Þorsklof

Úr Wikiheimild
Þorsklof  (1881) 
höfundur Hannes Hafstein
Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti,
blessaða vera, sem gefur þitt líf
til þess að verja oss bjargræðis bresti,
bágstaddra líknarinn, sverð vort og hlíf.
Heyrðu vort þakklæti, heiðraði fiskur,
hertur og saltaður, úldinn og nýr!
Fyrir þinn verðleika fyllist vor diskur,
frelsi og þjóðmengun til vor þú snýr,
því ef þú létir ei lánast þinn blíða
líkam við strendurnar, hringinn í kring,
horaðir, svangir vér hlytum að stríða
og hefðum ei ráð til að ala vort þing.
Þú ert oss einlægust þjóðfrelsishetja,
þú ert sem dreginn úr almennings sál.
Mynd þín og fyrirmynd fögur oss hvetja,
föðurlandsástinni hleypa í bál.