Bjarnar saga Hítdælakappa/24

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
24. kafli

Nokkurum vetrum síðar koma bræður tveir af Hornströndum til gistingar á Hítarnes til Þórðar og voru þar um nótt. Og um morgun biðja þeir Þórð ásjá og segja honum hvað þeim var á höndum.

Þórður segir: „Gera mun eg kost á þvílíku við yður.“

Það var snemma um vorið. Beinir er annar nefndur en annar Högni. Þeir spyrja hver kosturinn væri.

„Ekki mun hann nýtilegur þykja,“ segir Þórður. „Eg mun gefa ykkur til hundrað silfurs að þið sitjið um líf Bjarnar og færið mér höfuð hans. Eg mun nú fá ykkur hálft hundrað en hálft er þið komið aftur.“

Þetta var kaup þeirra. Þórður hét þeim á ofan ásjá sinni. Þeir kváðu sér eigi ægja mundu að ráða að Birni ef þeim gæfi færi til.

Nú fara þeir upp í dalinn og koma í Hólm til Bjarnar er fé var á stöðli um aftaninn. Þeir hittu Þórdísi konu Bjarnar hjá dyrum og spurðu hvar Björn væri, kváðust eiga við hann erindi. Hún vísaði til hans, kvað hann genginn í haga.

Og er hún kom inn segir hún Þórdísi móður Bjarnar frá hjali þeirra er komnir voru. Hún kvaðst ætla að vera muni flugumenn.

Og er Kolbeinn heimamaður Bjarnar heyrir þetta þá tók hann skjöld Bjarnar og sverð og hljóp með þangað er hann vissi að Björn var og færir honum og kom hann fyrri, því að honum var kunnara hvar skemmst var, og segir Birni að hann kvaðst hyggja að flugumenn mundu koma og finna hann.

Björn þakkaði honum fyrir og gekk síðan til sauðahússins með vopnum sínum og inn í húsið og það sjá þeir og fara þangað. Og er þeir koma að húsinu og hugsa hvern veg þeir skulu sækja hann þá hljóp Björn út að þeim voveiflega, að þá varir minnst, og þrífur hvorntveggja höndum. Er þar mikill knáleikamunur. Skiptist það annan veg til en þeir ætluðu. Hann batt þá báða, hendur á bak aftur en lét lausa fætur og bar ekki járn á þá. Síðan stakk hann öxum þeirra undir bönd að baki og biður þá fara og sýna sig Þórði. Af þeim tók hann silfrið og gaf það Kolbeini.

Þeir fara í brott og þykir ill orðin ferð sín og hneisuleg, koma svo búnir á Hítarnes. Þórður kvað sér ekki mönnum að nær þótt þeir væru og rak þá á brott.