Þúsund og ein nótt/Sagan af vezírnum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Fairytale left blue.png     Sagan af málaranum Mamúð frá Ispahan Framhald sögunnar af fiskimanninum og andanum Fairytale right blue.png    

Einu sinni var konungur, er son átti, sem hafði ákaflega gaman af dýraveiðum. Þótti konungi ekkert að því, en skipaði vezír einum að víkja aldrei frá hlið sonar síns, hvað sem í skærist.

Þá var það einn dag, er þeir höfðu riðið út á veiðar, að þeir sáu stórt villidýr langt burtu. Kallaði þá vezírinn: „Hó! hó! áfram, áfram!“ og þeysti kóngsson svo ákaft eftir dýrinu, að hann sá ekki að föruneyti hans varð á eftir og hvarf úr augsýn. Leit hann ekki fyrr í kringum sig en villidýrið á eyðimörkinni var horfið, og hann sjálfur vissi ekki, hvert fara skyldi.

Meðan hann var að ráfa þarna í vandræðum sínum, mætti hann konu, ekki svo óásjálegri og grét hún mjög. Stöðvaði hann þá hest sinn og spurði, hver hún væri og hvaðan, en konan svaraði:

„Ég er dóttir konungs eins á Indíalandi. Á leiðinni gegnum eyðimörk þessa varð ég viðskila við fylgd mína; sótti að mér svefn, svo ég varð öldungis úrvinda og datt af baki, en hesturinn hljóp frá mér. Stend ég hér einmana og veit hvorki upp né niður.“

Kóngsson sá aumur á henni, tók hana og lét á bak fyrir aftan sig og reið áfram. Komu þau að gömlum múrum; sagði þá kóngsdóttir að sig langaði að fara af baki. Setti kóngsson hana niður, og fór síðan sjálfur af baki, meðan hún gekk inn á milli múranna.

En er honum þótti langt að bíða, gekk hann á eftir henni og heyrði mannamál þar innar frá. Þótti honum þetta kynlegt og brá heldur en ekki í brún, er hann heyrði konuna segja: „Börnin góð! Í dag færi ég ykkur feitan dilk.“

Gullu þá við margar raddir og æptu: „Láttu okkur þá fá hann, móðir góð, svo við getum étið hann.“

Sá þá kóngsson að kvensniptin, sem þóttist vera kóngsdóttir, mundi vera kona Ghúls (Svo nefnist ein tegund illra anda er dvelja fjarri mannabyggðum, og taka menn til sín og éta þá.) eins, og taldi sér dauðann vísan. Hljóp hann þá titrandi af hræðslu og ætlaði að stökkva á bak, en í því kom konan að.

Sá hún hvað hann var hræddur og hnugginn og mælti: „Hvað hræðistu?“

„Illan óvin,“ anzaði kóngsson.

„Léztu ekki vera kóngsson?“ spurði konan, „því gefurðu þá ekki óvin þínum gull og kaupir þig í sátt?“

„Gull stoðar ekkert,“ svaraði kóngsson, „honum nægir ekki minna en líf mitt og því hræðist ég hann; æ, ég er dauðans matur.“

„Ef svo er,“ segir konan, „þá feldu þig guði á hendur og biddu hann að hjálpa þér.“

Kóngsson hélt fyrst að þetta væri Lokaráð, en leit samt upp til himins og mælti: „Ó, þú, sem lítur niður til hinna nauðstöddu og eyðir hörmungunum, hjálpa þú mér og lát hug óvina minna frá mér snúast, því þú einn ert almáttugur.“

Jafnskjótt sem konan heyrði bæn þessa, hvarf hún að baka til við múrana. Reið kóngsson síðan öræfi og eyðimerkur og komst farsællega heim til konungsins, föður síns. En er hann heyrði hvílíkan háska sonur hans hafði ratað í, og að hirðuleysi vezírsins væri um að kenna, lét hann kyrkja vezírinn þegar í stað.

En svo ég víki aftur til Dúbans læknis, þá er þér dauðinn vís, ef þú trúir honum lengur. Þú segir hann hafi læknað þig, en hvernig veiztu það með vissu? Það er ekki sagt hann hafi læknað sjúkdóminn frá rótum og hver veit nema meðulin hafi banvæn áhrif, þegar frá líður?“

Gríski konungurinn var ekki bráðskarpur og trúði því vezírnum. „Þú segir satt, vezír minn!“ mælti hann, „og þú ert mér trúr. Hann er kominn gagngert til að ráða mig af dögum; hann læknaði mig með nokkru, sem ég hélt á; hann þarf ef til vill ekki annað en að láta mig þefa af einhverju og þá er ég dauður. Segðu mér, vezír, hvað á ég að taka til bragðs í þessum vandræðum?“

„Herra!“ anzaði vezírinn, „svo þú verðir öldungis óhultur fyrir svikum hans, er bezt að þú sendir undir eins eftir honum og látir höggva af honum höfuðið; svíktu hann áður en hann svíkur þig.“

„Þetta er heilræði,“ segir konungur, og gerði boð eftir Dúban; kom hann þegar og lá vel á honum.

„Veiztu hvers vegna ég hef stefnt þér hingað?“ spurði gríski konungurinn Dúban.

„Nei, herra!“ svaraði hann, „guð veit það einn; hans nafn sé blessað.“

„Ég hef sent eftir þér,“ mælti konungur, „til þess að láta drepa þig.“

Það verður ekki með orðum sagt, hvað lækninum brá við þessi orð og tók hann þannig til orða: „Því viltu taka mig af lífi, konungur? Hvern glæp hef ég drýgt?“

„Því hefur verið stungið að mér,“ segir konungurinn, „að þú sért njósnarmaður og kominn hingað til að drepa mig. Ætla ég að koma í veg fyrir það og læt því drepa þig þegar í stað.“

Og í sama bili kallaði hann til böðulsins: „Höggðu höfuðið af þessum svikara og frelsaðu mig frá vonzku hans.“


37. nótt

Þegar Dúban hafði heyrt dauðadóm sinn, mælti hann: „Miskunna mér, konungur, og guð mun miskunna þér; glata mér ekki og guð mun ekki glata þér.“

Tók hann þessa bæn upp aftur, hvað eftir annað, allt eins og ég gerði við þig, andi!“ mælti fiskimaðurinn, sem var að segja andanum í flöskunni söguna af gríska konunginum og Dúban lækni, „en þú vildir endilega drepa mig.

Eins harðbrjósta var gríski konungurinn og skipaði böðlinum aftur að höggva Dúban. Kenndu þá nokkrir af hirðmönnunum í brjósti um Dúban og kváðust ekki vita, að hann hefði neitt af brotið, því hann hefði ekki gert annað en að lækna konunginn, þar sem allir aðrir læknar voru gengnir frá.

En konungur svaraði: „Þið vitið ekki hvernig í þessu liggur, líf mitt er í veði, ef hann er ekki drepinn. Sá sem læknaði mig með nokkru, er ég hélt á í hendinni, getur drepið mig með öðru, sem ég að eins þefa af. Ég er hræddur um, að hann ætli sér þetta, og er líklegast að hann sé kominn hingað til þess.“

Skipaði þá konungur í þriðja sinni að höggva hann.

Þegar Dúban læknir heyrði þetta, lagði hann alveg árar í bát og mælti: „Herra! Hafirðu fastráðið dauða minn, þá gefðu mér lítinn frest, að ég geti farið heim til mín, til að ráðstafa eignum mínum, kveðja heimili mitt og kjósa mér legstað. Ég ætla líka að útbýta bókum mínum milli þeirra, sem not hafa af þeim. Ætla ég að gefa þér eina, konungur, og er hún slík gersemi, að vert er að hún sé vandlega geymd í féhirzlu þinni.“

„Hvaða bók er það?“ spurði konungur, og svaraði læknirinn:

„Það er ómögulegt að skýra frá efni hennar, en einhver hinn lítilvægasti leyndardómur hennar er það, að ef þú lýkur henni upp, eftir að ég er hálshöggvinn, flettir í henni þremur blöðum og lest þriðju línu upp á blaði í vinstri hendi, þá mun höfuð mitt tala og leysa úr hverri spurning, sem þú leggur fyrir það.“

Furðaði konungur sig á þessu og lét varðmenn fylgja Dúban heim, og var hann þar að ráðstafa öllu sínu þangað til daginn eftir. Var hann aftur sóttur til gríska konungsins morguninn eftir; var þar saman komin hin glæsilegasta hirðsveit; höfðu flykkzt saman emírar, vezírar og margt annað stórmenni, því þeir bjuggust við að sjá eitthvert furðuverk.

Kom þá læknirinn með gamla bók og lagði hana fyrir fætur konungs og öskjur hjá, sem eitthvert duft var í. Lét hann þá færa sér skál og hristi það niður í hana og mælti: „Konungur! Þegar höfuð mitt er afhöggið, skaltu láta setja það niður í skálina og mun þá blóðrásin stöðvast. Ljúktu síðan upp bókinni og gerðu eins og ég hef fyrir sagt, og mun þá höfuð mitt tala. En leyf mér, herra, að biðja þig líknar einu sinni enn, svo að guð einnig líkni þér á síðan.“

„Hér stoðar engin bæn,“ mælti konungur,“ þú skalt deyja, þó ekki væri nema til að heyra höfuð þitt tala.“

Skipaði hann þá að hálshöggva Dúban og var svo gert. En er höfuð hans var lagt í skálina, lauk konungurinn upp bókinni; loddu blöðin saman og vætti hann því aftur og aftur fingurgóminn á tungunni, svo hægra væri að fletta. Fletti hann fyrsta, öðru og þriðja blaðinu, og er hann sá þar ekkert skrifað, mælti hann: „Þar stendur ekkert, læknir!“

„Flettu nokkrum blöðum enn,“ svaraði höfuðið, og gerði konungur það og varð allt af að drepa fingrinum á tunguna, því blöðin tolldu saman. Hafði hvert blað verið bleytt í gegn með eitri; tók það nú að hrífa, konunginum sortnaði fyrir augum og hné hann niður úr hásætinu með andköfum í því hann mælti:

„Ég dey af eitri,“ en höfuðið talaði þessi orð á meðan:

„Þeir beittu valdi sínu, en þeir beittu því eins og harðstjórar, og því var, sem þeir hefðu aldrei verið. Hefðu þeir verið sanngjarnir við aðra, hefðu aðrir verið sanngjarnir við þá, en þeir voru kúgarar og því kom þeim makleg hefnd. Guð refsar þeim, sem grimmur er og níðist á sakleysinu; hann lætur hverjum og einum launað eftir hans verkum.“

Þegar þessi orð voru töluð, gaf gríski konungurinn upp öndina, og höfuð læknisins missti einnig lífsmark það, sem var með því.

„Herra!“ mælti Sjerasade enn fremur, „svona lauk loksins viðskiptum þeirra Dúbans læknis og gríska konungsins. Nú víkur sögunni til fiskimannsins og andans.“

Þessi texti er fenginn frá Netútgáfunni