Þiðranda þáttur og Þórhalls
1. kafli
[breyta]Þórhallur hét maður norrænn. Hann kom út til Íslands á dögum Hákonar jarls Sigurðarsonar. Hann tók land í Sýrlækjarósi og bjó á Hörgslandi. Þórhallur var fróður maður og mjög framsýnn og var kallaður Þórhallur spámaður. Þórhallur spámaður bjó þá á Hörgslandi er Síðu-Hallur bjó að Hofi í Álftafirði og var með þeim hin mesta vinátta. Gisti Hallur á Hörgslandi hvert sumar er hann reið til þings. Þórhallur fór og oft til heimboða austur þangað og var þar löngum.
Sonur Halls hinn elsti hét Þiðrandi. Hann var manna vænstur og efnilegastur. Unni Hallur honum mest allra sona sinna. Þiðrandi fór landa í milli þegar hann hafði aldur til. Hann var hinn vinsælasti hvar sem hann kom því að hann var hinn mesti atgervimaður, lítillátur og blíður við hvert barn.
Það var eitt sumar að Hallur bauð Þórhalli vin sínum austur þangað þá er hann reið af þingi. Þórhallur fór austur nokkuru síðar en Hallur og tók Hallur við honum sem jafnan með hinum mesta blíðskap. Dvaldist Þórhallur þar um sumarið og sagði Hallur að hann skyldi eigi fyrri fara heim en lokið væri haustboði.
Það sumar kom Þiðrandi út í Berufirði. Þá var hann átján vetra. Fór hann heim til föður síns. Dáðust menn þá enn mjög að honum sem oft áður og lofuðu atgervi hans en Þórhallur spámaður þagði jafnan þá er menn lofuðu hann mest.
Þá spurði Hallur hví það sætti „því að mér þykir það merkilegt er þú mælir Þórhallur,“ segir hann.
Þórhallur svaraði: „Ekki gengur mér það til þess að mér mislíki nokkur hlutur við hann eða þig eða eg sjái síður en aðrir menn að hann er hinn merkilegasti maður heldur ber hitt til að margir verða til að lofa hann og hefir hann marga hluti til þess þó að hann virði sig lítils sjálfur. Kann það vera að hans njóti eigi lengi og mun þér þá ærin eftirsjá að um son þinn svo vel mannaðan þó að eigi lofi allir menn fyrir þér hans atgervi.“
2. kafli
[breyta]En er á leið sumarið tók Þórhallur mjög að ógleðjast. Hallur spurði hví það sætti.
Þórhallur svaraði: „Illt hygg eg til haustboðs þessa er hér skal vera því að mér býður það fyrir að spámaður mun vera drepinn að þessi veislu.“
„Þar kann eg að gera grein á,“ segir bóndi. „Eg á uxa einn tíu vetra gamlan þann er eg kalla Spámann því að hann er spakari en flest naut önnur. En hann skal drepa að haustboðinu og þarf þig þetta eigi að ógleðja því að eg ætla að þessi mín veisla sem aðrar skuli þér og öðrum vinum mínum verða til sæmdar.“
Þórhallur svarar: „Eg fann þetta og eigi af því til að eg væri hræddur um mitt líf og boðar mér fyrir meiri tíðindi og undarlegri þau er eg mun að sinni eigi upp kveða.“
Hallur mælti: „Þá er og ekki fyrir að bregða boði því.“
Þórhallur svarar: „Ekki mun það gera að mæla því að það mun fram ganga sem ætlað er.“
Veislan var búin að veturnóttum. Kom þar fátt boðsmanna því að veður var hvasst og viðgerðarmikið.
En er menn settust til borða um kveldið þá mælti Þórhallur: „Biðja vildi eg að menn hefðu ráð mín um það að engi maður komi hér út á þessi nótt því að mikil mein munu hér á liggja ef af þessu er brugðið og hverigir hlutir sem verða í bendingum gefi menn eigi gaum að því, að illu mun furða ef nokkur ansar til.“
Hallur bað menn halda orð Þórhalls „því að þau rjúfast ekki,“ segir hann, „og er um heilt best að búa.“
Þiðrandi gekk um beina. Var hann í því sem öðru mjúkur og lítillátur. En er menn gengu að sofa þá skipaði Þiðrandi gestum í sæng sína en hann sló sér niður í seti ystur við þili.
En er flestir menn voru sofnaðir þá var kvatt dura og lét engi maður sem vissi. Fór svo þrisvar.
Þá spratt Þiðrandi upp og mælti: „Þetta er skömm mikil er menn láta hér allir sem sofi og munu boðsmenn komnir.“
Hann tók sverð í hönd sér og gekk út. Hann sá engan mann. Honum kom þá það í hug að nokkurir boðsmenn mundu hafa riðið fyrir heim til bæjarins og riðið síðan aftur í móti þeim er seinna riðu. Hann gekk þá undir viðköstinn og heyrði að riðið var norðan á völlinn. Hann sá að það voru konur níu og voru allar í svörtum klæðum og höfðu brugðin sverð í höndum. Hann heyrði og að riðið var sunnan á völlinn. Þar voru og níu konur, allar í ljósum klæðum og á hvítum hestum. Þá vildi Þiðrandi snúa inn og segja mönnum sýnina en þá bar að konurnar fyrr, hinar svartklæddu, og sóttu að honum en hann varðist drengilega.
3. kafli
[breyta]En langri stundu síðar vaknaði Þórhallur og spurði hvort Þiðrandi vekti og var honum eigi svarað. Þórhallur kvað þá mundu ofseinað.
Var þá út gengið. Var á tunglskin og frostviðri. Þeir fundu Þiðranda liggja særðan og var hann borinn inn. Og er menn höfðu orð við hann sagði hann þetta allt sem fyrir hann hafði borið. Hann andaðist þann sama morgun í lýsing og var lagður í haug að heiðnum sið. Síðan var haldið fréttum til um mannaferðir og vissu menn ekki vonir óvina Þiðranda.
Hallur spurði Þórhall hverju gegna mundi um þenna undarlega atburð.
Þórhallur svarar: „Það veit eg eigi en geta má eg til að þetta hafi engar konur verið aðrar en fylgjur yðrar frænda. Get eg að hér eftir komi siðaskipti og mun því næst koma siður betri hingað til lands. Ætla eg þær dísir yðrar er fylgt hafa þessum átrúnaði munu hafa vitað fyrir siðaskiptið og fyrir það að þér munuð verða þeim afhendir frændur. Nú munu þær eigi hafa því unað að hafa engan skatt af yður áður og munu þær þetta hafa í sinn hlut. En hinar betri dísir mundu vilja hjálpa honum og komust eigi við að svo búnu. Nú munuð þér frændur þeirra njóta er þann munuð hafa er þær boða fyrir og fylgja.“
Nú boðaði þessi atburður fyrir sem Þórhallur sagði og margir hlutir þvílíkir þann fagnaðartíma sem eftir kom, að allsvaldandi guð virtist að líta miskunnaraugum á þann lýð er Ísland byggði og leysa það fólk fyrir sína erindreka af löngum fjandans þrældómi og leiða síðan til samlags eilífrar erfðar sinna æskilegra sona sem hann hefir fyrirheitið alla þá er honum vilja trúlega þjóna með staðfesti góðra verka. Svo og eigi síður sýndi óvinur alls mannkyns opinberlega í slíkum hlutum og mörgum öðrum þeim er í frásagnir eru færðir hversu nauðigur hann lét laust sitt ránfengi og þann lýð er hann hafði áður allan tíma haldið hertekinn í villuböndum sinna bölvaðra skurðgoða þá er hann hvessti með slíkum áhlaupum sína grimmdarfulla reiði á þeim sem hann hafði vald yfir sem hann vissi nálgast sína skömm og maklegan skaða síns herfangs.
En Halli þótti svo mikið lát Þiðranda sonar síns að hann undi eigi lengur að búa að Hofi. Færði hann þá byggð sína til Þvottár.
Það var einn tíma að Þvottá þá er Þórhallur spámaður var þar að heimboði með Halli. Hallur lá í hvílugólfi og Þórhallur í annarri rekkju en gluggur var á hvílugólfinu. Og einn morgun er þeir vöktu báðir þá brosti Þórhallur.
Hallur mælti: „Hví brosir þú nú?“
Þórhallur svarar: „Að því brosi eg að margur hóll opnast og hvert kvikvendi býr sinn bagga, bæði smá og stór, og gera fardaga.“
Og litlu síðar urðu þau tíðindi sem nú skal frá segja.