Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/22

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

13

ætlað þér að selja neitt af fólki okkar, sízt slíkum kumpáni.“

„Já, Emilía“, sagði maður hennar, „þannig hef eg líka alltaf hugsað og talað; en sannleikurinn er, að eg má til að selja eitthvað af fólki mínu.“

„Þessari skepnu? ómögulegt! Shelby, þér getur ekki verið alvara.“

„Mér þykir fyrir að segja það, en mér er alvara“, sagði hann, „eg ætla að selja Tómas.“

„Hvað! hann Tómas okkar? sem er svo góður og trúr, og hefur verið þjónn þinn frá því hann var drengur! Ó, Shelby! og þar að auki hefurðu lofað honum frelsi; við höfum bæði margsinnis talað um það við hann. Jæja, nú get eg trúað hverju sem vera skal. get eg trúað því, að þú gætir selt Harry litla, eina barnið hennar Elísu aumingjans“, sagði frú Shelby og var í málrómnum bæði hryggð og gremja.

„Jæja, úr því þú verður að fá að vita það, þá er það svo. Eg ætla að selja bæði Tómas og Harry, og eg veit ekki hvers vegna eg á að reiknast sem óvættur fyrir það, þó eg gjöri það sama sem hver maður gjörir á hverjum degi.“

„En því að velja þessa fremur en einhvern af hinum?“ sagði frú Shelby. „Því að selja þá?“

„Af því að eg fæ meira fyrir þá en nokkra af hinum — það er orsökin. Hann bauð mér reyndar líka mikið fé fyrir hana Elísu, en eg hlustaði ekki eitt augnablik á hann, af