Bandamanna saga/1
Ófeigur hét maður er bjó vestur í Miðfirði á þeim bæ er að Reykjum heitir. Hann var Skíðason en móðir hans hét Gunnlaug. Móðir hennar var Járngerður, dóttir Ófeigs Járngerðarsonar norðan úr Skörðum. Hann var kvæntur maður og hét Þorgerður kona hans og var Valadóttir, ættstór kona og hinn mesti kvenskörungur. Ófeigur var spekingur mikill og hinn mesti ráðagerðamaður. Hann var í öllu mikilmenni en ekki var honum fjárhagurinn hægur, átti lendur miklar en minna lausafé. Hann sparði við engan mann mat en þó var mjög á föngum það er til búsins þurfti að hafa. Hann var þingmaður Styrmis frá Ásgeirsá er þá þótti mestur höfðingi vestur þar.
Ófeigur átti son við konu sinni er Oddur hét. Hann var vænn maður og brátt vel menntur. Ekki hafði hann mikla ást af föður sínum. Engi var hann verklundarmaður.
Vali hét maður er þar óx upp heima hjá Ófeigi. Hann var vænn maður og vinsæll.
Oddur óx upp heima með föður sínum þar til er hann var tólf vetra gamall. Ófeigur var fálátur löngum við Odd og unni honum lítið. Sá orðrómur lagðis á að engi maður þar í sveitum væri betur menntur en Oddur. Einn tíma kemur Oddur að máli við föður sinn og beiðir hann fjárframlaga "og vil eg fara á brott héðan. Er á þá leið,“ sagði hann, "að þú leggur til mín litla sæmd. Er eg og ekki nytsamlegur yðru ráði.“
Ófeigur segir: „Ekki mun eg minnka tillög við þig úr því sem þú hefir til unnið. Mun eg og því næst gera og muntu þá vita hvert fullting þér er að því.“
Oddur sagði að lítt mátti hann við það styðjast mega og skilja við það talið.
Annan dag eftir tekur Oddur vað af þili og öll veiðarfæri og tólf álnar vaðmáls. Hann gengur nú í brott og kveður engan mann. Hann fer út á Vatnsnes og réðst þar í sveit með vermönnum, þiggur að þeim hagræði þau sem hann þarf nauðsynlegast að láni og leigu. Og er þeir vissu ætt hans góða en var vinsæll sjálfur þá hætta þeir til þess að eiga að honum. Kaupir hann nú allt í skuld og er með þeim þau misseri í fiskiveri og er svo sagt að þeirra hlutur væri í besta lagi er Oddur var í sveit með. Þar var hann þrjá vetur og þrjú sumur og var þá svo komið að hann hafði þá aftur goldið hverjum það er átti en þó hafði hann aflað sér góðs kaupeyris. Aldrei vitjaði hann föður síns og svo láta hvorir sem engu áttu við aðra að skylda. Oddur var vinsæll við sína félaga.
Þar kemur að hann ræðst í flutningar norður til Stranda með farma og kaupir sér í ferju, aflar þá svo fjár. Nú græðir hann brátt fé þar til er hann á einn ferjuna og heldur nú svo milli Miðfjarðar og Stranda nokkur sumur. Tekur hann nú að hafa vel fé.
Þar kemur enn að honum leiddist sjá athöfn. Nú kaupir hann í skipi og fer utan og er nú í kaupferðum um hríð og tekst enn vel til þessa og liðmannlega. Verður honum nú gott bæði til fjár og mannheilla. Þessa iðn hefir hann nú fyrir stafni þar til er hann á einn knörr og mestan hlut áhafnar, er nú í kaupferðum og gerist stórauðigur maður og ágætur. Hann var oft með höfðingjum og tignum mönnum utanlands og virðist þar vel sem hann var. Nú gerir hann svo auðgan að hann á tvo knörru í kaupferðum. Og svo er sagt að engi maður væri þann tíma í kaupferðum sá er jafnauðigur væri sem Oddur. Hann var og farsælli en aðrir menn. Aldrei kom hann norðar skipi sínu en á Eyjafjörð og eigi vestar en í Hrútafjörð.