Fara í innihald

Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/75

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

66

Eva hafði staðið þegjandi hjá og hlýtt á þessa samræðu. Hún gjörði Topsý nú bendingu um að koma. Í einu horninu á veggsvölunum, var ofurlítið herbergi með glerhurð, sem St. Clare var vanur að hafa fyrir lestrar herbergi. Eva og Topsý fóru inn í þetta herbergi.

„Hvað skyldi Eva ætla fyrir sér?“ sagði St. Clare; „eg ætla að fara að sjá það.“

Hann læddist ofurhægt að glerhurðinni, dró tjaldið lítið eitt til hliðar og leit inn; síðan gjörði hann Ophelíu bendingu um að koma. Börnin sátu á gólfinu, hvort andspænis öðru; Topsý léttúðug og ertnisleg, eins og hún var vön, en á andliti Evu lýsti sér áköf geðshræring, og það glitruðu tár í stóru, bláu augunum hennar.

„Því ertu svona vond, Topsý? Því viltu ekki reyna að verða góð stúlka? Þykir þér ekki vænt um neinn, Topsý? Þykir þér ekki vænt um pabba þinn og mömmu þína?“

„Eg á enga mömmu og engan pabba, þér vitið það, eg hef sagt yður það, missus Eva.“

„Ójá, eg veit það“, sagði Eva, hryggðarlega, „en áttu engan bróður eða systur eða frænku eða —“

„Nei, aldrei átt neitt eða neinn.“

„En Topsý, ef þú reyndir nú til að vera góð, þá gætirðu það.“

„Get aldrei orðið neitt nema svertingjastelpa, hvað góð sem eg væri,“ sagði Topsý.

„En fólki getur þótt vænt um þig, Topsý, þó þú sért