Þorgríms þáttur Hallasonar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þorgríms þáttur Hallasonar

Þorgrímur hét maður og var Hallason. Hann var íslenskur. Þorgrímur var ríkur að peningum og vinsæll. Hann bjó á Brúnastöðum í Fljótum. Hann hafði verið hirðmaður Ólafs konungs hins helga og þegið af honum góðar gjafar.

Á einu sumri keypti hann skip hálft að norrænum mönnum en hálft áttu íslenskir bræður tveir, synir Hallbjarnar skefils úr Laxárdal. Hét annar Bjarni en annar Þórður. Bjóst Þorgrímur þá til utanferðar og með honum sonur hans er hét Illugi og tveir fylgdarmenn Þorgríms. Hét annar Galti, mikill maður og styrkur, annar Kolgrímur, lítill og frálegur.

Svo hafði til borið áður um veturinn á imbrudögum fyrir jól er Þorgrímur fór með konu sína og börn að erindum sínum þá gerði að þeim hríð svo mikla að hríðin drap til dauðs son hans frumvaxta er Ásbjörn hét. En Þorgrímur kostgæfði svo mjög að hjálpa föruneyti sínu að hann fannst úti dauðvona og örviti. Var hann fluttur til bæjar og nærður við heita mjólk.

Nú er þar komið að þeir bjuggu skip sitt um sumarið sem fyrr er sagt og létu í haf er þeir voru búnir. Þeir Bjarni og Þórður flimtu Þorgrím og voru illa til hans en hann lét sem hann vissi eigi. Þeim gaf vel byri og komu norður við Þrándheim. Magnús konungur góði hafði ríki í Noregi en þó var hann þá suður í Danmörku. Kálfur Árnason hafði þá mest völd í Þrándheimi. Var hann í bænum. Bauð hann Íslendingum til sín. Voru þeir með honum um veturinn, Bjarni og Þórður og Þorgrímur, með sína félaga. Kálfur skipaði Þorgrími gagnvart sér en þeim bræðrum hið næsta sér.

Þorgrímur var hljóður um veturinn og jafnan með áhyggju yfirbragði. Minntist hann oft hinnar fyrri ævi og vináttu Ólafs konungs hins helga. En þeir bræður voru hávaðamiklir og orðmargir of mart. Þeir lofuðu Kálf mjög en voru illa við Þorgrím og rægðu hann mjög.

Þeir töluðu einn tíma við Kálf og sögðu svo: „Hefir þú nokkuð fundið það Kálfur að Þorgrímur er yður engi alúðarmaður og er öll hans alvara til Ólafs konungs? En vér munum heldur þiggja veturvistina eftir því sem þú veitir.“

Kálfur svaraði: „Fundið hefi eg það að Þorgrímur er engi vinur vor.“

Bjarni mælti: „Kvæði hefi eg ort um yður og vildi eg fá hljóð til að flytja.“

„Hlýða skal kvæði þínu skáld,“ sagði Kálfur, „því að von er að vel sé ort.“

Bjarni færði kvæðið fyrir fjölmenni og var þar mjög getið bardagans á Stiklarstöðum og hrósað þeim tíðindum er þar gerðust til lofs Kálfi.

En er lokið var kvæðinu mælti Þorgrímur: „Undarlegt er það Kálfur svo vitur maður sem þú ert er þér þykir sæmd í slíku að menn kveði um glæpi þína og níðingsverk er þér genguð í mót Ólafi konungi.“

Bjarni mælti: „Þegiðu skemmdarmaðurinn. Þú slóst á þig skrópasótt til þess að hellt var í þig mjólk á imbrudögum út á Íslandi.“

Þorgrímur gekk út úr stofunni þar til sem hann var vanur að sofa.

Hann mælti: „Mikið er slíkt að heyra, lastanarorð til Ólafs konungs en skemmdarorð við mig. Nú gakk inn Illugi og drep Bjarna.“

Sveinninn svaraði: „Eigi ber eg traust til þann veg sem vér erum við komnir.“

Þorgrímur snaraði þá inn í stofuna og hjó Bjarna banahögg. Þórður bróðir hans hljóp til vopna og stóðu menn þá í milli þeirra.

Kálfur mælti: „Þetta er illt verk og hvorki hlíft í sæmd vorri né veturgestinum en þó skal þetta mál fara allt að lögum.“

Lét hann þá þings kveðja og bað alla menn vopnlausa til þings koma. Galti hinn sterki fylgdarmaður Þorgríms greip upp bolöxi og lét koma í milli klæða sér er hann gekk til þingsins. En er þing var sett þá var sleginn mannhringur um Þorgrím.

Kálfur mælti: „Hvað býður þú fyrir þig Þorgrímur?“

Hann svaraði: „Eg býð allt mitt mál á konungs dóm.“

Kálfur svaraði: „Fjarri er nú konungur að dæma þetta mál.“

„Veit eg,“ sagði Þorgrímur, „að þú vildir dæma en eg játta því eigi og sé eg gjörla þinn áhuga að þú kannt mig mest vinganar við Ólaf konung.“

„Það er eigi satt,“ segir Kálfur, „en þó mun nú málið dæmt vera nema Þórður játti öðru.“

Þórður kveðst engum boðum hans játta mundu.

Kálfur mælti: „Dæmi hann þá sekan og útlægjan.“

Og var svo gert að ráði umboðsmanns konungs fyrir dráp Bjarna.

Þorgrímur mælti: „Nú fór svo sem mig varði og þykist þú nú Kálfur hafa fyrir séð að eigi skal til bóta mega komast eftir mig en það er þó vant að sjá ef veitendur koma til.“

Þórður hljóp þá að og veitti honum bana.

Þá mælti Kolgrímur hinn litli fylgdarmaður Þorgríms: „Hefn þú hans Galti, þú hefir öxina.“

Hann kvaðst eigi þora.

„Mæl þú manna armastur,“ sagði Kolgrímur, „og ert þú eigi meðalskræfa, svo mikill og sterkur, er þú hefir engan hug í brjósti og fá mér öxina.“

„Það þori eg eigi,“ sagði hann.

„Þá skaltu og eigi þora á að halda,“ sagði Kolgrímur og kippti af honum öxinni og hjó til Þórðar mikið högg á hrygginn og var það sár banvænt. Kolgrímur var þá handtekinn og lét Kálfur varðveita hann í járnum en vildi eigi láta drepa hann fyrr en vitað væri hvort Þórður rétti við. En það var mjög jafnfram að Magnús konungur kom sunnan úr Danmörk norður til Þrándheims og Þórður dó af sári því er Kolgrímur veitti honum.

Kálfur hafði búið veislu konungi. Magnús konungur hafði frétt nokkura af vígum þessum áður hann kom til veislunnar. Kolgrímur sat í fjötri í forstofunni er konungur gekk inn.

Hann mælti til konungs: „Dirfð mun yður þykja herra er bandinginn biður yður ásjá. En eg tel það helst til að eg hefi ort kvæði um Ólaf konung hinn helga föður yðvarn.“

Konungur nam staðar og svaraði: „Varst þú með Þorgrími Hallasyni?“

„Já herra,“ sagði hann.

„Hefndir þú hans?“ sagði konungur.

„Við leitaði eg,“ sagði Kolgrímur, „og þótti mér verða hefndin alls til lítil eftir slíkan mann enda stóðum vér eigi jafnt að vígi og þeir sem til móts voru.“

„Vera má svo,“ sagði konungur, „og rými á honum fjötrinum svo að hann megi ganga inn í stofu.“

En er hann var inn kominn bað konungur hann flytja kvæðið. Hann gerði svo og bar fram skörulega. En er á leið kvæðið var nokkuð á vikið hvað til dró um líflát Þorgríms og þau mál öll saman. Og voru þessi orð í einni vísu:

Herstillis þarf eg hylli,
hálf eru völd und Kálfi.

Þá mælti konungur: „Ekki er nú meir en svo skáld.“

En er lokið var kvæðinu mælti konungur: „Þau munu fyrst kvæðislaun mín við þig Kolgrímur að þú skalt vera laus og er það þó satt Kálfur að eigi vilt þú oss frændhollur vera. En þótt þú létir dæma Þorgrím útlægjan og sekan þá skal hann nú svo bæta sem hann hafi sýkn drepinn verið. Skal Illugi taka það fé af þeim peningum sem þeir hafa átt Bjarni og Þórður. En þú Kolgrímur skalt hafa umsjá á fé Illuga með honum þar til er hann kemur til Íslands en eg vil gefa þér fyrir þinn röskleik hálft skipið við Illuga.“

Kolgrímur svaraði: „Nú hafið þér herra sem jafnan sýnt stórmennsku yðra. En það verður segja sem á liggur að eg hefi heitið suðurgöngu og skal hana að vísu af hendi inna.“

Kolgrímur gekk suður en Illugi beið í Noregi með umsjá konungs. En er Kolgrímur kom aftur bjó hann skip þeirra til Íslands. Létu þeir í haf er þeir voru búnir. Þeir komu skipi sínu í Kolbeinsárós. Settist Illugi í bú á Brúnastöðum en seldi Kolgrími sinn hlut í skipi. Fór hann landa í milli og þótti hinn besti kaupdrengur.