Þúsund og ein nótt/Sagan af Saddyk hestaverði

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Sagan af Saddyk hestaverði
Fairytale left blue.png     Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn Sagan af barninu fundna Fairytale right blue.png    

„Konungi einum í Tattaralandi,“ tók vezírinn til máls, „var einhverju sinni sagt, að einn maður væri í ríki hans, sem hataði svo lygi, að hann segði aldrei ósatt orð. Langaði þá konung til að hafa þenna mann hjá sér, og gerði hann að hestaverði við hirð sina. Nú varð ekki komizt hjá því, að svo nýr hirðmaður fengi öfundarmenn; neyttu þeir allra bragða til að steypa honum. En konungur var ekki svo gerður, að hann léti koma slíkum flugum í munn sér, og rannsakaði hann allt sjálfur. Lagði hann hverja freistnina eftir aðra fyrir hinn nýja hestavörð, og reyndist hann þá svo einarður og hreinskilinn, að hann gaf honum viðurnefnið Saddyk, þ. e. hinn sannsögli.

Enginn af öllum fjandmönnum hans lagði sig eins í framkróka til að steypa honum eins og vezírinn Tangríbirdi. Hann neytti allrar hrekkvísi sinnar til að rægja hann við konung, en það ætlaði ekki að heppnast. Það var einhvern dag, að hann létti á illsku sinni með því að tala við dóttur sína. „Því ofsækir ólánið mig svona?“ segir hann. „Ég er þó búinn að steypa ótal gömlum hirðmönnum, og get ekkert grandað þessum hvítvoðung í hirðinni. Ég hef unnið allt fyrir gíg hingað til, sem ég hef reynt til að fyrirkoma þessum Saddyk.“

Dóttir vezírsins var enginn föðurbetrungur. Í stað þess að telja föður sinn af því að spilla fyrir láni Saddyks, þá ýtti hún undir hann: „Faðir minn góður!“ mælti hún, „vertu bara ekki hugsjúkur. Ef þú ert áfram um að koma honum Saddyk í ónáð hjá konunginum, þá skaltu láta mig eina um það.“

„Og hvernig ætlarðu að fara að því, barnið mitt?“ spurði vezírinn.

„Láttu mig um það,“ anzaði hún, „leyfðu mér einungis að fara til hestavarðarins, og lofa ég því, að svo mikið verði mér ágengt, að hann segi ósannindi upp í opið geðið á konunginum.“

„Gerðu þá sem þér líkar, dóttir mín,“ sagði vezírinn, því hann var blindaður af hatrinu. „Ég leyfi þér allt, hvað dýru verði sem þú efnir heit þitt, ef það aðeins heppnast.“

Nú hugsaði dóttirin ekki um annað en að framkvæma áform það, er hún hafði í hyggju. Hún tók fram beztu föt sín, prýddi sig með gimsteinum sínum, sverti á sér augabrúnirnar og neri á sér hendurnar úr hinna. (Hinna = jurt ein sem vex í Austurlöndum. Hefur kvenfólk blöð hennar til að lita gular á sér neglur, góma og iljar.)

Er þar stutt frá að segja, að þegar hún hafði aukið náttúrlega fegurð sína með öllum þeim töfrum, sem orðið geta með íþrótt og svikaprjáli, fór hún úr húsi föður síns á náttarþeli og fylgdu henni ambáttir nokkrar. Gekk hún til híbýla hestavarðarins, sagði hún ambáttunum þá að fara, og drap á dyr. En er upp var lokið, bar hún það fyrir, að hún þyrfti að tala við Saddyk um eitt mikilsvarðandi málefni.

Var henni hleypt inn og hún leidd inn í herbergi hestavarðarins, og hitti hún svo á, að hann sat í legubekk. Heilsaði hún honum og kom nær, brá síðan upp blæjunni, sem hún hafði fyrir andlitinu, og settist þegjandi niður í legubekkinn hjá honum. Hafði Saddyk aldrei séð svo óumræðilega fegurð, jafnvel ekki í draumum, og varð hann því öldungis frá sér numinn og líkt sem agndofa af undrun.

En stúlkan var ekki til annars komin en að æsa í honum losta, og hafði hún breytni til þess á marga vegu. En er hún þóttist hafa tælt og ginnt hestavörðinn, svo að hann mundi í ekkert horfa, til að hafa eftirlæti hennar, kvað hún upp úr með svo felldum orðum: „Saddyk, undrastu ekki að kona, sem elskar þig, kemur til þín á náttarþeli. Ást mín synjar þér einskis, en þú verður um fram alla hluti að gera eina bón mína.“

„Elsku lífið mitt,“ sagði Saddyk, upptendraður af ástarílaungun, „þú þarft ekki annað en að segja til. Skipaðu þræl þínum. Hvað heimtarðu af honum?“

„Ekki nema það, að mig langaði til að borða með þér,“ anzaði dóttir vezírsins. „Mig blóðlangar í hrossakjöt. Farðu því og slátraðu þegar í stað feitasta hestinum í hesthúsi konungsins, við tökum úr honum hjartað og lifrina og neytum þess síðan bæði saman.“

„Ó, biddu heldur um líf mitt,“ sagði Saddyk, „það er þér velkomið. Ég má ekki snerta hendi á því, sem er eign konungs míns og herra. En frestum máltíðinni til morguns, þá skal ég útvega hest, sem rær í spikinu, og þá skulum við gæða okkur eins og kóngur og drottning.“

„Nei, nei!“ greip mærin fram í, „ég vil eta af konungs hesti. Þetta er raunar skrítið uppátæki, en þú verður að láta það eftir mér.“

„Ég get samt ekki ráðizt í það,“ mælti Saddyk, „ég er hollari konunginum, drottni mínum en svo, að ég vilji gera honum nokkuð mót skapi. Það mun ekki heldur verða óhegnt, og væri ég svo breyskur að láta eftir ósk þinni, mundi ég vafalaust fá þess að gjalda.“

„Vertu óhræddur!“ anzaði dóttir vezírsins, „spyrji konungurinn, hvað orðið sé af hestinum, segir þú, að hann hafi sýkzt af ólæknandi kvilla, og hafir þú drepið hann af framsýni og fyrirhyggju, svo að hinir hestarnir ekki sýktust. Konungur hefur gefið þér viðurnefni og kallað þig Saddyk sannsögla, og mun hann trúa þér og hæla þér í tilbót fyrir forsjálnina.“

Nú fóru að renna tvær grímur á hestavörðinn og hugsaði hann með sér: „Hvað á ég að gera? Annars vegar aftrar mér lotningin fyrir konunginum og kvíðinn fyrir hegningunni, en hins vegar tælist ég af yndisleik þessarar mánabjörtu ásjónu.“

Hún herti þá að honum með kjassi og þrálátum bænum, og það fór með hann. Gengu þau þá síðan bæði út í hesthúsið kóngsins. Þar beiddi dóttir vezírsins hann endilega að drepa svartan hest, sem stóð einn sér.

Þá byrjaði aftur fyrir hestaverðinum hugarstríðið milli ástríðunnar og skyldurækninnar. „Hvað heimtarðu, drottning mín!“ kallaði hann upp, „þú leiðir elsku mína, í of grimma freistni. Vita skaltu þá, að svarti hesturinn þarna er sá af hestunum, sem konunginum þykir vænst um. Ég get ekki gert vilja þinn. Kjóstu einhvern af hinum og óðara skal ég drepa hann. Mér er ekki unnt að gera þér meira að skapi, og þú getur ekki ætlazt til, að ég láti meira eftir þér.“

En yngismærin lét ekki þoka sér, heldur hljóp hún um háls Saddyk og kjassaði hann með sætri rödd: „Herra minn, hestavörður minn elskulegi, ég særi þig, gerðu það sem ég bið þig. Ég veit það, að þessi ástarraun, sem ég hef lagt fyrir þig, kemur nokkuð í bága við skyldu þína, en kvenfólkið tekur stundum upp á ýmsum brekum og vill endilega hafa það fram, sem það hefur tekið í sig. Haf því vorkunn með duttlungasemi minni, ég skal unna þér sem lífi mínu og meira en það, ef þú gerir þetta, sem ég bið um.“

Þetta mælti hún með sætasta fagurgala og ljúfustu ástaratlotum, svo að hestavörðurinn mátti ekki lengur standast. Hann tók upp hníf og svæfði svarta gæðinginn Tattarakonungsins. Tóku þau úr honum hjartað og lifrina og steiktu, og át Saddyk það með dóttur vezírsins. Var hún hjá honum þangað til undir morgun.

En er birti af degi, kvaddi hún hann og fór heim til föður síns og sagði honum allt hvernig farið hafði. Vezírinn varð svo ákaflega glaður, af því hann þóttist sjá tortímingu Saddyks í hendi sér, að hann íhugaði ekki hvað dóttir hans hafði lagt í sölurnar. Fór hann undir eins á konungs fund og sagði honum frá þessum atburði, en gat þess ekki, að kvenmaðurinn, sem hlut átti að máli, væri dóttir sín, og að þau bæði hefðu sett þessi ráð.

Meðan vezírinn var nú að segja konunginum frá þessu með öllum þeim illvilja, sem orðið getur, þegar útfarinn hirðmaður ætlar að steypa þeim, sem hann öfundar, rankaði Saddyk við sér.

Hann nagaði sig í handarbökin út af tiltækinu um nóttina: „Mikla heimsku gerir maðurinn,“ hugsaði hann með sjálfum sér, „þegar hann lætur fýsnir sínar hlaupa svona með sig. Það hefði verið miklu hyggilegra af mér, að vísa þessari fögru konu burt með afsvörum en að slátra uppáhalds gæðingnum konungsins henni til þægðar. Þá væri ég ekki bitinn og stunginn af þessum hugarkvölum. Hvernig ætli nú fari fyrir mér? Hvað á ég að segja konunginum, herra mínum, þegar hann heimtar hest sinn? Á ég að grípa til lyginnar og segja honum ósannindi upp í opið geðið, þar sem ég hef haft það fyrir óbrigðult lögmál, að tala aldrei ósatt orð? Með þessu móti bæti ég nýjum glæp ofan á þann, sem drýgður er. En ef ég játa hreinskilnislega ávirðing mína, verður það minn bani. Hvað á ég þá að taka til bragðs af þessu tvennu? Ljúga - gott og vel! Ég fer til hallarinnar.“

Um leið og hann mælti þetta, tók hann ofan húfuna og lagði hana á jörðina. „Látum nú sem þessi húfa sé konungur. Við skulum vita, hvort við getum logið upp í opið geðið á honum. Nú geng ég inn og hneigi mig, og hann segir: „Saddyk, söðlaðu svarta gæðinginn minn, ég ætla að ríða út í dag.“

„Herra!“ svara ég þá og fleygi mér niður fyrir fætur honum, „það hefur orðið snöggt um hann í nótt. Í gærkveldi var ómögulegt að koma honum til að éta, og um miðnætti drapst hann, og veit ég ekki, hverjum um er að kenna.“

„Hvað er þetta?“ mun konungur segja, „er svarti gæðingurinn minn dauður, hann sem var svo ljónfjörugur í gærdag, hvernig stendur á því, að það skyldi henda hann einan innan um svo marga í hesthúsinu mínu? Snáfaðu burt. Þú ætlar að frelsa þig með undanbrögðum og útúrdúrum, þú hefur selt hestinn minn góða einhverjum útlending, sem hefur þeyst burt á honum, eða þú hefur drepið hann sjálfur í fólsku. Þú skalt samt ekki hugsa, að þú sleppir hjá hefnd minni, þér skal verða launað sem maklegt er. Heyrið, varðmenn! Takið illmenni þetta og höggvið hann undir eins í stykki.“

Þetta mun nú konungur segja, og gjalda mér þannig hina fyrstu lygi, sem komið hefur yfir mínar varir. En ef ég nú segi satt, vitum til, hvort þá fer betur. „Saddyk! Sæktu gæðinginn minn svarta, ég ætla að ríða út.“

„Ó, þú konungur! Hér stendur þræll þinn frammi fyrir þér, fullur angurs og örvæntingar. Í nótt er var kom stúlka til mín og beiddi mig um hjartað og lifrina úr svarta hestinum þínum, og ég gat ekki synjað henni.“

„Hvað segir þú? Þú lézt þá fallega hestinn minn fyrir eftirlæti kvenmanns. Sækið þið böðulinn, að hann geri skyldu sína!“

Þetta liggur fyrir mér,“ sagði hestavörðurinn enn fremur við sjálfan sig, „hvort sem ég lýg eða segi satt, er dauðinn óumflýjanlegur. Ó, mig auman! Bölvað sé hið töfrandi flagð, sem kom mér í þennan bobba.“

Í því hann var þarna þungt hugsandi, fékk hann boð frá konungi að koma. Hlýddi hann á augabragði og fann þar vezírinn, fjandmann sinn. „Saddyk!“ sagði konungur, „láttu söðla svarta gæðinginn minn, ég ætla að ríða út á veiðar.“

Við þessi orð brá hestaverðinum ógurlega og svaraði hann eins og í fáti....


19. nótt

Hestavörðurinn svaraði þannig skipun konungs, að leggja á svarta hestinn, og var nú dauðhræddur: „Konungur! Núna í nótt vildi þjóni þínum mikil ógæfa til. Ef yðar hátign þóknast, skal ég útskýra það betur.“

„Segðu það þá!“ anzaði konungur, og hélt Saddyk því áfram:

„Ég sat í gærkveldi heima hjá mér, þá kom stúlka til mín og hafði blæju fyrir andlitinu. Hún settist í legubekkinn hjá mér. Síðan tók hún blæjuna frá andlitinu og var það yndislega fagurt. Ég varð svo frá mér numinn, að ég réði mér ekki. Ég sór henni elsku mína og mundi hafa gert út af við hana með blíðlæti mínu, hefði hún ekki aftrað mér ástúðlega.

„Ég trúi því ekki“, sagði hún, „að elska þín sé einlæg, nema þú gefir mér hjartað og lifrina úr bezta reiðhestinum konungsins.“

Svo hugfanginn, sem ég var, svaraði ég því samt, að það væri ógjörningur fyrir mig og óhæfa, að slátra skepnu, sem yðar hátign þætti svo vænt um. En hin töfrafulla mær lagði hendur um háls mér og talaði svo fögrum orðum, að ég gat ekki lengur synjað henni. Játa ég þér, drottinn minn og herra, afbrot mitt, einart og einlæglega, og ætla ég ekki að ljúga mig undan maklegri hegningu, heldur sel ég sjálfan mig fram. Þarna er sverðið, konungur, og hérna er höfuðið.“

Þá sneri konungurinn sér að vezír sínum og bauð honum að segja, hvers Saddyk væri maklegur. Hann varð léttbrýnn við og svaraði: „Herra! Að minni hyggju ætti að brenna hann á seintlogandi eldi. Sá getur ekki átt neina miskunn skilið, sem gat haft sig til að drepa uppáhalds gæðinginn yðar.“

„Þá get ég ekki verið þér samdóma, vezír!“ segir konungur, „ég held það sé hyggilegra, að fyrirgefa hina fyrstu yfirsjón, en að refsa fyrir hana.“

Því næst vék hann sér að hestaverðinum og mælti: „Ég dáist að hreinskilni þinni og tek ekki hart á breyskleika þínum. Hefði ég verið í þínum sporum, er vísast að ég hefði ekki einungis lagt svarta hestinn í sölurnar, heldur hvert og eitt hross í hesthúsinu mínu. Ég fyrirgef þér og virði það svo mikils við þig, að þú skyldir segja sannleikann í þetta skipti, að ég nú skipa, að þér sé þegar í stað rétt tignarklæði.“

Þegar vezírinn sá, að hestavörðurinn hlaut verðlaun í stað refsingar, og að dóttir hans hafði lagt sjálfa sig í sölurnar til ónýtis, tók hann sótt af gremju yfir því og dó skömmu á eftir, en Saddyk sannsögli tók við embættinu að honum látnum:

„Herra!“ mælti vezír Sindbaðs konungs ennfremur, „þú ættir að vera íhugasamur, ekki síður en konungurinn á Tattaralandi. Fyrirgefðu hina fyrstu ávirðingu - en hvað segi ég? Hvar er sönnun fyrir því, að kóngssyni hafi nokkuð á orðið? Þú hefur ekki sakfellt hann eftir öðru en sögusögn drottningarinnar. Guð varðveiti þig frá því, að úthella blóði sonar þíns, þar sem þú hefur ekki meira fyrir þér. Skipaðu að minnsta kosti, að Abúmasjar verði leitaður uppi áður, því hann mun víst geta sagt okkur með sanni, hvernig stóð á málleysi Núrgehans, og mun það eitthvað vera af hans toga spunnið.“

Soldáni litust fortölur þessar vera hyggilegar, skipaði að leita upp spekinginn Abúmasjar, og sló lífláti Núrgehans á frest. Síðan reið hann út á veiðar og borðaði með drottningu um kvöldið.

Sat hún ekki af sér tækifærið, að koma hefndar áformi sínu áleiðis, og sagði því við Sindbað: „Herra! Það tekur engu tali, hvað þú dregur refsingu Núrgehans, og mun þig iðra þess, eins og Bajasíd soldán iðraðist eftir miskunnsemi sína.“

„Hvernig þá?“ spurði soldán, og Kansade sagði honum söguna:

„Það var einhverju sinni, að konungurinn fann hund grindhoraðan og glorhungraðan, og kenndi í brjósti um hann. Hann tók hann með sér og flutti hann á einn stað, þar sem honum var nákvæmlega hjúkrað og gefið vel að éta. Hundurinn náði sér og stækkaði, en einu sinni beit hann af hvefsni sinni soldáninn, velgjörðarmann sinn.

Sagði þá soldán í reiði: „Þú áttir of gott, kvikindið þitt, ég gerði vel til þín, og því bíturðu mig þá?“

Þá varð það með vilja allsvaldanda guðs, að hundurinn svaraði honum: „Soldán! Örg náttúra batnar aldrei.“

„Hugsaðu vel eftir því,“ bætti Kansade við, „afstýrðu því með framkvæmd hins réttláta dóms, að ekki fari fyrir þér eins og hinum ólánsama konungi, sem ég ætla nú að segja þér frá, ef þú leyfir:

Þessi texti er fenginn frá Netútgáfunni