Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/83

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

74

kinnum sínum. „Ó, ungfrú Eva, eg hef verið vond og óþekk, en viljið þér ekki gefa mér einn líka?“

„Jú, veslings Topsý, jú, það vil eg sannarlega. Í hvert skipti sem þú horfir á þennan hárlokk, áttu að hugsa um að eg elskaði þig, og mig langaði til að þú yrðir gott barn“.

„Ó, ungfrú Eva, eg er alltaf að reyna til þess, en það er svo erfitt að vera góður!“

Topsý hélt svuntu sinni fyrir augun, og gekk þegjandi út með Ophelíu; en hinn dýrmæta hárlokk geymdi hún á brjósti sínu.

Þegar allir vóru farnir, lokaði Ophelía dyrunum.

Á meðan þessu fór fram, sat St. Clare grafkyr og byrgði andlitið í höndum sér. Hann sat þannig enn um hríð, er allir voru farnir.

„Pabbi!“ sagði Eva blíðlega og lagði hönd sína á hönd hans.

Hann tók snöggt viðbragð, en svaraði engu.

„Pabbi, það gjörir útaf við mig að sjá þig svona“ sagði Eva og fleygði sér í fang hans. Þar hvíldi hún um stund, eins og þreytt dúfa, en hann laut yfir hana og hughreysti hana með öllum þeim blíðu-orðum, er honum komu til hugar.

„Þú gefur mér engan hárlokk, Eva,“ sagði faðir hennar og brosti lítið eitt.

„Þú átt þá alla, pabbi,“ sagði hún brosandi, „þið mamma bæði, og þú mátt gefa frænku eins marga og hún vill. Eg vildi gefa veslings fólkinu okkar þá gjöf, því eins og þú veizt, pabbi, verður þeim máske gleymt, þegar eg er farin“.