Blaðsíða:Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.pdf/2

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

2 Nr. 10 1979 Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012

sem það hefur gengist undir samkvæmt ákvæðum sáttmálans um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð.

4. Hver sá maður sem dæmdur hefur verið til dauða skal eiga rétt á að sækja um náðun eða mildun á dóminum. Sakaruppgjöf, náðun eða mildun á dauðadómi má í öllum tilvikum veita.
5. Dauðadómi skal ekki beitt fyrir glæpi sem menn undir átján ára aldri hafa framið né framfylgt gagnvart vanfærum konum.
6. Engu í þessari grein skal beitt til þess að fresta eða koma í veg fyrir afnám dauðarefsingar í neinu ríki sem aðili er að samningi þessum.

7. gr.

Enginn maður skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Sérstaklega skal enginn sæta án frjáls samþykkis hans læknisfræðilegum eða vísindalegum tilraunum.

8. gr.

1. Engum manni skal haldið í þrældómi; hvers konar þrældómur og þrælaverslun skulu vera bönnuð.
2. Engum manni skal haldið í þrælkun.
3. (a) Eigi skal þess krafist af neinum manni að hann vinni þvingunar- eða nauðungarvinnu;
(b) Ekki skal 3. mgr. (a) útiloka, í löndum þar sem fangelsun ásamt skyldu til erfiðisvinnu má beita sem refsingu fyrir glæp, að erfiðisvinna sé unnin í samræmi við dóm um slíka refsingu sem lögbær dómstóll kveður upp;
(c) „Þvingunar- og nauðungarvinna“ í merkingu þessarar málsgreinar skal eigi taka til:
(i) vinnu eða þjónustu, sem ekki er getið í málslið (b), sem almennt er krafist af manni sem er í varðhaldi sem afleiðingu af löglegri skipun dómstóls, eða af manni sem hefur skilorðsbundið verið leystur úr slíku varðhaldi;
(ii) herþjónustu og, í löndum þar sem synjun til herþjónustu samvisku manna vegna er viðurkennd, þegnskylduvinnu sem krafist er að lögum af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna;
(iii) þjónustu sem krafist er vegna hættu- eða neyðarástands sem ógnar lífi eða velferð almennings;
(iv) vinnu eða þjónustu sem er þáttur í venjulegum borgaraskyldum.

9. gr.

1. Allir menn eiga rétt til frelsis og mannhelgi. Enginn maður skal sæta handtöku eða annarri frelsisskerðingu að geðþótta. Engan mann skal svipta frelsi nema af þeim ástæðum og í samræmi við þær aðferðir sem ákveðið er í lögum.
2. Hver sá maður sem tekinn er höndum skal þegar handtakan fer fram fá vitneskju um ástæðurnar fyrir handtökunni og skal án tafar tilkynnt um sakir þær sem hann er borinn.
3. Hvern þann mann sem tekinn er höndum eða sætir annarri frelsisskerðingu fyrir glæpsamlegar sakir skal án tafar færa fyrir dómara eða annað stjórnvald sem lögheimild hefur til að fara með dómsvald, og skal hann eiga rétt til rannsóknar á máli sínu fyrir dómi innan hæfilegs frests eða að vera látinn laus. Það skal ekki vera hin almenna regla að menn sem bíða rannsóknar máls fyrir dómi skuli hafðir í gæslu, en lausn má binda skilyrði um tryggingu fyrir því að mæta til rannsóknar í máli fyrir dómi, á sérhverju öðru stigi dómsmeðferðar og, ef tilefni gefst til, til að dóminum sé fullnægt.
4. Hver sá maður sem sviptur er frelsi með handtöku eða annarri frelsiskerðingu skal eiga rétt á að gera ráðstafanir fyrir dómi til þess að sá dómur geti ákveðið án tafar um lögmæti frelsisskerðingar hans og fyrirskipa að hann skuli látinn laus ef frelsisskerðingin er ólögmæt.
5. Hver sá maður sem ólöglega hefur verið tekinn höndum eða sætt annarri frelsisskerðingu skal eiga framkvæmanlegan rétt til skaðabóta.

10. gr.

1. Alla menn sem sviptir hafa verið frelsi skal fara með af mannúð og með virðingu fyrir meðfæddri göfgi mannsins.
2. (a) Menn sem ákærðir eru skulu, nema í sérstökum tilvikum, vera aðskildir frá sakfelldum mönnum og skulu sæta sérstakri meðferð sem hæfir aðstæðum þeirra sem ósakfelldum mönnum;
(b) Ákærðir, ófullveðja menn skulu vera aðskildir frá fullorðnum mönnum og skulu færðir svo fljótt sem unnt er til dómsálagningar.
3. Í refsikerfinu skal gert ráð fyrir meðferð fanga þar sem aðalmarkmiðið skal vera betrun og félagsleg endurhæfing þeirra. Ófullveðja brotamenn skulu aðskildir frá fullorðnum mönnum og sæta meðferð sem hæfir aldri þeirra og réttarstöðu.

11. gr.

Engan mann skal fangelsa eingöngu vegna þess að hann getur ekki efnt samningsbundna skyldu.

12. gr.

1. Hver sá sem er á löglegan hátt innan landsvæðis ríkis skal eiga rétt á umferðarfrelsi og frelsi til þess að velja sér dvalarstað á því landsvæði.
2. Allir menn skulu frjálsir að því að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið land.
3. Ofangreindur réttur skal ekki vera neinum takmörkunum háður nema þeim sem ákveðnar eru í lögum, eru nauðsynlegar til þess að vernda þjóðaröryggi, allsherjarreglu (ordre public), heilbrigði almennings eða siðgæði, eða réttindi og frelsi annarra, og eru samrýmanlegar öðrum réttindum sem viðurkennd eru í samningi þessum.
4. Enginn maður skal að geðþótta sviptur rétti til þess að koma til síns eigin lands.

13. gr.

Útlendingi, sem er á löglegan hátt á landsvæði ríkis sem er aðili að samningi þessum, má aðeins vísa þaðan eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög og skal, nema þar sem brýnar ástæður vegna þjóðaröryggis krefjast annars, leyfast að skjóta ástæðunum gegn brottvísuninni til lögbærs stjórnvalds eða manns eða manna sem sérstaklega eru til þess tilnefndir af því lögbæra stjórnvaldi, og fá mál sitt tekið til endurskoðunar og hafa málsvarnarmann í þessu skyni.

14. gr.

1. Allir menn skulu vera jafnir fyrir dómstólunum. Við ákvarðanir, er menn hafa verið bornir sökum um glæpsamlegt athæfi, eða er ákveða skal um réttindi og skyldur manna í dómsmáli, skulu allir menn njóta réttlátrar og opinberrar rannsóknar fyrir lögbærum, óháðum og óhlutdrægum dómstóli sem stofnaður er með lögum. Blaðamönnum og almenningi má banna aðgang að réttarhöldum með öllu eða að hluta þeirra vegna siðgæðis, allsherjarreglu (ordre public) eða þjóðaröryggis í lýðfrjálsu þjóðfélagi, eða þegar hagsmunir einkalífs aðila krefjast þess, eða að svo miklu leyti sem dómstóllinn telur brýna nauðsyn bera til í sérstökum tilvikum þar sem vitneskja almennings mundi skaða réttarhagsmuni, en alla dóma uppkveðna í sakamálum eða í einkamálum skal kunngera opinberlega nema þar sem hagsmunir ófullveðja manna krefjast annars eða réttarhöldin varða hjúskapardeilur eða lögráð barna.
2. Allir menn sem bornir eru sökum um glæpsamlegt athæfi eiga rétt á að vera taldir saklausir þar til þeir eru fundnir sekir að lögum.