Bandamanna saga/12

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þetta haust hið sama safnar Hermundur liði og fer út til Hvammsleiðar og ætlar til Borgar að brenna Egil inni. Og er þeir koma út með Valfelli þá heyra þeir sem strengur gjalli upp í fellið og því næst kennir Hermundur sér sóttar og stinga undir höndina og verða þeir að víkja aftur ferðinni og elnar honum sóttin. Og er þeir koma fyrir Þorgautsstaði þá verður að hefja hann af baki. Er þá farið eftir presti í Síðumúla og er hann kemur þá mátti Hermundur ekki mæla og var prestur þar hjá honum.

Og einn tíma er prestur lýtur að honum þá lætur í vörunum: „Tvö hundruð í gili, tvö hundruð í gili.“

Og síðan andast hann og lauk svo hans ævi sem hér er nú sagt.

Oddur situr nú í búi sínu með mikilli rausn og unir vel konu sinni.

Alla þessa stund spyrst ekki til Óspaks. Sá maður fékk Svölu er Már hét og var Hildisson og réðst til bús á Svölustaði. Bjálfi hét bróðir hans, hálfafglapi og rammur að afli.

Bergþór hét maður er bjó í Böðvarshólum. Hann hafði reift málið þá er Óspakur var sekur ger. Svo bar til eitt kveld í Böðvarshólum þá er menn sátu við elda að þar kom maður og drap á dyr og bað bónda út ganga. Bóndi verður þess var að Óspakur er þar kominn og sagðist eigi mundu út ganga. Óspakur eggjar hann mjög út að ganga en hann fer eigi því heldur út og bannar öllum mönnum út að ganga og skilur svo með þeim. En um morguninn er konur koma í fjós þá eru þar særðar níu kýr til bana. Þetta fréttist víða.

Og enn er fram líða stundir ber svo til að maður gengur inn á Svölustöðum og í hús það er Már hvílir í. Það var snemma um morgun. Sá maður gengur að sænginni og leggur Má með saxi svo að þegar gekk á hol.

Þetta var Óspakur. Hann kvað vísu:

Brá eg úr slíðrum
skálm nýbrýndri,
þeirri lét eg Mávi
á maga hvotað.
Unni eg eigi
arfa Hildis
fagrvaxinnar
faðmlags Svölu.

Og í því er hann snýr til dyranna hleypur hann upp Bjálfi og rekur á honum tálguhníf. Óspakur gengur til þess bæjar er heitir á Borgarhóli og lýsir þar víginu, fer síðan á brott og spyrst nú ekki til hans um hríð. Víg Márs fréttist víða og mæltist illa fyrir.

Það bar til nýlundu að stóðhross hin bestu er Oddur átti, fimm saman, fundust dauð öll og ætluðu menn Óspaki það verk.

Nú er það langa hríð að ekki spyrst til Óspaks. Og um haustið að menn gengu að geldingum fundu þeir helli í hömrum nokkurum og þar mann dauðan og stóð hjá honum munnlaug full af blóði og var það svo svart sem tjara. Þar var Óspakur og hugðu menn að sárið mundi hafa grandað honum, það er Bjálfi veitti honum, enda farið síðan af bjargleysi og lauk svo hans ævi. Ekki er þess getið að eftirmál yrðu um víg Márs né um víg Óspaks.

Oddur býr á Mel til elli og þótti hinn mesti ágætismaður. Eru Miðfirðingar frá honum komnir, Snorri Kálfsson og mart annað stórmenni. Jafnan síðan hélst vinátta þeirra feðga með góðri frændsemi. Og lýkur þar þessi sögu.