Bjarnar saga Hítdælakappa/31

Úr Wikiheimild
Bjarnar saga Hítdælakappa
31. kafli

Eftir þetta skiptir Þórður til og lætur Kálf fara er morgnar á götu þá er liggur til Valla og þeir höfðu riðið um nóttina. Hann var við sétta mann og sitja þá fyrir Birni ef þangað bæri ferðir hans. En þeir Þórður og Þorvaldur Eiðssynir og Kolli Þórðarson skyldu sitja á götu þeirri er liggur til Hvítingshjalla, ef þangað bæri að, því að þar höfðu haga hross þau er Björn hafði gefið Þorsteini og fór Björn oft að sjá þau og af Hvítingi hinum eldra var Hvítingshjalli kallaður. En Dálkur frá Húsafelli skal sitja á götu þeirri er liggur til fjalla fyrir austan vatn og gæta þar því að þeim þótti eigi örvænt að Björn færi upp í dalinn til rétta er mannfátt var heima. En Þórður skyldi sitja á þeirri götu er liggur úr Hólmi og ofan til Húsafells. Þórði þótti líklegt að Björn mundi koma annaðhvort til rétta, og líkara að hann mundi koma í Þórarinsdal því að þaðan var von fleira fjár Bjarnar og sat Þórður þar fyrir ef hann færi þangað. Sex menn voru í hverri fyrirsát. En fyrir því varðveittu þeir götur allar að þeir þóttust vita að Björn mundi nokkura fara braut en vildu eigi koma í Hólm fyrr en víst væri að Björn væri eigi heima ef svo vildi verða, þótti sér mundu torsótt að sækja hann. Nú skiljast þeir og fara hverjir á þá götu sem ætlað var að sitja fyrir Birni.