Þúsund og ein nótt/Sagan af Sjabeddín fróða

Úr Wikiheimild

16. nótt[breyta]

„Það var einhvern dag, að soldán Egiptalands stefndi öllum fræðimönnum ríkisins í höll sína; hófst þá þræta á milli þeirra. Svo er mælt, að engillinn Gabríel hafi burtnumið Mahómet úr hvílu sinni, og sýnt honum allt, sem er í hinum sjö himnum, í paradís og í helvíti. En er spámaðurinn með þessum hætti hafði átt níutíu þúsund samtöl við drottinn, flutti engillinn hann aftur ofan í rúmið hans. En þetta hafði allt orðið með svo skjótri svipan, að Mahómet fann sængina volga og gat reist upp vatnskrukku, sem oltið hafði um, þegar hann var burtnuminn, og var ekki farið niður allt vatnið, sem í henni var.

Soldán var forseti á samkomu þessari, og stóð á því fastara en fótunum, að þetta væri ómögulegt. „Eftir því sem þið fullyrðið,“ mælti hann, „eru sjö himnar til, og er fimmhundruð ára vegur milli hvorra tveggja, og er þar á ofan hver himinn eins djúpur, og langt er bilið milli himnanna. Hvernig gat það þá átt sér stað, að Mahómet skyldi finna sængina volga, þegar heim kom, og vatnið ekki vera alveg runnið úr krukkunni, sem oltið hafði, og þá var hann búinn að fljúga gegnum alla himnana og tala níutíu þúsund sinnum við guð. Hver ætli sé svo auðtrúa að halda, að svo hlægileg skröksaga geti verið sönn? Eða vitið þið ekki, að þegar þið fellið niður fulla vatnskönnu, og takið hana upp á augabragði, þá er varla neitt vatn eftir í henni?“

Vitringarnir svöruðu því, að slíkt væri ekki einleikið og yrði ekki á náttúrlegan hátt; en guðs almætti væri enginn hlutur ómáttugur. Soldán var trúmaður enginn og gerði sér það að aðalreglu, að trúa engu, sem stríddi móti skynseminni. Hann vildi því ekki kannast við þetta undur, og fóru vitringarnir hver heim til sín, en þræta þessi hafði samt vakið athygli manna í öllu landinu.

Það barst þá líka til eyrna Sjabeddíns fróða, en gildar orsakir höfðu hamlað honum að eiga sæti á samkomunni. Fór hann nú til hallar soldáns, þegar dagshitinn var megnastur. En er soldán varð þess vís, hver kominn var, gekk hann sjálfur til móts við hann og leiddi hann inn í skrautlegt herbergi.

Bauð hann honum að setjast niður og mælti: „Það var óþarfi fyrir þig, vitringur, að fara hingað, þú hefðir ekki þurft annað en að senda einhvern af þjónum þínum, og mundum vér fúslega hafa veitt honum allt, sem hann hefði beðið um í þínu nafni.“

Vitringurinn svaraði, að aðalerindi sitt væri, að hljóta þá sæmd, að tala stundarkorn við hans hátign. Soldán vissi að það orð fór af vitringnum, að hann væri stoltur og stórlátur, þegar konungar væru við; var hann því viðfeldinn og alltilegur við hann.

Nú voru fjórir gluggar á herberginu, sem þeir voru í, og sneri í sína áttina hver. Beiddi vitringurinn soldán að loka þeim, og er það var gert, sátu þeir góða stund og voru að tala saman. Síðan lét vitringurinn ljúka upp aftur einum glugganum, sem vissi út að fjallinu Kiseldaghi (þ. e. hið rauða fjall) og spurði konung, hvort hann vildi ekki líta út.

Soldán gekk þá út að glugganum og sá að fjallið og sléttlendið var alþakið riddurum, brynserkjuðum og skjölduðum, og var það slíkt ógrynni sem stjörnur himinsins. Þeystu þeir að höllinni með brugðnum sverðum.

Þegar konungur sá þessa sjón, skipti hann litum og hrópaði dauðhræddur: „Hvaða ógurlegur her er þetta, sem fer að höll minni?“

„Sláið ekki slíku á yður, herra,“ segir vitringurinn, „þetta er markleysa.“

Svo mælti hann og lokaði sjálfur glugganum, sá þá soldán ekkert kvikt á fjallinu eða sléttlendinu. Annar glugginn vissi að borginni, og lét nú vitringurinn ljúka honum upp; sá þá soldán, hvar öll borgin Kaíró stóð í björtu báli og tóku logarnir til himins.

„Mikill ógurlegur eldsvoði,“ kallaði konungurinn upp forviða, „þarna brennur borg mín, hin fagra Kaíró, til kaldra kola.“

„Sláið ekki slíku á yður, herra,“ mælti vitringurinn, „þetta er markleysa.“

Lokaði hann þá undir eins glugganum, lauk honum upp aftur, og var eldurinn horfinn.

Nú lét vitringurinn ljúka upp þriðja glugganum og sá þá soldán, hvernig Nílfljótið flóði yfir bakka sína og velti bylgjunum að höllinni eins og í hafróti.

Hefði nú soldán ekki átt að óttast þetta nýja undur, því hann hafði séð að ekkert varð úr herliðinu og eldsvoðanum, en samt gat hann ekki að sér gert að hræðast og æpti upp yfir sig: „Við erum frá, þetta skelfilega vatnsflóð sópar höll minni burt með sér og uppsvelgir mig og alla þegna mína.“

„Sláið ekki slíku á yður, herra,“ mælti vitringurinn enn á ný, „þetta er markleysa.“ Og er hann hafði lokað glugganum og lokið honum upp aftur, sást Nílfljótið og rann á milli bakkanna eins og vant var.

Síðan lauk hann upp fjórða glugganum, sem vissi út að hrjóstugri eyðimörk, og svo sem konungur hafði orðið óttasleginn af því, sem hann sá fyrri, eins varð hann unað fanginn af sjón þeirri, er nú bar fyrir hann. Hann var ekki vanur að sjá annað út um þenna glugga en hrjóstur og harðbala og því brá honum vel við þau umskipti, er hann sá ekki annað en vínbrekkur og lystigarða, fulla af hinum ágætustu aldintrjám, runnu niðfagrir lækir smátautandi milli bakka sinna, sem voru alþaktir rósum, basilíkum, balsamsrunnum, hyasintum og narissum, sem ljómuðu fyrir augun og ilmuðu fyrir vitin. Innan um blómin sást ógrynni af turtildúfum og næturgölum, voru sumir fuglarnir uppgefnir af fluginu og kvakinu, en sumir fylltu loftið með sætum og angurblíðum kliði.

Varð konungurinn öldungis frá sér numinn af því, er hann sá, og hélt að Eramsgarður eða hin jarðneska paradís væri upplokin fyrir sér. „Ó, hvílík umskipti“, kallaði hann upp, utan við sig af undrun, „hvílíkur ljómandi garður, mikið yndi væri að vera hér, hvílík skemmtun væri að reika þarna á hverjum degi!“

„Kætist ekki um of,“ segir vitringurinn, „þetta er markleysa.“

Að því mæltu lokaði hann glugganum. En er hann lauk honum upp aftur, sá soldán ekkert nema eyðimörkina gömlu í stað hinnar inndælu sjónar.

„Herra!“ mælti vitringurinn, „ég hef nú látið yður sjá nokkur furðuverk, en þau eru ekkert hjá einu frábæru undri, sem ég ætla að sýna yðar hátign. Þóknast yður að skipa, að borið sé hingað ker fullt af vatni.“

Skipaði soldán einum af þjónum sínum að gera það, og er kerið var komið inn, mælti vitringurinn: „Leyfið, herra, að þér séuð afklæddir, bundinn dúkur um mjaðmir yðar og þér síðan settir niður í vatnið.“

En er þessum viðbúnaði var lokið, segir vitringurinn: „Náðugi herra, gerið svo vel og dýfið höfðinu niður í vatnið og hefjið það upp aftur.“

Soldán dýfði sér niður í vatnskerinu....


17. nótt[breyta]

Soldán Egiptalands fór í kaf með höfuðið í vatnskerinu, og í sama bili vissi hann ekki fyrri til en hann stóð undir fjalli einu við sjávarströnd. Undraðist hann yfir þessu fáheyrða stórmerki enn þá meira en hinum fyrri, en varð þar á ofan hamslaus af reiði og kallaði: „Hrekkjafulli vitringur! Þú sem hefur svo grimmilega leikið á mig, komi ég nokkurn tíma aftur til Egiptalands, sem þín hin djöfullega íþrótt hefur flæmt mig af, þá vinn ég þess dýran eið, að ég skal hefna mín á þér.“

Hann var nú stundarkorn að formæla vitringnum, en sá þó fljótt að hér dugðu engar heitanir né harmatölur. Herti hann því upp hugann og gekk til manna nokkurra, sem voru að höggva við á fjallinu. Þótti honum samt óráð að láta uppskátt, hver maður hann væri, því hann hugsaði með sér: „Ef ég segist vera soldán, trúa þeir mér ekki og halda ég sé falsari eða fábjáni.“

En þeir sem voru að höggva viðinn, spurðu, hver hann væri, og svaraði hann: „Ég er kaupmaður, bræður góðir, og hef brotið skip mitt, og komst sjálfur af á fjöl einni. Þegar ég sá ykkur, gekk ég undir eins til ykkar, og veit ég að þið munuð kenna í brjósti um mig, þegar þið sjáið, hvað hörmulega ég er til reika.“

Þeir hrærðust líka til meðaumkvunar af óláni hans, en voru sjálfir svo bágstaddir, að þeir áttu nóg með sjálfa sig. Samt gáfu þeir honum allir eitthvað, því þetta voru góðir menn. Einn gaf honum gamla flík, og annar gaf honum skógarma, og þegar þeir höfðu klætt hann með þessum hætti, svo að hann gat farið skammlítið inn í borgina, sem var fyrir handan fjallið, þá fylgdu þeir honum þangað.

En er þangað var komið, báðu þeir hann vel að fara og fólu hann guðs forsjón á hendur, en sjálfir héldu þeir heimleiðis. Var þá soldán aleinn. En svo unaðssamt sem mönnum þykir að horfa á nýstárlega hluti, þá var soldán áhyggjufyllri um hagi sína en svo, að hann liti eftir því, sem kringum hann var. Ráfaði hann hingað og þangað um borgarstrætin eins og í leiðslu. Var hann nú þegar orðinn þreyttur og fór að sjást um, hvar hann gæti hvílt sig, og nam staðar hjá húsi hestajárnara nokkurs. Sá hann það á aðkomumanni að hann mundi þurfa hressingar við og bauð honum inn að ganga. Kom soldáni það vel og þáði boðið og tyllti sér niður á bekk, yzt við dyrnar.

„Ungi maður,“ spurði húsbóndinn, sem var farinn að eldast, „má ég spyrja: hvað leggur þú fyrir þig, og hvernig stendur á því að þú ert kominn hingað?“

Soldán gaf honum sömu andsvör og mönnunum á skóginum og sagði ennfremur: „Ég hitti góða menn, sem voru að höggva við; voru þeir svo drenglyndir að gefa mér þessa fornfálegu yfirhöfn og þessa skógarma.“

Hestajárnarinn svaraði, að sér þætti vænt, að hann hefði komizt af, er hann braut skip sitt. „Settu ekki fyrir þig fjárlát þitt,“ mælti hann, „þú ert enn á bezta aldri, og hver veit nema þú verðir uppgangsmaður hérna í borginni? Hér er í mörgu hlynnt að útlendum mönnum, sem vilja taka sér bólfestu hér, eða hefur þú það ekki í hyggju?“

„Jú!“ anzar soldán, „ég óska einskis fremur en að mega ílengjast hérna, ég á við, ef allt heppnast vel.“

„Farðu þá að mínum ráðum,“ tók karlinn aftur til máls. „Far þú til hins opinbera kvennabaðhúss, seztu við dyrnar og spurðu hverja konu, sem út gengur, hvort hún sé gift. Þá verður sú kona þín, sem nei segir, eftir því sem hér er landssiður.“

Soldán hugsaði sér að nota þetta ráð, kvaddi karlinn og gekk til dyranna á baðhúsinu og settist þar niður. Þegar hann hafði setið þar ofurlitla stund, kom út kona forkunnar fögur. Hugsaði hann með sér, þegar hann sá hana: „Ó, mikill lánsmaður væri ég, ef þetta gull af kvenmanni væri ógift. Fyrir hennar sakir gæti ég unað óláni mínu.“

Því næst gekk hann að henni og spurði: „Fagra kona, eigið þér mann?“

„Mann á ég,“ svaraði hún, og soldán mælti:

„Það er illa farið, þér hefðuð getað orðið gæfulánið mitt.“

Fór þá konan leiðar sinnar, og kom skjótt önnur, en sú var herfilega ljót. Varð soldán skelkaður, er hann sá hana og hugsaði með sér, að betra væri að deyja af hungri en að eiga sambúð við slíka ófreskju. „Ég ætla að sleppa að spyrja hana, hún kynni að segja nei. En hestajárnarinn hefur sagt mér, að yrða á allar konur, líklega er það regla, og verð ég að hegða mér eftir henni. En ef hún skyldi nú vera ógift, hver veit samt nema einhver slysinn útlendingur, sem ill forlög hafa hrakið hingað, hafi átt hana.“

Réði því soldán það af, að spyrja hana líka, hvort hún væri gift, og er hún kvað já við því, gladdist hann að sama skapi, sem hann hryggðist af svari fyrri konunnar.

Nú kom þriðja konan, og var hún viðlíka ófrýnileg og hin önnur, og stundi soldán þungan er hann sá hana. „Drottinn minn! hér er hver annarri andstyggilegri. En ekki dugar að hætta í miðju kafi. Sé þessi gift, veit ég það, að þeir eru til, sem brjóstumkennanlegri eru en ég.“

Spurði hann þá, í því hún gekk framhjá, og var heldur skjálfraddaður: „Fagra kona, eruð þér giftar?“

„Já, ungi maður!“ anzaði hún, og stóð ekkert við, en soldán varð guðsfeginn svarinu.

„Mikil heppni var yfir mér, að ég skyldi verða óhultur fyrir báðum þessum konum?“ sagði hann við sjálfan sig, „en enginn dagur er til enda tryggur.“ Það eru ekki allar konur gengnar frá laugum enn þá, og á ég eftir að sjá þá, sem mér er ætluð. Hver veit nema ég verði heppnari?“

Var hann nú viðbúinn að sjá einhverja, sem ljótari væri en báðar hinar, en þá kom hin fjórða, og var fríðari en hin fyrsta, þó hún væri undurfögur.

„Hvílíkur mismunur!“ kallaði hann upp, „dagurinn er ekki eins ólíkur nóttinni og þessi er báðum hinum, sem komu næst á undan. Geta englar og djöflar verið á sama stað?“

Lagði hann sig nú allan til og gekk á móti henni og mælti: „Yndislega kona, eigið þér mann?“

„Nei“, svaraði hún, og virti hann fyrir sér frá hvirfli til ilja með aðgætnum, en þóttalegum augum; gekk hún burt og lét soldán sitja einan eftir öldungis forviða.

Hann vissi ekki, hvað hann átti að halda, og fór að gruna að hestajárnarinn hefði gert sér grikk. „Ef ég á að eiga þessa konu“, hugsaði hann, „eftir landslögum hér, því gekk hún þá svo snúðugt burt? Því leit hún á mig með slíkum þótta og fyrirlitningu? Hún virti mig fyrir sér í krók og kring, og ég sá það út úr henni, að henni þótti ég lítill fyrir mann að sjá. Það er líka sannast að segja, að henni er vorkunn. Þessi yfirhafnar ræfill, sem allur er í sundur, er ekki þesslegur, að hann geri mig álitlegri og útgengilegri í augum kvenfólksins. Ég skal aldrei lá henni, þó hún þættist geta valið sér betri mann.“

Meðan soldán Egiptalands var að hugleiða þetta, kom þræll til hans og ávarpaði hann þannig: „Herra! Ég er að leita að útlendingi nokkrum, sem allur er rifinn og tættur, og lízt mér svo á yður, að þér munið vera maðurinn. Gerið svo vel, ef þér eruð viðlátnir, að fara með mér, ég á að fylgja yður á einn stað, yðar er beðið þar með óþolinmæði.“

Fór soldán nú með þrælnum og kom í stórt hús, var honum þar vísað inn í stórt og þokkalegt herbergi, og var hann beðinn að bíða þar. Var hann þar svo tvær stundir, að hann sá engan mann, nema þrælinn, sem var að smákoma til hans og biðja hann að verða ekki óeirinn. En loksins komu fjórar konur skrautlega búnar með hinni fimmtu, sem öll ljómaði af gimsteinum, og þó öllu fremur af óviðjafnanlegri fegurð. Undir eins og soldán gat að líta hana, sá hann að þar var komin sú, sem seinast gekk frá laugunum.

Hún gekk til hans vinaleg og brosandi og mælti: „Fyrirgefðu mér, að ég hef látið þig bíða nokkra stund, en ég vildi ekki koma hirðulauslega búin fyrir augu herra míns. Þú ert í þínum eigin húsum; allt, sem þú sér í kringum þig, er þitt. Þú ert maðurinn minn og þarft ekki annað en skipa, ég er boðin og búin að hlýða.“

„Fagra kona,“ anzaði soldán, „fyrir skemmstu harmaði ég forlög mín, og nú er ég allra manna sælastur. En fyrst ég er nú orðinn maðurinn þinn, segðu mér þá, hvers vegna þú leizt svo drembilega til mín? Ég var hræddur um, að þér hefði ekki litizt á mig, og sannast að segja, þér var vorkunn.“

„Herra!“ svaraði konan, „ég gerði það með ásettu ráði, því í þessari borg verða konur að vera þóttalegar, þegar þær koma opinberlega fram. Þetta er landssiður, en því ljúfari og viðfeldnari erum við á heimilinu.“

„Og því elskuverðari,“ greip soldán fram í. En fyrst ég nú er húsbóndi, ætla ég að byrja hússtjórn mína á því að skipa, að skraddari og skóari verði sóttir handa mér. Ég fyrirverð mig að standa frammi fyrir þér í þessum tötrum, og svo langt man ég, að mér hæfði ekki slíkur klæðnaður.“

„Ég hef orðið skjótari að bragði með þessa skipun,“ sagði konan, „ég var búin að senda þræl einn til Gyðings, er selur tilbúin föt, hefur hann allt undir eins á reiðum höndum, sem þú kannt að þarfnast. En komdu nú á meðan og fáðu þér hressingu.“

Svo mælti konan og leiddi hann við hönd sér inn í sal einn, var þar uppbúið borð, hlaðið ávöxtum og ýmsum súrsuðum réttum. Settust þau nú til borðs. En meðan þau neyttu matar, stóðu fjórar aðrar konur bak við þau, og sungu nokkur kvæði eftir skáldið Bada Saoudai, og léku á ýmisleg hljóðfæri. Loksins greip húsmóðirin gígju eina og skemmti soldáninum með strengjaleik og söng.

En þá kom Gyðingurinn, svo að hún varð að hætta þeirri skemmtun. Fylgdu honum þjónar og báru stranga, sem margskonar klæðnaður var í. Var því nú öllu flett í sundur og skoðað, og síðan valið úr, gullrósað silkivesti og lifrauð klæðiskápa, og er Gyðingurinn hafði látið af hendi önnur föt, sem nauðsynleg eru til fullkomins klæðnaðar, fór hann burt með þjónum sínum.

Þótti konunni nú soldán búast um og fannst mikið um vöxt hans og yfirbragð; voru þau bæði jafn-ánægð, hvort með annað. Hann bjó saman við hana í sjö ár og gat við henni sjö sonu og sjö dætur. En af því bæði voru útsóunarsöm og hugsuðu ekki um annað en að eiga gott og skemmta sér, eyddust fljótt fjármunir konunnar. Þau urðu að vísa þjónustustúlkum og ambáttum úr vistinni, og selja húsgögnin, hvert á fætur öðru, til þess að halda við lífinu.

En þegar kona soldáns sá ekki út úr bágindunum, segir hún við mann sinn: „Meðan eigur mínar entust til, varstu óspar á þeim; þú hefur lifað í iðjuleysi og átt góða daga. Nú kemur til þinna kasta að vinna fyrir heimili þínu.“

Hryggðist konungur við þessi orð og leitaði upp hestajárnarann gamla, og ætlaði að fá hjá honum heilræði. „Faðir góður,“ segir hann við hann, „nú er ég enn þá volaðri en þegar ég kom í þessa borg. Nú á ég konu og fjórtán börn, en hef ekkert til að veita þeim fæðslu.“

„Kanntu þá enga iðn?“ segir karlinn, og er soldán kvað nei við, tók hann upp hjá sér tvo peninga og gaf honum og sagði:

„Farðu og kauptu þér undir eins tvo létta, og gakktu síðan innan um daglaunamennina á torginu.“

Soldán hlýddi ráðum hestajárnarans og beið litla stund innan um hina verkmennina, þangað til maður kom til hans og beiddi hann að bera nokkuð fyrir sig. „Til þess er ég hingað kominn,“ segir soldán, og varð nú að rogast með stóreflis poka, sem hann orkaði varla að bera, og meiddist hann á öxlunum af byrðarbandinu.

Hann fékk einn Aktsja (pening) í kaup og fór með hann heim, en kona hans sagði honum, að ef hann ekki ynni sér tífalt meira inn á dag en þetta, mundu þau öll svelta í hel á heimilinu.

Daginn eftir fór aumingja soldáninn ekki á torgið, heldur rölti hann niður að sjó, gekk þar fram og aftur og var að hugsa um ólán sitt. Hann starblíndi á staðinn, þangað sem hann hvarf fyrir kunnáttu Sjabeddíns fróða, og er hann rifjaði upp fyrir sér þetta merkilega ævintýri, gat hann ekki tára bundizt. En er hann hafði þvegið sér eins og fyrirskipað er, áður en hann gerði bæn sína, kafaði hann með höfuðið niður í sjóinn, og er hann hóf aftur höfuðið upp úr, sá hann hvar hann stóð í vatnskerinu í höll sinni, og allt hirðfólkið í kring.

Þá gekk hreint fram af soldáni. Sá hann að Sjabeddín stóð frammi fyrir sér, í sömu sporunum og þegar hann hvarf frá honum, hrópaði hann þá í reiði: „Grimmi vitringur! Hræðist þú ekki refsingu drottins, að þú skulir gera soldáni þínum og herra slíkan grikk?“

„Herra,“ segir vitringurinn, „því reiðist yðar hátign mér svo, þér hafið rétt að eins stungið höfðinu niður í vatnskerið og tekið það upp aftur, embættismenn yðar, sem hér eru viðstaddir, geta vitnað það.“

„Yðar hátign!“ æptu allir í einu hljóði, „vitringurinn segir satt!“

En soldán lét sér ekki nægja þenna vitnisburð, heldur svaraði bálreiður: „Þið eruð lygarar! Þessi bölvaði vitringur hefur haldið mér föstum með fjölkynngi í öðru landi í sjö ár. Ég kvongaðist þar og eignaðist sjö sonu og sjö dætur, en þó þykir mér ekkert sárgrætilegra en það, að ég skuli hafa verið daglaunamaður. Þú meinbölvaði vitringur! Því varstu svo djarfur, að láta mig ganga með burðarkarls létta?“

„Herra,“ segir vitringurinn, „úr því þér ekki leggið trúnað á orð mín, skal ég færa sönnur á mál mitt áþreifanlega.“

Svo mælti hann og afklæddi sig, batt dúk um mjaðmir sér, fór í vatnskerið og kafaði niður. En soldáninn var enn síreiður og mundi svardaga sinn, að hefna sín á vitringnum undir eins og hann kæmi aftur til Egiptalands, brá hann því sverðinu, til að höggva af honum höfuðið í því hann rétti það upp úr vatninu.

En vitringurinn vissi, hvað soldán hafði í hyggju, því hann kunni fræðina Mekasjefa, sem getur sagt leyndustu hugsanir annarra. Hann brá á sig huliðshjálmi eftir listinni Algáib-analabsar, og hvarf til Damaskus. Þaðan skrifaði hann soldáni svo látandi bréf:

„Vita skaltu, herra, að báðir við, þú og ég, erum ekki annað en vesalir þrælar guðs. Þú stakkst höfðinu snöggvast niðrí vatnið og tókst það upp í sama vetfangi, samt fórstu á meðan sjö ára ferð, fékkst þér konu, eignaðist sjö dætur og sjö sonu og rataðir í miklar raunir. Þrátt fyrir þetta viltu ekki trúa því, að vor mikli spámaður Mahómet hafi fundið sæng sína volga, og ekki allt runnið úr vatnskönnunni, sem oltið hafði um. Láttu loksins á það sannast, að þeim er enginn hlutur ómáttugur, sem skapað hefur himininn og jörðina af engu, heldur einungis með almættisorðinu: verði!“

Þegar soldán Egiptalands fékk bréf þetta, trúði hann að sönnu, en ekki rann honum reiðin við vitringinn. Skrifaði hann þá konunginum í Damaskus til og beiddi hann að handtaka vitringinn og lífláta, og senda sér af honum höfuðið.

Var konungurinn í Damaskus boðinn og búinn til þess og sparði ekkert til að verða við tilmælum soldáns. Og er hann frétti, að vitringurinn hefðist við í helli nokkrum, nokkuð langt frá borginni, skipaði hann kvennavörðum sínum, að fara þangað, handtaka vitringinn og koma með hann.

Fóru þeir af stað í þeirri von, að hægðarleikur mundi þeim að höndla vitringinn, en þeim brá heldur en ekki í brún, þegar þeir sáu að fjöldi riddara á góðum hestum, albrynjaðir og vel vopnaðir, vörðu hellisdyrnar. Sneru þeir því aftur og sögðu konungi allt hvernig farið hafði.

Safnaði hann þá liði, reiður út af mótstöðu þessari, og fór sjálfur í broddi fylkingar til móts við vitringinn. En hann hafði þá slíkt ofurefli liðs, að konungurinn varð hræddur og sneri aftur. Gramdist konungi, að hafa farið svo háðulega för, en vildi þó ekki uppgefast. Spurði hann þá vezírana, hvað af skyldi ráða, úr því sem komið var. Svöruðu þeir, að hversu voldugur konungur sem hann væri, skyldi hann aldrei hugsa til að yfirstíga þann, sem neytti guðlegs fulltingis.

„En ef yðar hátign,“ mælti elzti vezírinn, „skyldi ná tangarhaldi á vitringnum, látið þá segja honum, að þér viljið gera frið við hann. Veljið fríðustu ambáttirnar úr kvennabúri yðar og gefið honum. En skipið þeim áður að komast fyrir, hvort engar séu þær stundir, sem vitringurinn missir sinn vanalega töframátt.“

Þetta þótti konungi óskaráð og lét hann bjóða vitringnum vináttu sína og senda honum ambáttir, fyrirtaks fríðar. Vitringurinn hélt þá líka, að konungurinn í Damaskus iðraðist eftir að hafa ofsótt sig saklausan, og gekk því í gildruna.

Hann tók við ambáttunum í grandleysi og lagði ákafan ástarhug á eina þeirra. Þegar hún varð þess áskynja, sá hún sig ekki úr færi og mælti: „Kærasti vitringur! mér leikur forvitni á að vita, hvort þú ekki átt þér þær stundir, að þú getur engin undur gert.“

„Fagra mey!“ anzaði vitringurinn, „ég bið þig að inna mig ekki frekar eftir því. Hugsum heldur um að stytta okkur stundir, þér stendur þetta á engu, sem þú spyr um.“

Ambáttin lét eins og sér sárnaði þetta svar, og gerði sér upp óhuggandi hryggð. Og er vitringurinn ætlaði að gera sér dátt við hana, fór hún að gráta og mælti: „Þetta blíðlæti kemur ekki frá hjartanu. Ef þér í rauninni þætti vænt um mig, mundirðu engu leyna mig.“

Í stuttu máli, hún fékk talað svo um fyrir honum, að honum varð sú skyssa á, að segja henni allt. Játaði hann henni, að í hvert skipti, sem hann væri búinn að hafa samfarir við kvenmann, yrði hann vanmáttugur á eftir, þangað til hann tæki hreinsunarþvott þann, sem fyrirskipaður er í lögmálinu eftir slíka athöfn.

Lét ambáttin konunginn í Damaskus vita þetta, og skipaði hann kvennavörðum sínum að fara leynilega til húsdyra vitringsins eina tiltekna nótt. Átti þá ambáttin að ljúka upp í tækan tíma, og þeir að brjótast inn og handsama vitringinn.

Hann var því vanur að láta stóra vatnskönnu standa við höfðalag sitt á hverri nóttu; hafði hann hana til að þvo sér úr, þegar svo bar undir.

Þessa nótt, sem ákveðin var, hafði ambáttin hellt út vatninu, áður en hún lagðist niður, svo að vitringurinn vissi ekki af. Fann hann því könnuna tóma, þegar hann ætlaði að þvo sér.

Var þá flagðið óðara til taks og bauð honum að sækja vatn, tók könnuna og gekk út, og lauk um leið upp fyrir kvennavörðunum. Ruddust þeir nú inn með harki og háreysti, og skildi nú vitringurinn, að þetta voru svik ambáttarinnar.

Þreif hann þá í skyndi tvö ljós, sem loguðu í kertastikum, og tók að snúast í hring með þau, og talaði til kvennavarðanna einhver orð, sem þeir ekki skildu. Við bæði þessi atvik urðu þeir felmtraðir og hlupu burt, því þeir voru hræddir um, að hann mundi beita við þá einhverri háskalegri fjölkynngi.

Vitringnum varð það fyrst fyrir, sem mest reið á, að loka að sér dyrunum og þvo sér. Því næst tók hann í hefnda skyni á sig líki ambáttarinnar, en brá sínu yfir hana, hljóp síðan eftir kvennavörðunum og kallaði: „Bleyðurnar ykkar, framkvæmið skipun konungsins, sem er drottinn ykkar og herra? Hann lætur drepa ykkur alla, ef þið komið svo til Damaskus, að þið hafið ekki vitringinn. Því hlaupið þið þá burt? Hafið þið séð skrípi eða hermenn koma honum til hjálpar? Snúið þið aftur, farið þið óhræddir inn í hellinn, ég skal vera það karlmannlegri en þið, að ég skal handtaka hann og fá ykkur hann í hendur.“

Fyrir áeggjan þessa létu kvennaverðirnir staðar numið og hertu upp hugann. Þeir sneru aftur og fylgdu vitringnum, sem gekk á undan þeim í líki ambáttarinnar, inn í hellinn. Handsömuðu þeir þar ambáttina, sem var í líki vitringsins. Bundu þeir á henni hendur og fætur, og gat hún ekki komið upp hljóði, því að vitringurinn hafði gert hana mállausa.

Fóru þeir þá með hana til konungsins í Damaskus. Hélt hann að þar væri kominn vitringurinn og lét undir eins hálshöggva bandingjann. En óðara en höfuðið losnaði við bolinn, fékk hvort um sig aftur sína sönnu mynd, og sá konungurinn þá og öll hirðin, að þetta var ambáttin.

Vitringurinn, sem þar var nærstaddur í líki hennar, kom nú í sinni réttu mynd og talaði þessum orðum til konungsins í Damaskus: „Ó þú konungur, sem hefur ólmazt með hnúum og hnefum til að fyrirkoma mér, soldáninum í Egiptalandi til þægðar, þú skalt vita, að manni ber ekki að styrkja rangsleitnar hefndir. En lofaðu guð fyrir, að ég læt hefndir mínar lenda við það, að hegna þessari svikafullu ambátt.“

Að svo mæltu hvarf vitringurinn, og lét konunginn og alla, sem sjónarvottar voru að þessum kynlega atburði, sitja eftir með ótta og undrun.

„Svona er nú sagan af Sjabeddín fróða,“ mælti ennfremur hinn æðsti vezír Persakonungs, „má yðar hátign af því marka, að karlmenn geta aldrei goldið fullan varhuga við konum. Leyfið því að Núrgehan verði prófaður til fullrar rannsóknar, áður en hann er tekinn af lífi. Hver veit nema hann færi okkur sönnur á sakleysi sitt.“

„Svo skal vera,“ mælti konungur. „Ég fresta dauða sonar míns þangað til á morgun.“

Meðan nú að vezírarnir fóru til kóngssonarins í díblissunni, reið konungur á veiðar. Kom hann heim um kvöldið og borðaði með Kansade drottningu.

Sætti hún lagi, þegar þau höfðu lokið máltíðinni, að segja við hann: „Herra! Ég er hrædd um, að þú iðrist einhverntíma eftir að hafa frestað dauða sonar þíns. Kóraninn segir, að maðurinn eigi tvo óvini, sem hann hafi eftirlæti á, og það séu börn hans og fjármunir. Sonur þinn er óvinur þinn, því hann þorði að taka til hins andstyggilega verks, sem hann hafði áformað. Flýttu þér því að refsa honum. Vertu ekki að hlýða lengur á árnaðarorð föðurástar þinnar og manngæzku. Illska hans hlýtur að þagga niður rödd föðurástarinnar. Láttu ekki ráð né ræður hirðmannanna glepja þér sjónir, því slíkt er mikill breyskleiki, að ljá hverjum manni eyru sín, og ætla að gera öllum að skapi. Dæmisagan af garðyrkjumanninum, syni hans og asnanum sannar það bezt. Það er vísast þú kunnir hana ekki, og ætla ég því að segja hana ef þú leyfir.