Fara í innihald

Bjarnar saga Hítdælakappa/1

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
1. kafli


Nú skal segja nokkuð af þeim íslensku mönnum sem uppi voru um daga Ólaf konungs Haraldssonar og hans urðu heimulegir vinir. Nefnir þar til fyrstan ágætan mann, Þorkel Eyjólfsson er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur, því að í þenna tíma var Þorkell í förum og var jafnan með Ólafi konungi vel virður þá er hann var utanlands.

Í þenna tíma bjó Þórður Kolbeinsson á Hítarnesi á Íslandi. Hann var skáld mikið og hélt sér mjög fram til virðingar. Var hann jafnan utanlands vel virður af meira háttar mönnum sakir menntanar sinnar. Þórður var hirðmaður Eiríks jarls Hákonarsonar og af honum vel metinn. Ekki var Þórður mjög vinsæll af alþýðu því að hann þótti vera spottsamur og grár við alla þá er honum þótti dælt við.

Sá maður óx upp með Skúla Þorsteinssyni að Borg er Björn hét og var Arngeirsson og Þórdísar, dóttur Þorfinns stranga og Sæunnar, dóttur Skalla-Gríms. Björn var snemma mikill vexti og rammur að afli, karlmannlegur og sæmilegur að sjá. Björn hafði enn sem margir aðrir orðið fyrir spotti Þórðar og áleitni. Var hann því með Skúla frænda sínum meðan hann var ungur að hann þóttist þar betur kominn sakir áleitni Þórðar Kolbeinssonar en hjá föður sínum. En því get eg eigi þeirra smágreina sem milli fóru þeirra Bjarnar og Þórðar áður Björn kom til Skúla að þær heyra ekki til þessi sögu. Skúli var vel til Bjarnar og virti hann mikils því að hann sá með sinni visku hver sæmdarmaður hann mundi verða í þeirra ætt. Undi Björn allvel sínu ráði meðan hann var með Skúla.

Þá bjó í Hjörsey fyrir Mýrum Þorkell, son Dufgusar hins auðga úr Dufgusdal. Þorkell var auðigur maður að fé og góður bóndi. Hann átti dóttur er Oddný hét, kvenna vænst og skörungur mikill. Hún var kölluð Oddný eykyndill. Björn vandi þangað komur sínar og sat jafnan að tali við Oddnýju Þorkelsdóttur og féllst hvort þeirra öðru vel í skap. Það var talað af mörgum mönnum að það væri jafnræði þó að Björn fengi hennar sér til eiginkonu því að hann var hinn skörulegasti maður og vel menntur.