Þúsund og ein nótt/Sagan af barninu fundna
Kvenmaður nokkur, sem átt hafði barn með ræningja, bar það út og lét það við dyrnar á musteri einu. Þá vildi svo til, að konungur þar í landi kom þann morgun og gerði þar bæn sína. Honum varð litið á barnið og spurði, hvernig stæði á, að það væri þangað komið.
Var honum þá svarað: „Herra! Barnið hefur verið borið út, til þess að góðir menn fyrir guðs sakir skyldu annast það og uppfæða.“
Komst konungur við af meðaumkvun, eins og vænta mátti af góðgjörnum konungi, en hann lét ekki þar við lenda. Hann fór af baki og tók sveininn hátíðlega sér í sonarstað og mælti: „Fyrst ég á engan erfingja, ætla ég að láta uppala þenna dreng, hver veit nema hann á síðan verði máttarstoð hásætis míns, og kórónu mína skal hann erfa, ef hann á það skilið.“
Var nú farið með drenginn í kvennabúrið, og var hann færður í nýja og fagra reifa. Síðan var honum fengin barnfóstra og í öllu farið með hann eins og hann hefði verið eigið barn konungs. Hann dafnaði vel og var hinn efnilegasti. Þegar hann var fimm ára, var honum fenginn kennari í fögrum vísindum, og seinna lærði hann vopnaburð og riddaralegar íþróttir. En einkum þótti hann bera af öðrum í knattleik, og öllum fannst mikið um að sjá hann leika þá list. Dáðust kennarar hans mjög að fimleika hans og kröftum. Engum þótti samt eins vænt um og konunginum, sem gladdist yfir því, að hann skyldi hafa fóstrað ungling, sem launaði þannig velgjörning hans. Þó gafst honum enn meira gleðiefni seinna.
Nokkrir nágranna konungar herjuðu á hann, og sendi hann þá fósturson sinn með allt herliðið til móts við þá, sigraði hann fjandmennina og vann svo glæsileg afreksverk, að hann þótti mestur kappi í öllu liðinu. Það var eins og ekkert stæði fyrir sverði hans og hugrekki.
Nú hafði konungur eignazt dóttur með einni af hjákonum sínum, skömmu eftir að hann ættleiddi barnið fundna. Þroskaðist hún og þótti fádæmis fögur. Átti fóstursonurinn frjálst um samvistir við hana, eins og bróðir hennar, fékk hann því brennandi ást á henni. En allt í einu tók soldán upp á því, að gefa hana einum kóngssyni í nágrannalöndunum til eiginkonu og var rétt komið að því, er brúðkaup þeirra skyldi halda.
Varð þá fóstursonurinn sárhryggur, og þá var það einn dag, að hann mætti munki einum og lagði fyrir hann þessa spurningu: „Faðir góður! Á ekki eigandi aldingarðsins meira tilkall til ávaxtanna í honum en hinn ókunni?“
Munkurinn vissi fyrir fræðina Mekasjefa (sem sýnir inn í hugskot annarra), því hann spyrði hann svo og anzaði: „Kóngsson! Fyrst og fremst þarf að vita, hvort ekki stendur tré í garðinum, sem almáttugur guð hefur bannað að eta af, eins og hann áður hafði bannað það Adam og Evu.“
Kóngssyni gazt ekki að þessu svari, heldur lét hann fýsnina blinda sig, svo að hann strauk með brúðurina, kóngsdótturina, og fór úr konungsaðsetrinu með eitthvað tvær þúsundir manna, sem honum voru trúir.
En er hinn gamli konungur frétti þetta, dró hann undir eins lið saman og elti ránsmann dóttur sinnar. En þegar hann hafði komið kóngsdótturinni á óhultan stað, lagðist hann í launsátur við fjall eitt og réðist þar á konunginn óviðbúinn. Var þar drepið niður allt liðið og konungur handtekinn, drap sigurvegarinn hann með eigin hendi. Síðan sté hinn vanþakkláti fóstursonur í hásæti velgjörðarmanns síns.
„Herra!“ því bætti Kansade við söguna, „lærðu það af þessari sögu, að skoða Núrgehan, son þinn, sem fjandmann. Honum býr hið sama í skapi og fóstursyninum, og hann vill hafa líf þitt og mig fyrir eiginkonu.“
„Höfum engin orð,“ sagði konungur, „hann skal deyja á morgun.“
Því næst gekk hann til herbergja sinna og háttaði.
Morguninn eftir sté Persakonungur í hásæti sitt og spurði vezírana, hvort Abúmasjar hefði fundizt. En er þeir kváðu nei við, lét hann kalla á böðulinn, og skipaði honum að höggva undir eins höfuðið af Núrgehan og mælti: „Ég hef lofað drottningunni að láta taka hann af lífi í dag.“
Þá gekk fram þriðji vezírinn og mælti: „Ó, þú konungur veraldarinnar! Láttu ekki blóð sonar þíns koma yfir þig, ljáðu fortölum vezíra þinna áheyrn, þeir eru fiskimenn, sem slæða hinar útvöldustu perlur upp úr djúpi mælskunnar, svo þeir megi leggja þær fram fyrir fætur þína. Mundu þeir ekki standa í gegn fyrirætlan þinni, að lífláta son þinn, hefði spámaðurinn ekki sagt með berum orðum:
„Hver sem sér að konungur ætlar að hafa óréttlæti í frammi, og leitast ekki við að aftra honum, skal afmást úr tölu réttlátra.“
Forfeður vorir kenndu svo, að aldrei skyldi trúa konu né nýjum þræli, því hvorttveggja væru smjaðurtungur og leituðust við að framkvæma áform sín með lævísi og lygi. Leyfi mér yðar hátign að segja söguna af kvongaða manninum og páfagauknum, þessu til staðfestingar.“
Soldán samþykktist það og vezírinn byrjaði.