Bjarnar saga Hítdælakappa/18

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
18. kafli

Á hinu þriðja sumri um alþing kom skip á Eyrum og voru þar á tveir frændur Þórðar, víkverskir menn og bræður. Hét annar Óttar en annar Eyvindur. Þeir voru skyldir Þórði í föðurætt hans. Hvortveggi var garpur mikill. Þeir senda Þórði orð að hann kæmi á mót þeim, höfðu spurt virðulegan ráðahag hans og hugðu að ráðast þangað til vistar. Og er Þórður spyr það ríður hann suður á Eyrar og fagnar frændum sínum og býður þeim til sín. Þeir fara með honum heim.

Ekki var svo fárætt um viðskipti Þórðar og Bjarnar að ekki hefðu þessir menn heyrt um rætt áður og var sá orðrómur á að Þórður hefði oftast minna hlut. Þeim líkar það illa því að þeir voru ofskapsmenn og kváðust það sjá kunna að Björn væri eigi svo mikill fyrir sér sem sagt var að menn muni eigi fá mega af honum jafnan hlut og fýsa Þórð að sitja eigi við svo búið.

Héraðsmenn eiga oft ferðir út á Snæfellsnes eftir fiskiföngum eða öðru því er þar getur að kaupa.

Nú bar svo til að Björn fór á ströndina til Saxahvols til Arnórs mágs síns að fiskakaupum. Var honum þar vel fagnað.

Þórhildur föðursystir Bjarnar ræðir um það við hann: „Bæði er Björn,“ segir hún, „að þú ert mikill fyrir þér enda þykist þú svo. Kann vera þér þyki eg örorð. Mér sýnist óráðlegt að fara við annan mann svo sökótt sem þú átt. Eru þeir menn komnir í héraðið er oft hafa eigi unað skerðum hlut og þeir vita að Þórður hefir oft minna hlut en þú. Kann vera að þeir vilji það rétta. Eg á einn son hér er Þorfinnur heitir. Hann býð eg til fylgdar við þig en ærin er honum þó vist heima. Nú er eg fegin komu þinni en þó fegnari ef þú værir við tólf menn jafnvíglega sem Þorfinnur son minn er og þaðan af fleiri. Öllum mundi beini vera veittur en síður værir þú upp ger af bráðungu fyrir óvinum þínum.“

Björn mælti: „Haf þú þökk fyrir boð þín og góðvilja og mun eg þiggja að Þorfinnur sé í minni för en eigi veit eg að nauðsyn sé til að fara með fjölmenni.“

Þar er Björn þrjár nætur í góðum beina.

Þórður Kolbeinsson spyr að Björn er eigi heima og var farinn út til Saxahvols. Nú gefur hann sér erindi út á ströndina og fer með tólfta mann út í Beruvíkurhraun. Þar voru frændur hans í för, Óttar og Eyvindur.

Og er þeir eru þar komnir þá segir Þórður þeim hvað undir förinni var, að hann ætlar að sitja þar fyrir Birni, kvað hans utan von frá Saxahvoli og kvaðst ætla að taka hann af lífi.

Þeir svara, frændur hans, sögðu ódrengilegt tólf mönnum að sitja fyrir tveimur, létust eigi mundu hafa heiman farið með honum ef þeir vissu þetta og bjóða Þórði þann kost að sitja fyrir Birni með tvo menn ella vilja þeir tveir sitja fyrir honum bræðurnir: „Nú ætlum vér þótt Björn sé vel vígur maður þá er þó gert þar fyrir því að vér væntum að förunautur hans muni óvíglegri en hvor okkar. En við tólfta mann sitjum við aldrei fyrir honum.“

Þórður mælti: „Segjum svo frá förinni þá er vér höfum reynt hvort eigi þarf þetta lið við Björn að eiga. En sé eg að bæði er að þið eruð vaskir menn enda þykir ykkur svo. Með því að þar sé um að kjósa sem þið sögðuð áðan þá sitjið þið fyrir honum en vér munum brott ríða.“

Það vilja þeir. Þórður víkur nú í brott svo að hann varð ekki við riðinn er þeir sátu fyrir Birni bræðurnir og þótti sér horfa hið vænsta.

Nú er að segja frá Birni að hann býst í brott frá Arnórs mágs síns.

Þá kom húsfreyja að og mælti: „Það er mitt ráð,“ segir hún, „að Björn fari eigi héðan fámennari en við tólfta mann inn yfir Beruvíkurhraun því að svo hefir mig dreymt til að Þórður muni þar sitja fyrir þér því að hann er ráðugur.“

„Það mun hann eigi gera,“ segir Björn, „og mun hann nær bæ sínum gera ef hann vill.“

Nú ríður Björn og fara þrír saman frá garði.

Þegar þeir voru nýfarnir þá mælti Þórhildur við Arnór bónda sinn: „Ef Birni verður nokkuð til meins í dag,“ segir hún, „þá munum við eigi til einnar rekkju í kveld.“

Og nú við hennar aðkall þá fer Arnór heiman við níunda mann og kom eftir þeim við hraunið.

Björn fagnaði honum vel og mælti: „Brátt reiðstu eftir mér nú mágur.“

„Því sætir það,“ segir hann, „að mér þykir þú seinn í boðunum við mig og mun eg nú bjóða mér sjálfur.“

„Svo má vera,“ segir Björn, stíga nú af baki og leiða hrossin yfir hraunið því að þeir höfðu draga mikinn með að fara.

Björn og Arnór fóru fyrstir. Björn hafði krókaspjót í hendi og hjálm á höfði og var gyrður sverði og skjöldur á hlið en Arnór þvari hafði sverð í hendi og hendi um öxl til og hélt um miðjan meðalkaflann. Þeir gengu hraungötuna.

Og það sjá þeir bræður að fleiri menn fara hér en þeir væntu að Björn mundi hafa með sér og þótti för sín ill ef hann væri eigi en þeir leituðu undan. Og nú bíða þeir. Bar nú brátt að og finna eigi fyrr en Björn kom að þeim.

Eyvindur var þeirra eldri bræðranna og veitti hann Birni tilræði og hjó til hans með breiðöxi og kom í hjálminn og sveif ofan og tók hyrnan skjaldarfetilinn og varð Björn sár á bringunni og á fæti í öðrum stað. Hvortgi var það mikið sár. Óttar hjó til Arnórs í höfuð honum og af eyrað og af kinnarbeininu og stöðvar höggið í sverðinu er hann hafði um öxl sér. Björn kastaði skildinum frá sér á hraunið og hjó til Eyvindar og var það banahögg og féllu þeir þar báðir bræðurnir.

Þá kvað Björn vísu:

Veitat kvenna kneytir,
kom drengr við styr lengi,
hinn er um eyki annast,
örmálugr það görva
hvar böðserkjar birki,
beit egg í tvö leggi,
trauðr er ætna eyðir
einvígis, læt eg hníga.

Nú binda þeir mágar sár sín og kasa þá þar bræðurna í hrauninu og síðan óhelga þeir þá sem lög lágu til fyrir aðhlaup og fyrirsát.

En Þórður Kolbeinsson var þar skammt í frá og vissi hvað títt var og þótti eigi færi að þeim að sækja er þeir voru svo margir saman og fór hann heim og varð ekki við riðinn við þenna atburð. Hann var spurður er hann kom heim hvar hann hefði komið lengsta en Þórður kvað vísu í móti:

Hvesstum tólf, en tvistir
társ mýrgefendr váru,
Leifa vegs í laufi
laungögl, Beruhrauni.
Ofláta sá eg ítran,
áðr sté eg fljótt á grjóti,
hafa vildu þá höldar
herðimenn, í gerðum.

Og enn kvað Þórður aðra vísu:

Þorns, veit eg, ber Birni
Baldr rógsögu skjaldar,
neytr þykkist sá nýtir
naðrbings, en mér aðra,
því að enn, þætti betri
þögn élviðum Högna,
nú er eldskerðir oriðnn
eggleiks bani tveggja.

Anrnór fór nú heim og varð heill sára sinna. Björn fór nú heim og nokkurir menn með honum fleiri en heiman fóru.

Og um dag orti Björn þessa vísu:

Það vil eg Þórðr að frétti,
þess unnum bör gunnar,
ops búinn veik frá veiti
vægja suðr með ægi,
að, þar er einir hittumst,
jók eg tafn í dag hrafni,
hafviggjar fyr hneigi
hnigu tveir viðir geira.

Björn verður heill brátt sára sinna og var kyrrt eftir þetta. Ekki var nú eftirmál um þá bræður. Þórður lét þá færa til kirkju.