Fara í innihald

Þúsund og ein nótt/Sagan af gríska konunginum og Dúban lækni

Úr Wikiheimild

Einu sinni var konungur í landinu Súman, í Persaríki; voru þegnar hans ættaðir af Grikklandi. Konungur þessi var líkþrár, og höfðu læknar hans leitað við hann allra meðala og ekki dugað. Voru þeir orðnir uppnæmir og vissu ekki, hvað reyna skyldi við hann; þá kom til hirðarinnar bezti læknir, sem Dúban hét. Hafði hann numið allan fróðleik sinn af grískum, persneskum, tyrkneskum, latínskum, sýrneskum og ebreskum bókum. Auk þess var hann djúpvitur heimspekingur, og þekkti góða og illa náttúru alls konar jurta og kryddtegunda.

Undir eins og hann frétti um sjúkleika konungs, og heyrði að læknarnir voru úrkula vonar um heilsu hans, fór hann í beztu klæði sín, og varð honum eigi ráðafátt, né vits vant, til að ná konungs fundi. Ávarpaði hann konung þannig: „Mildasti herra! Ég hef frétt að enginn lækna þeirra, sem yðar hátign hafa stundað, geti læknað líkþrá yðar. Ef þér vilduð unna mér þeirrar sæmdar, að þjóna yður, skuldbind ég mig til að gera yður heilan heilsu, án alls áburðar og ábergingar læknismeðala.“

Konungur svaraði boði þessu þannig: „Ef þú ert slíkur snillingur, að þú getur ent það, sem þú lofar, þá skal ég gera sjálfan þig ríkan, börn þín og barnabörn. Auk þess að ég mun gefa þér gjafir, skaltu vera hinn kærasti vildarmaður minn. Þú lofar þá að lækna holdsveiki mína, svo að ég hvorki þurfi að bergja á meðulum né láta bera á mig smyrsli.“

„Já, konungur,“ svaraði læknirinn, „og er ég vongóður um að mér takist það með guðs hjálp, og ætla ég að byrja lækninguna á morgun.“

Fór Dúban síðan heim til sín og bjó sér til knattdrepu. Holaði hann handfangið að innan og fyllti læknislyfjum þeim, sem hann ætlaði að nota. Því næst bjó hann til knött með jafnri kunnáttu, og fór svo með hvorttveggja til konungs daginn eftir, fleygði sér fyrir fætur honum, og kyssti á gólfið“....


12. nótt

[breyta]

„Herra! Fiskimaðurinn hélt þannig áfram, að segja andanum söguna, þar sem hann sat innibyrgður í flöskunni:

„Dúban stóð þá upp aftur, og er hann hafði hneigt sig djúpt, sagði hann konungi, að sér litist það hentast fyrir hans hátign, að stíga á hestbak og fara í knattleik. Fór því konungur af stað með gjaldkerum sínum, emírum og vezírum þangað sem til var tekið.

Þegar hann var þangað kominn, gekk læknirinn til hans með knattdrepuna og knöttinn, fékk honum hvorttveggja og mælti: „Takið, herra, við knattdrepu þessari, haldið þarna um og hverfið undir yður hestinum á ýmsar hliðar á skeiðvellinum, og leikið að knettinum, þangað til þér svitnið um lófana og allan líkamann. Þá munu læknislyfin, sem ég hef fólgið í handfanginu, hitna og kraft þeirra fyrst leggja um hönd yðar, en síðan um allan líkamann. En þegar þér eruð orðinn kófsveittur, skuluð þér fara heim aftur til hallarinnar og taka laugar, láta þvo yður vandlega og núa allan, og leggjast síðan til svefns. Munuð þér þá rísa upp heill heilsu í fyrra málið.“

Tók nú konungurinn knattdrepuna, og var þar með hirðmönnum sínum að fleygja knettinum fram og aftur, þangað til hann var allur í einu svitalöðri. Hætti hann þá leiknum og sneri aftur til hallarinnar, tók laugar og gerði allt nákvæmlega, sem læknirinn hafði fyrir hann lagt.

Varð honum þetta til bata, því þegar hann vaknaði morguninn eftir og leit á sig, sáust engin sára merki og var hörund hans hreint og þriflegt. Fylltist hann þá undrun og fögnuði, og jafnskjótt sem hann hafði klætt sig, gekk hann til hins opinberlega áheyrnarsals, settist þar í hásæti og sýndi sig hirðmönnum sínum. Höfðu þeir komið þangað saman snemma um morguninn, því bráðlætið var mikið, að vita hvern ávöxt þessi undarlega, nýja lækningaaðferð hefði borið, og er þeir sáu að konungur var alheill, létu allir ánægju sína í ljós með háværum fögnuði.

Kom þar einnig Dúban læknir og ætlaði að leggjast flatur fyrir framan hásætið, en konungur stóð upp, er hann sá hann koma, og bauð honum að setjast við hlið sér. Setti hann upp mesta hól á hann í viðurvist allrar hirðarinnar, en lét ekki þar við sitja, heldur lét hann Dúban borða einn með sér við sama borð þenna dag, því hann hélt allri hirð sinni veizlu.“


13. nótt

[breyta]

Undir lok hinnar næstu nætur hélt Sjerasade, með leyfi soldáns, áfram sögunni af gríska konunginum og Dúban lækni:

„Gríski konungurinn,“ þannig sagði fiskimaðurinn áfram söguna, „lét sér ekki nægja að setja lækninn við sitt eigið borð, og láta hann vera hjá sér sem gest sinn liðlangan daginn, heldur gaf hann honum þar á ofan um kvöldið tvær þúsundir gullpeninga, og tignarklæði, lét hann stíga á bak hesti sínum og fara heim til sín, svona úr garði gerðan.

Minntist konungur aldrei læknisins svo, að hann ekki tæki til frábærrar kunnáttu hans; kvað hann það vera skyldu sína, að auðsýna honum svo mikla sæmd og góðvild sem unnt væri, og hafa hann fyrir félaga og trúnaðarmann, meðan þeir lifðu. Gekk hann til rekkju, guðsfeginn heilsubata sínum, og er hann var vaknaður og kominn á fætur morguninn eftir, settist hann aftur í hásæti sitt. Sátu emírar hans og vezírar til beggja hliða honum; gerði hann þá boð eftir vitringnum Dúban. Kom hann og kyssti gólfið frammi fyrir fótum konungs; stóð konungur þá upp og bauð Dúban að setjast við hlið sér, og lét hann borða með sér einum. Gaf hann honum nýjan tignarklæðnað og aðrar gjafir, og var að spjalla við hann þangað til náttaði, þá skipaði hann, að fá skyldi lækninum fimm tignarklæðnaði og þúsund gullpeninga; fór læknirinn síðan til híbýla sinna.

Nú hafði konungur stórvezir einn, sem borinn var undir vondri fæðingarstjörnu og illsvitandi himinteiknum; var hann ágjarn og öfundsjúkur og mesta þrælmenni. Þegar hann sá að konungur kaus Dúban lækni fyrir vin og sýndi honum nýjan náðarvott á degi hverjum, varð hann öfundsjúkur og fór að hugsa um, hvernig hann gæti steypt honum í glötun; sannaðist þar máltækið: „að enginn flýr öfund“, og það annað: „að grimmdin leynist í hugskoti manns, mátturinn leiðir hana í ljós, en vanmátturinn kæfir hana niður.“

Það var einn dag að vezírinn gekk til konungs, og bjó yfir illræðum; kyssti hann gólfið frammi fyrir fótum hans og sagði honum, að hann hefði komizt að mikilsvarðandi hlut.

En er konungur spurði, hvað það væri, anzaði vezírinn: „Herra! Það er hættulegt, að setja traust sitt á þann, sem óreyndur er að trúnaði. Þér látið rigna velgjörðum og vinahótum yfir Dúban lækni, og vitið ekki, að hann er drottinssvikari og hefur laumazt í hirðsveit yðar, til einskis annars en að myrða yður.“

„Hvernig veiztu það, sem þú þar dirfist að mæla?“ svarar konungur, „gáðu að því, að þú átt tal við mig, og að þú segir þar nokkuð, sem ég er tregur að trúa.“

„Herra!“ segir vezírinn, „ég veit þetta fyrir víst, sem mín er æran að gera yður varan við. Látið ekki blindast af svo háskalegu oftrausti. Ef yðar hátign sefur, kunnið þér að vakna, því ég ítreka það: Dúban er kominn úr innsveitum Grikklands, fósturjarðar sinnar, til þess að framkvæma hið hryllilega áform, sem ég nefndi.“

„Nei, nei, vezír,“ mælti konungur, „ég er óhræddur um þenna mann, sem þú kallar níðing og drottinssvikara, hann er sá ráðvandasti og vænsti maður sem hugsazt getur. Mér er við engan mann á jörðinni eins vel og hann. Þú veizt það sjálfur, með hvílíku meðali, eða öllu heldur kraftaverki, hann læknaði líkþrá mína. Hafi hann viljað svipta mig lífi, því skyldi hann þá frelsa mig fyrst? Ég stóð með annan fótinn í gröfinni, og hefði hann ekki þurft annað en að láta sjúkdóminn vinna á mér. Vertu því ekki að reyna til að kveikja hjá mér ranga grunsemd. Fer því fjarri að ég trúi þessu, og læt ég þig þvert á móti vita, að ég upp frá þessum degi borga honum svo sem svarar einni þúsund sekkína, á mánuði, meðan hann er á lífi. Og þó ég skipti til jafns við hann öllum auðæfum mínum, og jafnvel ríkinu sjálfu, mundi honum þó vera vanlaunað, svo mikið gott á ég honum upp að inna.

Ég skil hvernig á öllu stendur; þið sjáið ofsjónum yfir verðleikum hans. En verið ekki þau börn, að halda, að ég láti spilla milli okkar. Ég man of vel hvað vezírarnir sögðu Sindbað, konungi sínum og herra, til þess að telja hann af lífláti sonar síns“....


14. nótt

[breyta]

„Herra!“ tók Sjerasade til máls og sneri orðum sínum til soldánsins, „það, sem gríski konungurinn drap á vezírana hans Sindbaðs konungs, æsti svo mjög forvitni vezírsins, að hann mælti:

„Fyrirgef mér, yðar hátign, að ég leyfi mér að spyrja svo djarft, hvað báru vezírar Sindbaðs konungs upp fyrir herra sinn, til að aftra honum frá lífláti sonar hans?“

Gríski konungurinn var svo náðugur, að hann leysti úr spurningu vezírsins út í hörgul, og sagði honum þessa sögu: