sjóinn
þeir lásu meir en prent.

Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för,
en betri samt en björg að sækja
í Bátsenda vör.

Betri samt en björg að sækja Bátsendum að;
ræningjarnir dönsku
rjeðu þeim stað.

Eggjar mest sú þrautin, sem þiggur launin tvenn;
þeir voru ekki hræddir,
Máríu menn.

Þeir voru ekki hræddir, þeir þekktu hennar mátt
og báðu hana að blessa sjer
bæði stórt og smátt.

Við þeim blasti Vogabáran víðfeðm og blá;
sæmd eru hverjum sjómanni
sigurlaun há.

Sóttu þeir í eyjuna egg og fugla fans;
sökkhlöðnum byrðingi
sigldu þeir til lands.

Farin var þá ferðin til fjár og sæmdar mörg;
færðu þeir í hungraðra
heimkynni björg.

Sæmd er hverri þjóð að eiga sægarpa enn.
Ekki var að spauga með þá
Útnesjamenn.

Ekki er að spauga með íslenskt sjómanns blóð,
ólgandi sem hafið
og eldfjallaglóð,

Ásækið sem logi og áræðið sem brim,
hræðist hvorki brotsjó
nje bálviðra glym.

Svona voru þeir gömlu, og sæmd var að þeim,
sem komnir eru í eilífðar-
höfnina heim.

Lögðu þeir í brimgarðinn lítilli skel,
þó ættu þeir ekki í bátum sínum
útlenda vjel.

Áttu þeir í brjóstum sínum áræði og þor;
flestum mun nú ókleift
að feta þeirra spor.

Nú eru þau sokkin í sæ, þessi sker;
enginn geirfugl heldur
til í heiminum er.

En sjómönnunum sunnlensku með siglandi fley
reist hafa þau bautastein,
sem brothætt mun ei.

Þjóðin geymir söguna öld eftir öld;
minning hennar lýsir
eins og kyndill um kvöld.

Heimild

[breyta]
  • Ólína og Herdís Andrésdætur (1982). Ljóðmæli (Fimmta útgáfa). Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi.