Þorsteins þáttur forvitna
Þorsteinn hét einn íslenskur maður er kom á fund Haralds konungs, félítill og frálegur, og tók konungur við honum. Hann var vasklegur maður.
Það barst að eitt sinn er konungur var í laugu að Þorsteinn gætti klæða hans og varð það fyrir að hann tók í púss konungs og sá þar í hefti tvö er honum þóttu hafa gulls lit en honum sýndist sem tré væri í endann.
Og er konungur kom úr laugu og sat hjá klæðum sínum sá hann athæfi hans og mælti: „Þessa þurftir þú ekki að raufa hér til og þó sæmdi þér vel að annar maður ætti að láta vera kyrrt en nú er þér miklu skyldara. Eg tók vel við þér og gerði eg vel til þín en nú er mest von að á liggi mjög mikið þínu máli.“
Þar var hann til sumars og var konungur fár við hann.
En er sumar kom mælti konungur: „Nú muntu Íslendingur hafa nokkuð fyrir forvitni þína. Þú skalt nú færa mér þvílíkt hefti og að eg megi skilja að af einum við sé eða ella dugir þér ei.“
Þorsteinn mælti: „Hvert skal eg sækja?“
Konungur svarar: „Þú verður sjálfur frá því að segja hvað þér þykir líklegast hvar eg hafi mest um lönd farið.“
Síðan gekk Þorsteinn undir skrín hins helga Ólafs konungs.
Þá dreymdi hann um nótt að maður kom að honum og sagði hann mjög óvísa vegs fara „og það ræð eg þér að snúa enn út í lönd.“
Síðan vaknaði hann og gerði sem honum var kennt. Fór hann nú mæðilega og dró mjög í vökum og hungri. Hann fór um langa skóga og kom þar um síðir er steinn varð fyrir honum. Þar bjó fyrir einsetumaður og tók hann vel við honum því að hann þurfti beina. Hann var þar um nótt og spurði einsetumaðurinn að um ferðir hans en Þorsteinn sagði honum allt málið.
Einsetumaðurinn mælti: „Mikil þarflausa var það er þú gerðir enda kom og mikið fyrir en réttan farveg hefir þú enn. Nú skaltu ganga tvo daga og annan til miðdags. Þá muntu sjá hólma einn skógi vaxinn en skógurinn sá er allur að sjá sem gull og er þar ormabæli. Nú ef þú leggst í hólminn þá tak þér tvö hefti en öngvan hlut skaltu annan í brott hafa og muntu þó alls við þurfa að komast á brott. En það er þeirra einna manna er best eru syndir að komast í hólminn.“
Síðan fór hann og komst yfir sundið. Þá sá hann að ormurinn hafði skriðið til vatns. Þar skorti ei gull og allur viður var þar sem á gull sæi og þar sá hann fagran sprota og að þar hafði verið skorað af. Síðan ræður hann til og skorar af tvö hefti og nú ætlaði hann að hafa meira. Þá heyrði hann gný til ormsins og fleygir hann sér út á vatnið og lagðist á sund. En er ormurinn kom aftur hvæsti hann illslega og þóttist vita að maður hafði komið til byggða hans og reis á sporðinn. Hann saknaði þess er á brottu var og lagðist eftir honum og dró skjótt saman með þeim. Þá hét hann á hinn helga Ólaf konung og þá sá hann að ormurinn lagðist í hring sem hann sæi ekki og fór síðan til eyjarinnar en Íslendingurinn komst á land og fann nú öngvan mann. Fór hann síðan um lönd og kom að lyktum til Noregs og hitti Harald konung. Hann spurði vandlega að ferðum hans en hann segir honum alla sögu og sýndi honum heftin og bar Haraldur konungur við þau hefti er hann hafði áður og sá að af því tré var.
Þá mælti Haraldur konungur: „Mikla gæfu hefir þú til borið og hinn sami hefir til komið um þitt mál sem mitt. Nú vil eg hafa hefti þessi af þér en eg mun fá þér kaupeyri sem þú vilt og svo mun sá vilja er á hefir séð með þér og hefir það verið hinn helgi Ólafur konungur bróðir minn.“
Þorsteinn fór fyrst til Íslands en þó féll hann með konungi á Englandi.