Þúsund og ein nótt/Sagan af hinum unga konungi á svörtu eyjunum
„Faðir minn hét Mamúd, og var konungur í borg þeirri, er hér lá áður, og ríkti hann yfir hinum fjórum svörtu eyjum. Andaðist hann á sjötugasta aldurs ári, og er ég var setztur að völdum eftir dauða hans, gekk ég að eiga bróðurdóttur mína. Hún hafði slíka ofurást á mér, að þegar ég fór burt frá henni, neytti hún hvorki matar né drykkjar, fyrr en ég kom heim aftur. En er fimm ár voru liðin, tók ég eftir því, að ást hennar fór að kólna, og komst ég að þessu móti eigin vilja.
Það var einhvern tíma eftir hádegi að hún var gengin til lauga og hafði ég lagzt niður til svefns eins og ég átti vanda til; ég hafði skipað tveimur ambáttum að svala mér um höfuð með veifum sínum og banda burtu flugunum. En þegar þær héldu að ég væri sofnaður, fóru þær að pískra saman; en ég hafði aðeins látið aftur augun og heyrði því hvert orð, sem þær töluðu.
„Er það ekki illa gert af drottningunni,“ sagði önnur, „að hún skuli ekki vera slíkum öðlingi holl og trú, sem herra vor er?“
„Það þykir mér,“ anzaði hin, „og ég skil ekki í því, hvers vegna hún lætur hann einan á hverri nótt; verður hann þá einskis var?“
„Hvernig ætti hann að verða nokkurs var?“ sagði hin ambáttin, „hún byrlar honum á hverju kvöldi jurtadrykk, sem drepur honum í svo fastan svefn, að hún getur farið allra sinna ferða fyrir honum. En á morgnana kemur hún aftur og vekur hann með einhverju ilmgresi, er hún heldur fyrir vit hans.“
Þér getið nærri, herra, hvað mér varð hverft við. En samt stillti ég mig og lét eins og ég vaknaði af værum blundi og hefði ekkert heyrt. Borðaði ég kvöldverð með drottningu minni eins og vant var; rétti hún mér drykkinn áður en ég gekk til rekkju. En í stað þess að drekka, hellti ég honum út um gluggann, svo hún ekki sá, og fékk henni aftur tóma skálina.
Síðan lögðumst við niður. En er hún hélt, að ég væri sofnaður, reis hún upp, klæddist í skyndi og mælti í hálfum hljóðum: „Ó að þú svæfir og vaknaðir aldrei framar!“
Því næst gekk hún út úr herberginu....
42. nótt
[breyta]Óðara en kona mín var út gengin,“ þannig hélt hinn ungi konungur svörtu eyjanna sögu sinni áfram, „spratt ég upp, klæddist í snatri, greip sverð mitt og veitti henni eftirför. Náði ég henni skjótt og gekk á eftir henni með mestu forsjálni. Gekk hún gegnum margar dyr, er lukust upp sjálfkrafa, því hún mælti yfir þeim töfraþulur; loksins kom hún að aldingarðinum.
Hvarf hún þar inn í þykkan runn; voru þar hávaxin hrísgerði beggja megin vegarins; en ég fór í sniðkróka og læddist þangað líka og faldi mig þar sem langur skógargangur byrjaði, því eftir honum sá ég að flagðið gekk sér til skemmtunar og hafði karlmann með sér. Þar heyrði ég nú er þau komu nær, að hún var að afsaka sig við friðil sinn, að hún hefði ekki getað komið fyrr, og fyrir utan öll elskumerki, er hún áður hafði auðsýnt, hafði hún nýjan ástarvott á boðstólum og voru mikil firn að heyra slíkt.
„Þú veizt hvað ég megna,“ sagði hún, „þú þarft ekki annað en að segja til. Ef þér svo líkar, skal ég, áður en sól er á lofti, breyta þessari stóru borg og þessari glæsilegu höll í herfilegar rústir, sem ekki skulu byggðar vera nema af úlfum, uglum og hröfnum. Þú þarft ekki annað en að segja eitt orð og þá skal allt breytast.“
Í því að drottning mælti þetta, var hún rétt hjá mér og ætlaði að ganga fram hjá mér og beygja út á aðra götu. Ég hélt á sverðinu brugðnu, og þegar friðillinn gekk fram hjá, hjó ég á háls honum svo hann féll til jarðar.
Hélt ég að ég hefði orðið banamaður hans, og flýtti mér í burt og lét ekki drottninguna sjá mig; vildi ég hlífa henni fyrir frændsemis sakir. Höggið var líka banvænt í raun og veru, en með töfrum sínum hélt hún friðlinum í slíku ástandi, sem hvorki getur heitið líf né dauði.
Flýtti ég mér nú til hallar minnar gegnum lystigarðinn og heyrði enn þá hljóð og harmalæti konu minnar; réði ég af því hryggð hennar og þótti vænt um, að ég hafði gefið henni líf.
En þegar ég var kominn til herbergja minna, lagðist ég niður í þeirri trú, að ég hefði refsað illmenninu, sem vogaði að svívirða mig, og sofnaði ég út af frá þessum hugleiðingum.
Þegar ég vaknaði morguninn eftir, lá drottning í rúminu hjá mér, og vissi ég ekki hvort hún var vakandi eða sofandi. Stóð ég upp hljóðlega, klæddist og gekk til ráðstefnu. En er ég kom heim aftur, fann ég konu mína með skorið hár og íklædda sorgarbúningi.
Tók hún þá þannig til máls: „Herra! Veit mér eigi átölur fyrir, að ég hef tekið upp á þessu, því ég hef spurt lát drottningarinnar, móður minnar, konungsins, föður míns, sem fallinn er í orustu, og bróður míns, sem hrapaði fyrir bjarg og lét þannig líf sitt.“
Ég gat ekki fengið af mér að brigzla henni, er hún átti um svo sárt að binda; miklu fremur vorkenndi ég henni og reyndi að hugga hana. Því næst lokaði hún sig inni í herbergi sínu og sat þar í heilt ár grátandi og kveinandi.
En er árið var liðið, beiddi hún mig leyfis, að hún mætti láta gera sér legstað í höllinni, svo að hún gæti verið þar til dauðadags. Þessa synjaði ég henni ekki og lét hún byggja skrautlegan legstað með kúpumynduðum stöpli, eins og gert er eftir helga menn; getur maður séð það héðan og kallaði hún legstaðinn Tárahöll.
Fór hún þangað með friðil sinn, sem hún hafði flutt á hentugan stað, nóttina, sem hann fékk sárið. En ekki megnaði hún að lækna hann með kunnáttu sinni; gat hann hvorki talað né hrærzt, og sást ekkert lífsmark með honum á neinu öðru en augunum. Var það sú eina huggun, er drottning hafði, að sjá hann og segja honum það, sem ástríða og viðkvæmni vitlausrar ástar blés henni í brjóst. Vitjaði hún hans því tvisvar á degi hverjum og færði honum mat og drykk, en þó ég vissi af öllu saman, lét ég sem ekkert væri.
Á þessu hafði nú gengið í tvö ár; þá var það einhvern dag, að ég gekk til Tárahallarinnar, svo hún ekki sá; heyrði ég að hún grét og bar upp kveinstafi sína á þessa leið:
„Ég fyllist ógurlegri örvæntingu af því að sjá þig svona til reika, og svíða mér hinar brennandi kvalir þínar ekki síður en sjálfum þér. Elsku lífið mitt, ég tala sífelldlega til þín og þú anzar mér aldrei; hvað lengi ætlarðu enn að þegja? Það eru hinar sælustu stundir ævi minnar, sem ég kvelst og þjáist með þér. Fjarri þér get ég ekki lifað, og heldur vil ég njóta þeirrar gleði, að sjá þig, en drottna yfir allri veröld.“
Síðan mælti hún fram vísur þessar:
- „Sárt þinn hrellir missir mig,
- munargleði letur,
- því engan, nema einan þig,
- elskað sál mín getur.
- Lát af miskunn lík mitt því
- lagt hjá beði þínum,
- að ég sofnuð sælu í
- sorgum gleymi mínum.
- Ef þú nafn mitt nefnir þar
- nærri köldum steini,
- önduð þér ég inni svar
- með andvörpum og kveini.“
Slíkar ræður, sem voru þverskornar ekka og andvörpum, gengu loksins fram af mér. Gerði ég hana vara við mig, óð að henni með brugðið sverð og mælti: „Nú hefur þú grátið nóg, kona, og er tími til kominn, að leggja niður slíkt ótrúnaðarhjal. Væri og betur að gröfin sylgi frillu með friðli.“
Þá spratt hún upp sem hún væri bandóð og orgaði framan í mig hrópandi: „Grimmdarseggurinn! Þú veldur einn öllum hörmungum mínum, mig hefur lengi grunað, að þú værir morðinginn, sem steyptir elskhuga mínum í þessa eymd, og enn ertu svo siðlaus, mannhrakið þitt, að þú kemur hingað til að hælast um örvæntingu þeirra, sem elskast.“
Greip ég þá fram í og svaraði: „Það er aldrei nema satt, að ég var sá, er refsaði níðingi þeim, sem maklegt var, og skyldir þú fara sömu leið. Þú níðist helzt til lengi á góðmennsku minni.“
Brá ég þá sverðinu og ætlaði að vega að henni. Hún hrærðist ekki úr sporunum og mælti með stillingu, svo mér var storkun að: „Stilltu reiði þína,“ síðan hreytti hún úr sér einhverjum orðum, sem ég ekki skildi og sagði: „Mæli ég um og legg ég á: að vörmu spori vertu hálfur steinn og hálfur maður.“
Æ herra! Í sama vetfangi varð ég eins og þér sjáið mig nú, vanfær til allrar hreyfingar, hvorki lífs né liðinn“....
Þá ljómaði dagsbrún og hætti því drottning, er hingað var komið sögunni.
43. nótt
[breyta]Sjerasade sagði framhaldið fyrir tilmæli systur sinnar, og tók þannig til frásagna:
„Herra, hinn ungi konungur yfir fjórum svörtu eyjunum sagði soldáni áfram söguna með þessum orðum:
„Þegar hin grimma fordæða, sem ómakleg var að bera nafn drottningar, hafði breytt mér svona, kom hún mér með gjörningum í herbergi þetta; því næst töfraði hún einnig ríki mitt, þegna mína og borg mína. Hún lét allt hverfa, hallirnar, húsin, múrana og torgin, og setti í staðinn vatnið á eyðimörkinni, sem þér þekkið. En íbúarnir urðu að ferlitum fiskum, Mahómets átrúendur urðu hvítir, eldsdýrkendur rauðir, Kristnir menn bláir, en Gyðingar gulir. Úr fjórum eyjunum urðu fjórir hólarnir, sem liggja umhverfis vatnið.
En sjálf kom hún til mín, sagði mér, hvað hún hafði gert og hældist um; lét hún ekki þar við sitja, heldur kemur hún á hverjum degi og lemur mig hundrað högg á bert bakið með ólarsvipu, þangað til ég verð alblóðugur undan. Síðan færir hún mig í hárklæði og breiðir yfir mig þessa skrautlegu skikkju í háðungar skyni.“
Við þessi orð kom upp grátur mikill fyrir hinum unga konungi og hafði hann yfir orð skáldsins:
- „Gef þú þolinmæði mér,
- mótlætið að bera.
- Guð minn! Allt er það frá þér,
- því skal ég geðrór vera.
- Kvala beð þó köldum á
- kunni mér að sárna,
- á himni sálir helgar þá
- hrelldum líknar árna.“
Soldáni fékk svo mikils það sem hann hafði heyrt og séð, að hann í fyrstunni gat ekki upp komið orði til að hugga hinn unga konung.
Loksins mælti hann þannig með ákefð, því bæði vildi hann hjálpa konungi og hefna á drottningu: „Segið mér, hvar er hið svikafulla flagð?“
„Ég veit ekki, hvar hún hefst við um nætur,“ anzaði konungur, „en á daginn er hún í greftrunarhúsinu með stöplinum í Tárahöllinni þar sem friðill hennar liggur. Fer hún þangað daglega, er hún hefur húðstrýkt mig að morgni; verð ég að þola það, því ég get ekki hrært legg né lið. Færir hún honum þá mat og drykk og heldur svo lífinu í honum; lætur hún aldrei af að barma sér yfir vesöld hans og málleysi.“
Soldán sagði nú konunginum, hverra manna hann væri og hvernig stæði á ferðum hans þangað og lauk ræðu sinni með þessum orðum: „Aldrei hafa meiri fádæmi drifið á daga nokkurs manns en yðar; en eins er þó áfátt, og það er, að maklegri hefnd verði framgengt. Ég skal gera allt, sem mér er unnt, til þess að oss verði hennar auðið.“
Sátu þeir nú báðir saman þangað til náttaði, og voru að leggja niður ráðin, hvernig þeir ættu að koma fram hefndum á drottningu; síðan lagðist soldán stundarkorn til hvíldar. En um aftureldingu stóð hann upp, tók sverð sitt og skildi yfirhöfn sína eftir á afviknum stað og gekk til Tárahallarinnar. Brunnu þar raðir hvítra vaxljósa, og var þar hinn sætasti reykelsisilmur, er lagði upp úr mörgum glæsilegum gullkerum.
Sá hann þá hvar friðill hinnar grimmu og fláráðu fordæðu lá í rúmi einu; gekk hann þangað og drap hann í einu höggi með sverði sínu. En líkið dró hann út í hallargarðinn og fleygði því niður í brunn. Þegar soldán var búinn að þessu, lagðist hann niður í rúmið í stað friðilsins, faldi sverðið hjá sér undir ábreiðunni og beið svo þess, er að hendi kæmi.
Fordæðan kom um sama leyti og vant var til hins unga konungs yfir svörtu eyjunum, færði hann úr fötunum og lamdi hann hundrað högg með óheyrilegri grimmd. Tók undir í höllinni af hljóðum hans og veini, en það kom fyrir ekki; hann grátbændi hana: „Hættu, ég er nógu hart leikinn áður. Hafðu miskunnsemi með mér!“
En grimmdarnornin hlífði honum ekki við einu höggi og svaraði: „Sýndirðu mér þá miskunnsemi og kenndir þú í brjósti um elskhuga minn? Þú skalt ekki heldur vænta þér neinnar vægðar af mér.“
44. nótt
[breyta]„Þegar drottning hafði lamið hinn unga konung yfir svörtu eyjunum hundrað högg, færði hún hann aftur í hárklæðið og hina gullsaumuðu yfirhöfn. Síðan fór hún til Tárahallarinnar með mat á disk og bikar fullan af einhverjum drykk, er hún hafði byrlað; gekk hún þar inn grátandi og kveinandi og æpti hástöfum: „Ó, þú elskhugi minn, svaraðu mér, talaðu við mig;“ síðan gekk hún að hvílunni, því hún vissi ekki betur en að friðill hennar væri þar, mælti hún þá þessi orð skáldsins:
- Nær mun linna harma hríð
- og hryggðar slökkvast eldur?
- Helzt til sárt er sálarstríð,
- sem að ástin veldur.
Því næst mælti hún þannig við friðilinn, sem hún hélt að væri þar: „Ó, þú ljós mitt og líf mitt, ætlarðu eilíflega að þegja svona? Á ég að skiljast svo við, að ég ekki heyri þau huggunarorð af vörum þínum, að þú elskir mig? Hjartað mitt! Segðu eitt orð, ég sárbæni þig!“
Þá lét soldán eins og hann raknaði af dauðadái og mælti með annarlegum málróm: „Hvergi er vald né máttur, nema hjá guði einum, hinum allsvaldanda!“
Fordæðan rak upp gleðióp, er hún heyrði þessi orð, sem hún átti sízt von á, og réði sér varla fyrir kæti. „Elskulegi unnusti minn,“ mælti hún, „er þetta ekki hugarburður? Heyrði ég þig tala?“
Svaraði þá soldán í hálfum hljóðum: „Óláns kona, ert þú svara verð af mér?“
„Því máttu ámæla mér svo?“ segir drottning.
„Af því þú kvelur mann þinn sífelldlega,“ anzaði hann, „svo að ég get ekki sofið fyrir hljóðum hans. Mundi ég vera heill heilsu fyrir löngu, ef þú hefðir leyst hann úr álögum. Fyrir þá sök var mér varnað að mæla.“
„Ó, ef það getur orðið þér að liði,“ anzaði flagðið, „þá skal ég gefa honum aftur sína réttu mynd, viljir þú svo vera láta.“
„Gerðu það,“ mælti soldán,“ gefðu honum sem fljótast frelsi, svo að óp og vein hans ónáði mig ekki framar.“
„Ég heyri og hlýði,“ svaraði flagðið og gekk undir eins til hins unga konungs yfir svörtu eyjunum, tók fulla vatnsskál, las yfir henni galdraþulur og sagði síðan í því hún stökkti á hann vatninu: „Sértu skapaður í þeirri mynd, sem þú nú hefur, eða ef þú ert orðinn fyrir reiði hins hæsta, þá vertu sem þú ert, en hafirðu breytzt í þetta líki sakir minna töfra, þá verðirðu aftur sem þú verið hefur!“
Og að vörmu spori stóð hinn ungi konungur upp og kallaði, lofandi guð og vegsamandi: „Enginn er guð nema guð og Mahómet er spámaður hans.“
Síðan mælti flagðið: „Snáfaðu héðan burt, og komdu aldrei aftur, eða ég drep þig.“
Varð hinn ungi konungur þá að hafa sig á burt, en faldi sig nálægt, til þess að sjá, hvernig síðan færi. Fordæðan gekk aftur til Tárahallarinnar og sagði friðlinum, sem hún hugði vera, að ósk hans væri uppfyllt, og stæði nú ekkert fyrir heilsubata hans.
En soldán svaraði eins og áður: „Hvað hefurðu gert? Þú hefur frelsað mig frá minnstu af því, sem veldur eymdum mínum.“
„Elskan mín góð! Hvað áttu við?“ spurði hún á ný og soldán svaraði:
„Óláns kona, skilurðu það ekki, að ég á við fjórar eyjarnar, borgina og íbúa hennar? Á hverri nótt um miðnætti teygja fiskarnir höfuðin upp úr vatninu og biðja okkur báðum hefndar. Fyrir þá sök færist aflið ekki aftur í limi mína. Farðu því til, og settu allt aftur í sitt fyrra lag; komdu síðan aftur og réttu mér hönd þína, að þú megir reisa mig á fætur úr hvílu þessari.“
Þegar fordæðan heyrði þetta, varð hún stórglöð, því hún vissi ekki betur en að hún ætti tal við friðil sinn, og mælti: „Drottinn minn og líf mitt, í guðs nafni þá!“
Flýtti hún sér að vatninu, jós því upp með hendinni, tautaði yfir því töfraþulur og stökkti því allt umhverfis.“
45. nótt
[breyta]„Þegar galdranornin hafði stökkt vatninu umhverfis, stóð borgin allt í einu, þar sem vatnið hafði verið; fiskarnir urðu að körlum, konum og börnum, frjálsum og ánauðugum, Mahómets mönnum, eldsdýrkendum, kristnum og Gyðingum; hús og sölubúðir fylltust íbúum og eigendum og var þar allt eins og á undan töfrunum.
Hið fjölmenna föruneyti soldáns féll öldungis í stafi, þegar það sá allt í einu kringum sig fagra og fjölmenna borg, því rétt áður hafði það legið þar í tjöldum á víðum völlum. Fjórir hólarnir urðu líka aftur að fjórum eyjum.
Galdranornin gekk nú í mesta flýti til friðilsins, sem hún hélt vera, inn í Tárahöllina og kallaði upp fagnandi í því hún kom inn: „Elskulegi maður minn! Réttu mér nú hönd þína, vilja þínum er framgengt orðið.“
„Komdu nær,“ anzaði soldán, „betur nær“, og greip hið biturlega sverð, er hann hafði hjá sér undir ábreiðunni. En er hún var komin rétt að honum, spratt hann upp eins og elding, þreif um handlegg hennar og hjó hana sundur í tvo hluti, áður en hún gat áttað sig.
Síðan fór hann og leitaði upp hinn unga konung svörtu eyjanna, er beið hans með óþolinmæði; samfagnaði hann honum, að hann nú væri óhultur framvegis. Hinn ungi konungur þakkaði honum og kyssti á hönd hans, en soldán spurði hann, hvort hann vildi heldur vera þar um kyrrt í sinni eigin borg, eða verða sér samferða til aðsetursborgar sinnar sem væri þar í nánd; skyldi hann vera sér kær gestur.
Anzaði þá hinn: „Voldugi soldán! Vitið þér þá hvað langt er til aðseturs yðar?“
„Hálf þriðja dagleið,“ segir soldán, en ungi konungurinn mælti:
„Þér eigið árlanga ferð fyrir hendi áður en þér náið þangað, og því aðeins komust þér hingað svo fljótt, að álögin voru. En það skuluð þér vita, soldán, að ég aldrei framar mun skilja við yður.“
Undraðist soldán, að hann skyldi vera svo fjarkominn ríki sínu, en þótti vænt um vinmæli hins unga konungs og segir: „Hirðum eigi hót, lofaður sé guð, að hann hefur fulllaunað langferð mína, þar sem hann lét fundum okkar bera saman og mér þannig verða sonar auðið. Því fyrst að þér viljið fara með mér og ég er barnlaus maður, þá tek ég mér yður í sonar stað, og nefni yður til erfingja að ríki mínu.“
Föðmuðust konungarnir síðan með blíðu; en eftir það bjóst konungur svörtu eyjanna til ferðar og var tilbúinn að þrem vikum liðnum. Var hirðmönnum hans og þegnum mikil raun, að sjá hann fara burt; en hann setti einn nákominn frænda sinn til konungs yfir þá í sinn stað.
Með soldáni og konungi svörtu eyjanna fóru hundrað úlfaldar klyfjaðir auðæfum og gersemum úr féhirzlu hans; hafði hann og með sér fimmtíu veltygjaða riddara. Gekk þeim ferðin vel og náðu þeir loksins í námunda þangað, sem förinni var heitið, til höfuðborgar soldáns; hafði hann sent boðbera á undan sér og þeir borið tíðindi af ævintýrum hans og heimkomu.
Æðstu embættismenn komu til móts við hann og sögðu honum, að hin langvinna fjarvera hans hefði alls engu raskað né breytt í ríki hans. Allur landslýður streymdi á móti honum, tók við honum með mesta fögnuði, og hélt honum veizlu, er stóð yfir í marga daga.
Morguninn eftir að soldán var heim kominn, stefndi hann hirðinni saman og skýrði greinilega frá, hver fádæmi hefðu því valdið, að burtvera hans dróst svo lengi. Síðan gerði hann heyrum kunnugt, að hann hefði tekið sér í sonar stað konung svörtu eyjanna, sem fúslega hefði sleppt miklu ríki, til þess að fylgja sér.
Gaf hann öllum þjónum sínum góðar gjafir, hverjum eftir sinni virðingu, og launaði þeim þannig trúleika sinn; skipaði hann vezír sínum, að kalla á fiskimanninn, sem hafði komið með hina kynlegu fiska, og á þann hátt orðið frumkvöðull þess, að konungurinn, borgin og þegnar hans leystust úr álögum.
Honum gaf soldán tignarklæði og er hann heyrði, að hann ætti einn son og tvær dætur, tók soldán aðra dótturina og ungi konungurinn hina í tölu hjákvenna sinna, en fiskimanni gáfu þeir svo miklar gjafir, að hann varð einhver hinn vellríkasti maður á sinni öld, og dætur hans voru konur þeirra konunganna allt til dauðadags.“
Þannig lauk sögunni af fiskimanninum og andanum, og lét Dínarsade í ljósi við systur sína, hvílík unun og inndæli sér hefði verið að hlýða á hana.
En er Sjarjar lauk upp sama munni, kvaðst drottning kunna aðra sögu, sem hún skyldi ábyrgjast, að væri fallegri, og sagðist mundu segja hana næsta morgun, ef soldán leyfði, því nú væri farið að birta af degi.