Bandamanna saga/7
Frá því er sagt að þeir Styrmir og Þórarinn talast við.
Styrmir mælti: „Mikla sneypu og svívirðing höfum við af þessu máli fengið.“
Þórarinn segir það eftir líkindum „og munu hér vitrir menn hafa um vélt.“
"Já,“ segir Styrmir, „sérð þú nokkuð til leiðréttu?“
"Eigi veit eg að það megi brátt verða,“ segir Þórarinn.
"Hvað helst?“ segir Styrmir.
Þórarinn segir: „Væri sökin við þá er fé var borið í dóm og sú mun bíta.“
"það er,“ segir Styrmir.
Ganga þeir þá í brott og heim til búða. Þeir heimta nú saman vini sína og tengdamenn á eina málstefnu. Þar var einn Hermundur Illugason, annar Gellir Þorkelsson, þriðji Egill Skúlason, fjórði Járnskeggi Einarsson, fimmti Skegg-Broddi Bjarnason, sjötti Þorgeir Halldóruson og þeir Styrmir og Þórarinn. Þessir átta menn ganga nú á tal. Segja þeir Styrmir og Þórarinn málavöxtu og hvar þá var komið og hversu mikill slægur til var fjárins Odds og það að allir munu þeir fullsælir af verða. Þeir ráða nú til fasta með sér að veitast allir að málinu svo að annaðhvort skyli fyrir koma sektir aða sjálfdæmi. Ganga nú síðan í bönd og eiða og hyggja nú að þessu megi ekki bregða og engi muni traust á bera eða kunnáttu í móti rísa. Skilja að svo mæltu og ríða menn heim af þingi og fer þetta fyrst af hljóði.
Oddur unir nú vel við sína þingreið og er nú fleira í frændsemi með þeim feðgum en verið hafði, situr nú um kyrrt þau misseri. Og um vorið hittast þeir feðgar við laug og spyr Ófeigur tíðinda. Oddur lést engi frétta og spyr á móti. Ófeigur segir að þeir Styrmir og Þórarinn hafa safnað liði og ætla að fara á Mel stefnuför. Oddur fréttir hver sök til þess sé. Ófeigur segir honum alla ætlan þeirra.
Oddur segir: „Ekki líst mér þetta þungt.“
Ófeigur segir: „Það má vera að yður verði það ekki um afl.“
Líða nú stundir að stefnudögum og koma þeir Styrmir og Þórarinn á Mel með fjölmenni. Oddur hafði og mart manna fyrir. Þeir höfðu fram mál sín og stefna Oddi til alþingis fyrir það er hann hafi látið bera fé í dóm að ólögum.
Verður þar ekki fleira til tíðinda og ríða þeir í brott með flokk sinn.
Svo ber enn til að þeir feðgar hittast og talast við. Spyr Ófeigur hvort honum þyki enn engis um vert.
Oddur segir: „Eigi líst mér þetta mál þunglegt.“
"Eigi sýnist mér svo,“ segir Ófeigur, „eða hversu gerla veistu í hvert efni komið er?“
Oddur lést vita það er þá var fram komið.
Ófeigur segir: „Meira slóða mun draga, að því er eg hygg, því að sex höfðingjar aðrir þeir að mestir eru hafa gengið í málið með þeim.“
Oddur segir: „Mikils þykir þeim við þurfa.“
Ófeigur mælti: „Hvert mun þitt ráð nú vera?“
Oddur segir: „Hvað með að ríða til þings og biðja sér liðs?“
Ófeigur segir: „Það sýnist mér óvænt að svo föllnu máli og mun eigi gott að eiga sína sæmd undir liði flestra.“
"Hvað er þá til ráðs?“ segir Oddur.
Ófeigur mælti: „Það er mitt ráð að þé búir skip þitt um þing og ver búinn með allt lausagóss þitt áður menn ríða af þingi. Eða hvort þykir þér betur komið það fé er þeir taka upp fyrir þér eða hitt er eg hefi?“
"Það þykir mér illskáinn að þú hafir.“
Og nú fær Oddur föður sínum einn digran fésjóð fullan af silfri og skiljast að því. Oddur býr nú skip sitt og ræður menn til. Líður nú fram að þinginu og fer þessi ráðagerð af hljóði svo að fáir verða vísir.