Bikarinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Bikarinn
höfundur Jóhann Sigurjónsson
Einn sit ég yfir drykkju
aftaninn vetrarlangan,
ilmar af gullnu glasi
gamalla blóma angan.


Gleði, sem löngu er liðin,
lifnar í sálu minni.
Sorg sem var gleymd og grafin,
grætur í annað sinni.


Bak við mig bíður dauðinn,
ber hann hendi styrkri
hyldjúpan næturhimin
helltan fullan af myrkri.