Þúsund og ein nótt/Konungurinn á Tattaralandi, munkurinn og blóðtökumaðurinn
31. nótt
[breyta]„Það var einhverntíma í fyrndinni, að konungur einn á Tattaralandi reið út með hirð sinni sér til skemmtunar; mætti hann þá munki nokkrum, sem kallaði hárri röddu og mælti:
„Hver, sem gefur mér hundrað dúkata, fær heilræði í staðinn.“
Þegar konungur heyrði þetta, bauð hann föruneyti sínu að nema staðar og mælti: „Hvaða heilræði er það, sem þú vilt láta fyrir hundrað gullpeninga?“
Þá svaraði munkurinn: „Undir eins og þér skipið að fá mér féð, skal ég segja yður það.“
Lét þá konungurinn telja honum það af hendi og bjóst við, að fá eitthvað nýstárlegt að heyra fyrir það, sem hann hafði úti látið, en þá mælti munkurinn þessi orð:
„Herra! Í öllu, hvað sem þér takið yður fyrir hendur, þá hugsið um endirinn; þetta er heilræði mitt.“
Fóru þá hirðmenn konungs og höfðingjar að hlæja, og einn tók til orða: „Skárri er það nýlundan, sem munkurinn sá arna hafði að segja.“
Annar sagði, að það hefði verið hyggilegt af honum, að láta greiða sér gjaldið fyrir fram.
En þegar konungur sá, að allir hæddust að munkinum, segir hann: „Það er þarfleysu glens af ykkur, að spottast að heilræðinu, sem þessi góði munkur gaf mér. Þó að hver maður viti, að hann þarf rækilega að íhuga áform sín og það, sem getur af þeim leitt, þá er þessa sjaldan gætt, og sjáum vér á mörgu heimskulega byrjað dags daglega. Mér þykir heilræði munksins mikilsvert. Skal ég ætíð hafa mér það fyrir augum og skipa ég því, að það sé sett með gullnu letri á allar dyr hallar minnar og veggi, alla diska, skálar og önnur húsgögn.“
Var nú boði þessu kostgæfilega fullnægt.
Skömmu síðar ásetti sér einn stórhöfðingi í hirð Tattarakonungs, að svipta hann ríki og lífi; gekk honum fremur til þess valdagirni en það, að hann hefði nokkrar sakir við hann.
Fékk hann sér því eitraðan bíld og bauð blóðtökumanni konungs tíu þúsund gullpeninga, til þess að slá honum æð með þessum bíld. „Þegar þetta er búið“, sagði hann, „kemst ég í hásætið og skalt þú verða stórvezír hjá mér og stjórnum við þá báðir jöfnum höndum.“
Blóðtökumaðurinn var ekki betri maður en svo, að hann gekkst fyrir mútugjöfinni, lofaði svo þessu og ætlaði að ljá sig til illræðisins. Fékk hann skömmu síðar boð frá konungi, að koma og taka honum blóð. Batt hann fyrir um handlegg konungs, eins og hann var vanur, og var sett undir skál, til að taka við blóðinu; því næst tók blóðtökumaðurinn hinn banvæna bíld úr vefjarhetti (túrban) sínum.
En meðan hann var að setja sig í stellingarnar til að slá æðina, varð honum litið niður í skálina og sá hann þetta grafið á: „Í öllu, hvað sem þú tekur þér fyrir hendur, þá hugsaðu um endirinn.“
Kom þá undir eins á hann hik og hugsaði hann með sér: „Ef ég nota þenna bíld, deyr konungur, og þegar hann deyr, verð ég vafalaust tekinn fastur og líflátinn við gífurleg harmkvæli. En hvað stoða mig þessir tíu þúsund gullpeningar, þegar ég er dauður?“
Varð hann smeykur og laumaði eitraða bíldnum aftur í vefjarhöttinn, og tók annan upp úr vasa sínum. Rak konungur augun í þetta og spurði, því hann gerði svo.
„Herra, hinn bítur ekki,“ svaraði blóðtökumaðurinn.
Skipaði konungur honum þá að sýna sér hann. Þá varð blóðtökumaðurinn lafhræddur og stóð eins og dæmdur, en konungur mælti af reiði: „Hvaða fát er á þér? Þessar vöflur koma ekki á þig orsakalaust; seg mér, hverju þú býr yfir, eða þú skalt verða drepinn þegar í stað.“
Blóðtökumaðurinn fleygði sér niður fyrir fætur konungs og stamaði þessu upp, hnípinn og skjálfandi: „Herra! Ef yðar hátign þóknast að hafa miskunn með mér, skal ég segja það.“
„Svo skal vera, seg þú sannleikann og þá skal þér allt verða fyrirgefið,“ mælti konungur.
Meðgekk þá blóðtökumaðurinn, til hvers hirðmaðurinn hefði fengið hann, og sagði konungi, að hann ætti líf sitt að þakka orðum þeim, sem stóðu grafin í skálinni.
Skipaði Tattarakonungur jafnskjótt, að taka drottinssvikarann höndum og lífláta hann, og sneri sér síðan að höfðingjum þeim, er viðstaddir voru, svo mælandi: „Ferst ykkur nú að gera gys að heilræði munksins? Leitið hann upp tafarlaust og leiðið á minn fund. Þau ráð verða aldrei of borguð, sem frelsa líf konunga.“
„Herra!“ mælti vezírinn enn fremur, „ég segi við þig eins og munkurinn: „Í öllu, hvað sem þú tekur þér fyrir hendur, þá hugsaðu um endirinn.“
Varð þessi saga, eins og vezírinn heimfærði hana, til þess, að Sindbað konungur frestaði lífláti Núrgehans enn þá einu sinni. Eftir hádegið reið hann út á veiðar og er hann var heim kominn, borðaði hann kvöldverð með Kansade drottningu.
Eftir máltíðina fór hún að svala hatri sínu á vezírunum og níða þá; tók hún þannig til máls: „Sonur þinn hefur þá fengið frest einu sinni enn þá.“
„Ég get ekki borið á móti því,“ anzaði konungur, „að sagan, sem einn af vezírunum sagði, kom mér til þess; hún var um konung á Tattaralandi, sem munkur nokkur gaf það heilræði, að hugsa jafnan um endirinn, hvað sem hann hefði fyrir stafni.“
„Þá stendur heima,“ mælti drottning, „þú hlustar á vezírana eins og ástríkur faðir, en ekki sem réttlátur konungur; þú hefur látið þessa svikara hræra í þér á ný. Ég veit upp á hár, hvað þeim gengur til; þeir vilja svipta mig elsku þinni og trausti, af því þeir öfunda mig af því, hvað ég ræð miklu hjá þér. Vilja þeir tálma lífláti sonar þíns af því, að ég krefst þess. Það situr helzt á þessum þrælum, sem þú hefur tekið upp af götu þinni og hafið til tignar, að vilja óvirða mig og skerða sæmd mína. Hlýddu viðvörun minni, konungur! Skal ég nú segja þér sögu, sem líka getur um heilræði munks nokkurs, til að færa þér heim sanninn um, hvað ungir menn geta verið illviljaðir.“