Fara í innihald

Þorsteins þáttur Síðu-Hallssonar (eftir Morkinskinnu)

Úr Wikiheimild
Þorsteins þáttur Síðu-Hallssonar (eftir Morkinskinnu)

1. kafli

[breyta]

Svo er sagt að eitt sinni er Þorsteinn Hallsson kom úr kaupferð af Dyflinni og var það ekki að konungs vilja né leyfi er hann hafði farið. Svo og höfðu þeir eigi goldið landaura er gjaldkerinn átti að heimta og heimt hafði hann en Þorsteinn lést eigi skyldur að gjalda er hann var konungs hirðmaður og þóttist heimilt eiga og um þá fimmtán menn er honum fylgdu að gefa upp gjaldið og varð fyrir því eigi fast eftir gengið. Hann fór út um sumarið og til bús síns.

Konungur spyr þetta allt og lést veitt mundu hafa Þorsteini sjálfum landaura en eigi mönnum hans, kveðst og ekki muna að hann hefði því heitið en kvað sér hitt þykja þó meira vert er hann tók Dyflinnarferð á sig svo að hann hafði ekki konungs leyfi til og gerir nú Magnús konungur Þorstein fyrir þetta útlagan og lést svo skulu leiða öðrum lagabrotið þó að mikils séu verðir.

Og annað sumar kom Þorsteinn utan og hefir stóðhross ágæta góð, komu norður í Þrándheim og styggðust menn nú við Þorstein fyr sakir ummæla konungs. Sat hann jafnan einn í herbergi með sínum mönnum. Stóðhrossin voru í haga fyr ofan bæinn á Íluvöllum. Fór Þorsteinn þangað til að sjá.

2. kafli

[breyta]

Þeir voru þá í bænum feðgar, Einar og Eindriði. Og einn dag gengur Einar um bæinn og út á Íluvöllu, kemur að hrossunum og sér og lofar mjög. Og er þeir ætla brott að snúa og ræða um með sér hver eiga muni hrossin þá kemur Þorsteinn að og heilsar Einari og spyr ef honum þyki góð hrossin en hann svarar og kveðst vel á lítast.

„Þá vil eg að þú þiggir,“ segir Þorsteinn.

En Einar lést eigi þiggja vilja.

„Það veit eg,“ segir Þorsteinn, „að þú munt þiggja gjafar að slíkum svo mönnum.“

„Satt er það,“ segir Einar, „en mikið liggur nú á þínu máli og berjum vér nú þar augum í.“

„Svo verður þá að vera,“ segir Þorsteinn og skiljast nú.

Og litlu síðar gekk Eindriði að sjá hrossin og lofaði mjög og spyr hver eiga mundi, kveðst eigi séð hafa vænlegra hest. Þorsteinn kemur þá að og heilsar honum vel og segir að hann vill gjarna að hann þiggi hrossin. Eindriði tók við og þakkaði honum gjöfina og nú skiljast þeir.

Og er þeir feðgar finnast segir Einar að mikið mundi hann til hafa gefið að Eindriði hefði eigi tekið við hrossunum. Eindriði segir, kveðst það ekki svo sýnast, kveðst þykja gott mannkaup í manninum.

Einar segir: „Eigi veistu allglöggt kapp fóstra míns, Magnúss konungs, ef þú ætlar það auðsótt að sættast við hann en þó muntu mega það.“

Eindriði býður Þorsteini til sín og fór hann þangað og situr hið næsta Eindriða um veturinn í góðu yfirlæti.

3. kafli

[breyta]

Magnúsi konungi líkar þungt og mæla menn það fyr honum að eigi sé allsæmilegt, svo mikla sem hann gerði þá feðga yfir öllum Þrándheimi, að nú skuli þeir halda þá menn er lagabrot gera og hann hefir reiði á. Konungur svarar þeim fám orðum.

Það er frá sagt að Einar lét sér fátt um finnast við Þorstein um veturinn og segir að Eindriði mun góða sætt bjóða fyr hann og kvað þetta nú ekki til sín koma. Þeir feðgar drukku jafnan jól með Magnúsi konungi og segir Eindriði föður sínum að hann mun enn svo gera.

„Þú ræður því,“ segir Einar, „en heima mun eg sitja og ráðlegra sýnist mér að þú gerir svo.“

Eigi býst Eindriði að síður og Þorsteinn með honum og voru saman tólf og komu á einn lítinn bæ og voru þar um nóttina.

Og um morguninn hafði Þorsteinn séð út og ... og segir Eindriða að menn riðu þar að garði „og er alllíkt föður þínum.“

Og svo var.

Kemur Einar þar og mælir til Eindriða: „Allkynleg er þín ætlun, sækja heim Magnús konung og Þorsteinn með þér. Far heim heldur á Gimsar en eg mun hitta konung og mun eg alls við þurfa að sættir verði teknar. En eg kann hvorntveggja ykkarn konung að ekki munuð þið svo stilla ykkrum orðum að það mundi hlýða og er mér ekki þá betra um að ræða.“

Svo gera þeir nú að Eindriði fer heim en Einar kemur til bæjarins. Konungur tekur við honum blíðlega, hjala mart. Situr Einar hið næsta konungi.

Og hinn fjórða dag jóla vekur Einar við konung um málið Þorsteins og lést vildu sættum við koma og kallar gott mannkaup í Þorsteini, kveðst ekki vilja til spara.

Konungur segir: „Ekki þurfum við um það að ræða. Mér þykir mikið að gera þig reiðan.“

Hættir Einar þessu og er konungur þegar kátur er þeir tala annað.

Líður nú til átta dags. Þá vekur Einar öðru sinni enn sama mál og fer á sömu leið og kemur hinn þrettándi dagur jóla.

Þá biður Einar að konungur taki sættum „og vætti eg,“ segir hann, „að þú munir virða orð mín til þess.“

Konungur segir: „Ekki er þar um að tala,“ segir hann, „og kynlegt þykir mér er þér hélduð þann mann er eg hafði reiði á.“

„Eg ætlaði,“ segir Einar, „að þér munduð stoða mín orð um einn mann og þína virðing viljum vér gera í öllu og svo þykjumst vér jafnan gert hafa og var þetta meir Eindriða ráð en mitt. En því trúi eg að mikið mun á liggja fyrr en hann sé drepinn og em eg þá herra vant við kominn er þið eigið saman sonur minn og þú og viltu eigi taka fé fyr Þorstein og berjast heldur við son minn. En eigi mun eg þó berjast móti þér og eigi þykir mér þú nú mjög á það minnast er eg sótti þig austur í Garða og styrkti eg ríki þitt og gerðist fósturfaðir þinn. Hygg eg að því hverja stund hversu eg má þína sæmd mesta gera. En nú skal eg fara á braut úr landi og veita þér aldrei síðan. Munu sumir menn mæla að þú vinnir þér lítið í þessu öllu saman.“

Einar sprettur nú upp reiður og snýr utar eftir höllinni.

Konungur rís upp og eftir honum og leggur hönd á háls Einari og mælir: „Kom heill og sæll fóstri,“ segir hann, „það skal aldregi verða að okkra vináttu skilji og tak mann í frið svo sem þér líkar.“

Og sefast Einar nú en Þorsteinn er í sættum við konung.