Þrír viðskilnaðir

Úr Wikiheimild

eftir Grím Thomsen

II. SVERRIR KONUNGUR
„Þótt páfi mér og biskup banni,
bana sæng skal konungmanni
hásætið til hvílu reitt;
kórónaður kóngur er eg,
kórónu til grafar ber eg,
hvort þeim er það ljúft eða leitt.


Vos eg hafði um alla ævi
og erfiði bæði á landi og sævi;
lifði eg oft við lítinn kost;
á Kjalar einatt eyðimörkum
úti eg lá í vetrar hörkum,
þoldi bæði fjúk og frost.


Margar fór eg ferðir glæfra,
fætur mína vafði í næfra,
kulda mér þá sviðinn sveið;
en — hvað var það hjá hugar angri,
hverja stund á vegferð langri,
sem eg fyrir land mitt leið?


Konunglegan klætt í skrúða,
kistuleggið holdið lúða,
ber sé látin ásýnd ein;
breidd sé Sigurflugu sængin,
svo til hinzta flugs ei vænginn
skorti gamlan Birkibein.


Vel er, að þér sálma syngið
og saman öllum klukkum hringið,
meðan eg skaflinn moldar klýf;
en í tilbót eitt mér veitið,
Andvökuna mikinn þeytið,
andvaka var allt mitt líf.“
Ljóðmæli, 1969.