Þúsund og ein nótt/Sagan af þriðja karlinum með múlinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Sagan af þriðja karlinum með múlinn
Fairytale left blue.png     Sagan af öðrum karlinum og báðum svörtu hundunum Sagan af fiskimanninum og andanum Fairytale right blue.png    

8. nótt

„Vittu þá, anda drottinn, að múll þessi er kona mín. Svo margan vott elsku minnar, sem ég sýndi henni, felldi hún þó girndarhug til eins svertingja; það var einu sinni, að ég kom heim úr langferð á náttarþeli; gekk ég þá undir eins til herbergis hennar og ætlaði að láta fögnuðinn koma flatt upp á hana. Kom ég þar að henni sofandi í hvílu sinni, og lá þrællinn hjá henni; varð mér svo hverft við þessa sjón, að ég æpti upp yfir mig.

En hún var ekki lengi að átta sig, heldur tók hún vatnskrukku og las yfir galdraþulur, því hún var leikin í töfralist, stökkti á mig vatninu, og breytti mér þannig í hundslíki. Svona á mig kominn var ég flæmdur af heimili mínu.

Kom ég rétt á eftir í slátrarabúð eina. Slátraranum gazt vel að mér, og fór hann með mig heim til sín. En er dóttir hans, sem bar skyn á töfra, sá mig, huldi hún ásjónu sína, og taldi á föður sinn, að hann skyldi koma inn með karlmann, svona að óvörum. Slátrarinn vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið og spurði, hvar maðurinn væri, sem hún talaði um. Benti hún þá á mig og sagði, að ég hefði verið svona töfraður af konu minni, og skyldi hún gefa mér mína upphaflegu mynd, svo að hann fengi sannfærzt um það.

Tók hún þá vatnsker, las yfir því galdraþulur og skvetti síðan á mig úr því, og mælti: „Sé þetta hundslíki þín sanna mynd, sem drottinn vor almáttugur, hefur skapað þig í, þá fylgi það þér framvegis; en hafi því verið brugðið yfir þig með töfrum, meðtaktu þá þína sönnu mynd fyrir náð hins háleita skapara.“

Breyttist ég þá í mannsmynd mína og margþakkaði stúlkunni fyrir velgjörning sinn. Sagði hún mér þar að auki, hvernig ég skyldi fara að breyta konu minni í þá mynd, sem mér litist, og lét mig í því skyni fá nokkuð af sama vatninu, sem hún hafði stökkt á mig. Fór ég heim með það og fann konu mína í fasta svefni. Dreypti ég á hana, eins og dóttir slátrarans hafði fyrir mig lagt, og heillaði hana í múls líki. Snerist hún samstundis í sömu sköpun, sem þið sjáið að hún nú hefur.

Hefur þú nú, andi, heyrt sögu mína,“ sagði þriðji karlinn, „og vona ég að þú gefir mér fyrir hana þriðjunginn af lífi þessa kaupmanns. Sá var gæddur guðlegri andagift, sem þetta sagði: „Góðu skalt þú niður sá, þó jarðvegurinn sé vondur, því það mun aldrei fyrirfarast, hvar sem þú sáir því.“

En er karlinn þagnaði, hristi andinn sig af undrun og ánægju, og afsalaði hann sér líka því síðasta tilkalli, sem hann átti í lífi kaupmannsins, og hvarf eins og hann var kominn, urðu þeir félagar guðsfegnir. Kaupmaður þakkaði þremur körlunum af hjarta, og þeir aftur samfögnuðu honum, að vera sloppinn. Því næst beiddi hver annan vel að fara, og fór sinn í hverja áttina.

En það er af kaupmanninum að segja, að hann fór heim til konu og barna, og lifði með þeim í kyrrð og ró, það sem eftir var ævinnar.

„En minn hái drottinn,“ hélt Sjerasade áfram, „svo fallegar sem þær sögurnar kunna að vera, er ég hef sagt yðar hátign hingað til, jafnast þær samt ekki við söguna af fiskimanninum.“

Svo mælti drottningin en Dinarsade tók til máls: „Elsku systir! segðu okkur þá söguna af þessum fiskimanni, við höfum nógan tíma og soldáninum mun víst líka það vel.“

Sjarjar lét samþykki sitt í ljósi.

Þessi texti er fenginn frá Netútgáfunni