Þjóðfundarsöngur 1851

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Þjóðfundarsöngur 1851
höfundur Bólu-Hjálmar
Aldin móðir eðalborna,
Ísland, konan heiðarlig,
eg í prýðifang þitt forna
fallast læt og kyssi þig,
skrípislæti skapanorna
skulu ei frá þér villa mig.


Þér á brjósti barn þitt liggur,
blóðfjaðrirnar sogið fær:
eg vil svarinn son þinn dyggur
samur vera í dag og gær:
en hver þér amar alls ótryggur,
eitraður visni niður í tær.


Ef synir móður svíkja þjáða,
sverð víkinga mýkra er:
foreyðslunnar bölvan bráða
bylti þeim, sem mýgjar þér:
himininn krefjum heillaráða
og hræðumst ei, þó kosti fjer.


Legg við, faðir, líknareyra,
leið oss einhvern hjálparstig:
en viljirðu ekki orð mín heyra,
eilíf náðin guðdómlig,
mitt skal hróp af heitum dreyra
himininn rjúfa kringum þig.


Móðir vor með fald og feldi
fannhvítum á kroppi sér,
hnigin að æfi kalda kveldi,
karlæg nær og holdlaus er:
grípi hver sitt gjald í eldi,
sem gengur frá að bjarga þér.