Fara í innihald

Bandamanna saga/4

Úr Wikiheimild
3
5


Svo bar til um haustið að Óspakur kom norður í Víðidal, á Svölustaði. Þar bjó kona sú er Svala hét. Þar var honum veittur beinleiki. Hún var væn kona og ung. Hún talar tíl Óspaks og biður hann sjá um ráð sitt „hefi eg það frétt að þú ert búmaður mikill.“

Hann tók því vel og tala þau mart. Féllst hvort öðru vel í geð og lítast þau vel til og blíðlega. Og þar kemur tali þeirra að hann spyr hver ráða eigi fyrir kosti hennar.

„Engi maður er mér skyldri,“ segir hún, „sá er nokkurs er verður, en Þórarinn Langdælagoði hinn spaki.“

Síðan ríður Óspakur til fundar við Þórarin og er þar tekið við honum vel að eins. Hann hefir nú uppi sitt erindi og biður Svölu.

Þórarinn segir: „Ekki kann eg að girnast til þíns mægis. Er margtalað um þínar meðferðir. Kann eg það sjá að ekki má í tveim höndum hafa við slíka menn, verður annaðhvort að taka upp bú hennar og láta hana fara hingað, ella munuð þið gera sem ykkur líkar. Nú mun eg mér engu af skipta og kalla eg ekki þetta mitt ráð.“

Eftir þetta fer Óspakur á brott og kemur á Svölustaði og segir henn svo búið. Nú gera þau ráð sitt og fastnar hún sig sjálf og fer hún með honum á Mel en þau eiga bú á Svölustöðum og fá menn til fyrir að vera. Nú er Óspakur á Mel og hélt rausn í búinu. Hann þótti þó vera ódældarmaður mikill.

Nú líður af veturinn og um sumarið kom Oddur út í Hrútafirði. Hafði honum enn orðið gott til fjár og mannheilla, kemur heim á Mel og lítur yfir eignir sínar, þykir vel varðveist hafa og gest vel að. Líður nú á sumarið.

Það er eitt sinn að Oddur vekur til við Óspak að vel muni fallið að hann tæki við goðorði sínu.

Óspakur segir: „Já,“ segir hann, „þar er sá hlutur er eg var ófúsastur til með að fara og síst til fær. Er eg þess og albúinn en það ætla eg mönnum þó tíðast að það sé gert annaðhvort á leiðum eða þingum.“

Oddur segir: „Það má vel vera.“

Líður nú sumarið að leiðinni fram. Og leiðarmorguninn er Oddur vaknar litast hann um og sér fátt manna í skálanum. Hefur hann sofið fast og lengi, spratt upp og veit að menn eru gersamlega úr skálanum. Honum þótti þetta undarlegt og talar þó fátt. Hann býst um og nokkurir menn með honum, þótti þetta undarlegt og ríða nú til leiðarinnar. Og er þeir komu þar þá var þar mart manna fyrir og voru þá mjög brott búnir og var helguð leiðin. Oddi bregður nú í brún, þykir undarleg þessi tiltekja. Fara menn heim og líða þaðan nokkurir dagar.

Það var enn einn dag er Oddur sat undir borði og Óspakur gegnt honum og er minnst varir hleypur Oddur undan borðinu og að Óspaki og hefir reidda exi í hendi sér, biður hann nú laust láta goðorðið.

Óspakur segir: „Eigi muntu þurfa með svo miklu kappi að sækja. þegar hefir þú goðorð er þú vilt og vissi eg eigi er þér væri alvara við að taka.“

Rétti hann þá fram höndina og fékk Oddi goðorðið. Var nú kyrrt um hríð og héðan gerist fátt með þeim Oddi og Óspaki. Er Óspakur heldur ýgur viðskiptis. Grunar menn um að Óspakur mundi hafa ætlað sér að hafa goðorðið en eigi Oddi ef eigi hefði verið kúgað af honum að hann mætti eigi undan komast. Nú verður ekki af búsumsýslunni. Oddur kveður hann að engu. Mæltust þeir og ekki við.

Það var einn dag að Óspakur býr ferð sína. Oddur lætur sem hann viti það eigi. Skiljast þeir svo að hvorgi kveður annan. Óspakur fer nú á Svölustaði til bús síns. Oddur lætur nú sem ekki sé að orðið og er nú kyrrt um hríð.

Þess er getið að um haustið fara menn á fjall og skaut mjög í tvö horn um heimtur Odds frá því er verið hafði. Hann skorti að haustheimtu fjóra tigu geldinga og þá alla er bestir voru af fé hans. Er nú víða leitað um fjöll og heiðar og finnast eigi. Undarlegt þótti þetta vera því að Oddur þótti féauðnumaður meiri en aðrir menn. Svo mikill atrekandi var ger um leitina að bæði var leitað til annarra héraða og heima og gerði eigi. Og um síðir dofnar enn yfir þessu og var þó margrætt um hverju gegna mundi. Oddur var ekki glaður um veturinn.

Vali frændi hans frétti hann hví hann væri óglaður "eða hvort þykir þér svo mikið geldingahvarfið? og ertu eigi þá mikill borði ef þig hryggir slíkt.“

Oddur segir: „Eigi hryggir mig geldingahvarfið en hitt þykir mér verra er eg veit eigi hver stolið hefir.“

„Þykir þér það víst,“ segir Vali, „að það mun af orðið eða hvar horfir þú helst á?“

Oddur segir:“Ekki er því að leyna að eg ætla Óspak stolið hafa.“

Vali segir: „ferst nú vinátta ykkur frá því er þú settir hann yfir allt þitt góss.

Oddur kvað það verið hafa hið mesta glapræði og vonum betur tekist hafa.

Vali mælti: „margra manna mál var það að það væri undarlegt. Nú vil eg að þú snúir eigi svo skjótt málinu til áfellis honum. Er það hætt við orði að ómerkilega þyki verða. Nú skulum við því saman kaupa,“ segir Vali, "að þú skalt mig láta fyrir ráða hversu að er farið en eg skal verða vís hins sanna.“

Nú kaupa þeir þessu. Vali býr nú ferð sína og fer með varning sinn, ríður út til Vatnsdals og Langadals og selur varninginn. Var hann vinsæll og tillagagóður. Hann fer nú leið sína þar til er hann kemur á Svölustaði og fékk þar góðar viðtökur. Óspakur var allkátur. Vali bjóst þaðan um morguninn. Óspakur leiddi hann úr garði og frétti margs frá Oddi. Vali sagði gott af hans ráði. Óspakur lét?vel yfir honum og kvað hann vera rausnarmann mikinn „eða er hann fyrir sköðum orðinn í haust?“

Vali kvað það satt vera.

„Hverjar eru getur á um sauðahvarfið? Hefir Oddur lengi fégefinn verið hér til.“

Vali segir: „Eigi er það á eina leið. Sumir ætla að vera muni af mannavöldum.“

Óspakur segir: „Óætlanda er slíkt og er eigi margra brögð.“

„Svo er og,“ segir Vali.

Óspakur mælti: „Hefir Oddur nokkurar getur á?“

Vali mælti: „Fátalaður er hann til en þó er fjölrætt um af öðrum mönnum hverju gegna muni.“

„Það er eftir vonum,“ segir Óspakur.

„Á þá leið er,“ segir Vali, „er þó höfum við þetta talað, að það vilja sumir kalla eigi óvænt að vera muni af þínum völdum. Draga menn það saman er þið skilduð stuttlega en hvarfið varð eigi miklu síðar.“

Óspakur segir: „Eigi varði mig að þú mundir slíkt mæla og ef við værum eigi slíkir vinir þá mundi eg þessa sárlega hefna.“

Vali segir: „Eigi þarftu þessa að dylja eða svo óður við að verða. Eigi mun þetta af þér bera og hefi eg séð yfir ráð þitt og sé eg það að miklu hefir þú meiri föng en líklegt sé að vel muni fengið.“

Óspakur segir: „Eigi mun svo reynast og eigi veit eg hvað tala fjandmenn vorir er slíkt tala vinirnir.“

Vali segir: „Þetta er og ekki af fjandskap mælt af mér við þig er þú heyrir einn á. Nú ef þú gerir svo sem eg vil og gangir við fyrir mér þá mun þér létt falla því að eg skal setja ráð til þess. Eg hefi seldan varning minn víða um sveitir. Mun eg segja að þú hafir við tekið og keypt þér með slátur og aðra hluti. Mun það engi maður mistrúa. Skal eg svo til haga að þér verði engi ósæmd að þessu ef þú fylgir mínu ráði að.“

Óspakur sagðist eigi mundu við ganga.

„Þá mun fara verr,“ segir Vali, „og veldur þú sjálfur.“

Síðan skiljast þeir og fer Vali heim. Oddur spyr hvers hann hefði vís orðið um sauðahvarfið. Vali lét sér fátt um finnast.

Oddur mælti: „Nú þarf eigi við að dyljast að Óspakur hefir stolið því að þú mundir hann gjarna undan bera ef þú mættir.“

Er nú kyrrt um veturinn. Og er voraði og stefnudagar komu þá fer Oddur með tuttugu menn þar til er hann kom mjög að garði á Svölustöðum.“

Þá mælti Vali við Odd: „Nú skuluð þér láta taka niður hesta yðra en eg mun ríða til húss og hitta Óspak og vita að hann vilji sættast og þurfi málið eigi fram að hafa.“

Nú gera þeir svo. Vali ríður heim. Ekki var manna úti. Opnar voru dyr. Gengur Vali inn. Myrkt var í húsum. Og er minnst varir hleypur maður úr setinu og höggur milli herða Vala svo að hann féll þegar.

Vali mælti: „Forða þér vesall maður því að Oddur er skammt frá garði og ætlar að drepa þig. Send konu þína á fund Odds og segi hún að við séum sáttir og hafir þú gengið við málinu en eg sé farinn að fjárreiðum mínum út í dali.“

Þá mælti Óspakur: „Þetta er hið versta verk orðið. Hafði eg Oddi þetta ætlað en eigi þér.“

Svala hittir nú Odd og segir þá sátta Óspak og Vala "og bað Vali þig aftur hverfa.“

Oddur trúir þessu og ríður heim. Vali lét líf sitt og var flutt lík hans á Mel. Oddi þóttu þetta mikil tíðindi og ill. Fær hann af þessu óvirðing og þótti slyslega tekist hafa.

Nú hverfur Óspakur á brott svo að eigi vita menn hvað af honum verður.