Þorsteins þáttur tjaldstæðings

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Þorsteins þáttur tjaldstæðings
höfundur [[Höfundur:{{{höfundur}}}|{{{höfundur}}}]]
{{{athugasemdir}}}


1. kafli[breyta]

Úlfur hét maður er bjó á Þelamörk. Hann var hersir. Gulpir hét maður. Hann bjó á Fíflavöllum í Tindsdal. Son hans hét Ásgrímur. Hann átti Þorkötlu er kölluð var bringa. Ásgrímur tók við föðurleifð sinni og var hinn mesti mannsómamaður.

En er Ásgrímur fór í víking þá var kona hans vanheil og vildi Ásgrímur láta út bera barnið. Hún varð léttari um kveldið er hann skyldi fara um morguninn. Ásgrímur kvaddi til þræl sinn að grafa sveininn.

Hann svarar: „Mun ei ráð að búa gröfina?“

Ásgrímur kvað það vel mega. En sveinn lá á gólfinu. Þá heyra þeir að sveinninn kvað:

Leggið mög til móður.
Mér er kalt á gólfi.
Hvar sé sveinninn sæmri
en að síns föðr ernum?
Þarf ei járn að eggja
né jarðarmen skerða.
Léttið ljótu verki.
Lifa vil eg enn með mönnum.

Þá mælti Ásgrímur: „Víst skaltu lifa frændi og munt verða hinn mesti merkismaður af þessum fyrirburð.“

Síðan lét Ásgrímur hann vatni ausa og var kallaður Þorsteinn.

2. kafli[breyta]

Þá var Haraldur hinn hárfagri konungur yfir Noregi og hafði mjög lagt land undir sig að sköttum. Hann heimti til sín þann mann er Þórormur hét og var konungs frændi og bjó í Þrömu.

Konungur mælti: „Eg veit að ei hafa skattar goldist af Þelamönnum. Nú vil eg að þú heimtir af Ásgrími syni Úlfs hersis því að öngum gef eg upp mína skuld. En það hefi eg sannfregið að þeir feðgar hafa mikinn áhuga haft síðan er eg fékk Noreg með svo miklu starfi þá vil eg hann hafa með öllum skyldum.“

Þórormur kveðst mundu fara erinda konungs „en lítt segir mér hugur um að þeir muni svara.“

Konungur mælti: „Þá skal vita hvorir ríkari eru en mæl til alls vel í fyrstu.“

Fer hann nú og hittir Ásgrím, ber upp konungs erindi og krefur þar þvílíks fjár sem annarstaðar.

„Nú gerið yður ei endemi að halda réttu fyrir konungi.“

Ásgrímur svarar: „Það hygg eg að mínir frændur sitji á þessum eignum skattalausum. En þótt konungur sjá ágirnist meira en menn viti dæmi til þá vil eg þó frjáls vera og engan skatt gjalda.“

Þórormur kveðst ætla að hann mundi óviturlega fyrir búast „og hefir þeim mönnum ei veitt að deila kappi við konung sem ekki hafa verið óríkari menn en þú ert.“

Fer Þórormur á konungs fund og segir honum svo búið.

Konungur mælti: „Skjótt munum vér gera skiptin þá. Vér munum eignast land hans og lausafé en ætla honum lengd af jörðu“ og kvaddi til Þóri ármann sinn að gera til hans.

En er Þórormur var í brottu frá Ásgrími átti Ásgrímur þing við bændur og mælti: „Það er meiri von að konungur sjá taki þunglega voru máli. Nú vil eg senda honum gjafir en ei skatt og geri eg það fyrstur minna manna.“

Síðan valdi hann til sendimenn og færa konungi gjafir. Það var hestur gauskur og þar með mikið silfur.

Koma sendimenn fyrir kóng og mæltu: „Ásgrímur hersir sendi yður góða kveðju og ríki yðru en hann hefir spurt orðsending yðra um skatt. En hann vill ei hann gjalda heldur hefir hann sent yður margar vingjafir.“

Konungur mælti: „Berið aftur gjafir hans allar. Eg skal konungur í þessu landi og setja lög og rétt en ei hann.“

Nú verða sendimenn aftur að fara við svo búið.

Og á þessi stundu kom Þórormur og lét Ásgrímur þings kveðja.

Þá stóð Ásgrímur upp og mælti: „Vita munuð þér ákall við oss af Haraldi kóngi. Hygg eg nú hér vera komna vel flesta bændur af Þelamörk þá er ráðamenn eru. Nú vil eg að vér verðum samdóma fyrir konungsmönnum að ei brjóti þetta á mér einum. Er það mest von að konungur leggi fjandskap á þann er fyrir beitist. Nú vil eg vita svör af yður.“

Bændur létust hann hafa fengið formælanda fyrir sig „en ekki er oss um skatt að gjalda.“

„Þá veljið þér yður þann,“ sagði Þórormur, „sem verst gegnir. Hafa margir þeir borið lægra hlut fyrir Haraldi konungi er svo mundi sýnast sem hvergi mundu hafa minni hamingju og hafa þó lágt fyrir honum farið.“

Ásgrímur svarar: „Á það vil eg sáttur vera sem aðrir bændur vilja.“

En þingið var sett við skóg nokkurn.

En er þingið raufst þá mælti Þórormur við þræl sinn: „Gakk þú til og drep Ásgrím og leita þegar í skóginn.“

Hann gerir svo, leitar fram í milli mannanna og hjó hann þegar banahögg og svo hafði konungur ráð til sett. En bændur drápu þegar þrælinn en Þórormur komst þó nauðuglega í skóginn undan og síðan til skips, fer nú á konungs fund og segir honum sem komið var.

Konungur mælti: „Trautt mun fást hugfullari þræll og því fékk eg hann til að eg vissi að sá mundi feigur er hann vægi. En sárt vildi eg leika alla þá er mér brjótast í móti.“

3. kafli[breyta]

Þorsteinn Ásgrímsson var í hernaði og var manna gervilegastur, mikill og sterkur. En er hann kom heim úr víkingu komu menn á fund hans og segja honum líflát föður hans.

Þorsteinn svarar: „Bitu hann enn ráðin Haralds konungs en brátt mun eftir verða ætt vora ef Haraldur konungur skal einn fyrir sjá.“

Síðan varði hann föðurleifð sinni í silfur og lausafé og kveðst ætla að hann mundi ei keppa við Harald konung. En þá var för mikil til Íslands úr Noregi eftir þau stórvirki er menn ráku harma sinna. Nú bjóst Þorsteinn til Íslands og með honum Þorgeir bróðir hans tíu vetra gamall og Þórunn föðursystir þeirra, fóstra Þorgeirs.

En er búið var skip til hafs þá mælti Þorsteinn við félaga sína: „Það mundi faðir minn ætla þá er hann lét mig ei út bera að eg mundi nokkuð minnast að hefna hans ef hann yrði ei sóttdauður. Nú þó að ei komi þar niður sem vera skyldi þá er þó ei ámælis vert ef jafnmenni kemur fyrir. Nú vil eg fara í Þrömu til Þórorms.“

Og svo gerir hann, koma þar á náttarþeli og tóku hús á þeim.

Þá mælti Þorsteinn: „Nú skulu menn það vita að eg ætla hér til föðurhefnda og vildi eg hafa þar til yðvart liðsinni.“

En þeir sögðust honum veita skyldu slíkt er þeir mættu. Síðan slá þeir eldi í bæinn og brann þar inni Þórormur og sveit hans öll. En um morguninn höggva þeir upp búið og bera til skips, láta í haf eftir það og lést Þorsteinn nú fúsari í haf að láta en þá að honum væri því brugðið á Íslandi að hann hefði ei hefnt föður síns.

Þeir láta nú í haf og koma skipi sínu í Rangárós. En sá maður var fyrir sveit er Flosi hét og var Þorbjarnarson. Hann var landnámsmaður. Ríða menn til skips. Kom þar Flosi og kannaðist hann þegar við Þorstein og spurði hann hvað hann hafi til rekið að fara út hingað.

Þorsteinn mælti: „Eg hefi farið sem sumir aðrir heldur skyndilega af Noregi með vandkvæði og nú í sökum við Harald konung. Nú vildi eg hér staðfestast og vera frjáls.“

Hann kvað slíkt þá menn henda sem ekki vilja láta yfir drífast „en vér skulum þér vel fagna.“

Hann nam land að ráði Flosa fyrir ofan Víkingalæk og út til móts við Svínhaga, bjó í Skarði hinu eystra. Hann átti Þórdísi dóttur Gunnars Sigmundarsonar, Sighvatssonar hins rauða er féll við Sandhóla. Sighvatur hinn rauði átti Ingibjörgu dóttur Eyvindar lamba, Berðlu-Kárasonar, systur Finns, föður Eyvindar skáldaspillis. Sonur Þorsteins og Þórdísar var Gunnar.

Þorsteinn var drengur góður og sér nógur um alla hluti.

4. kafli[breyta]

Það er sagt að skip kom í Rangárós, það er fylgdi ósvipur mikill og sjúkleiki, og sáu menn við að koma til þeirra að ei fengju menn illindi af þeim og fór svo um hríð.

En er Þorsteinn frá þetta kvað hann mönnum ei sama að þeir færust af bjargleysi. Fór þá Þorsteinn á fund þeirra og spyr með hverju móti væri sótt þeirra.

En þeir sögðust orðnir fyrir gerningum „en nú vill engi á sjá með oss.“

Þorsteinn mælti: „Mun ei það vænst að þér farið með oss?“

En er þeir koma heim kvað Þórdís ei meðalendemi í vera hvað hann tók til og vildi flýja bæinn. En Þorsteinn kvað ei það skyldu og bjó eitt tjald skammt frá bænum. Því var hann kallaður Þorsteinn tjaldstæðingur.

Nú gerðist hallæri mikið yfir þeim svo engi mátti hjá þeim vera nema Þorsteinn einn. Og ekki var athæfi þeirra friðlegt því að sá þeirra sem lengst lifði fal silfur mikið og vildi að engi nyti.

Þorsteinn átti síðar Þórdísi Sigfúsdóttur. Þeirra son var Skeggi, faðir Gunnars, föður Skeggja, föður Lofts, föður Gunnlaugs smiðs.

Þessi texti er fenginn frá Netútgáfunni