Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/10

Úr Wikiheimild

Snið:Header

Höskuldur sagði Hallgerði kaupið.

Hún mælti: „Nú er eg að raun komin um það er mig hefir lengi grunað að þú mundir eigi unna mér svo mikið sem þú sagðir jafnan er þér þótti eigi þess vert að við mig væri um talað þetta mál enda þykir mér ráð þetta eigi svo mikils háttar sem þér hétuð mér.“

Og fannst það á í öllu er hún þóttist vargefin.

Höskuldur mælti: „Ekki legg eg svo mikið við ofmetnað þinn að hann standi fyrir kaupum mínum og skal eg ráða en eigi þú ef okkur skilur á.“

„Mikill er metnaður yðvar frænda,“ segir hún, „og er það eigi undarlegt að eg hafi nokkurn“ og gekk á braut síðan.

Hún fann fóstra sinn Þjóstólf og segir honum hvað ætlað var og var henni skapþungt.

Þjóstólfur mælti: „Ger þú þér gott í skapi. Þú munt vera gefin í annað sinn og munt þú þá eftir spurð því að alls staðar mun eg gera að þínu skapi nema þar er faðir þinn er eða Hrútur.“

Síðan tala þau ekki um fleira.

Höskuldur bjó veislu og reið að bjóða mönnum til og kom á Hrútsstaði og kallar Hrút út til máls við sig. Hann gekk út og gengu þeir á tal og sagði Höskuldur honum kaupmála allan og bauð honum til boðs „og vildi eg frændi að þér þætti eigi verr þótt eg gerði þér eigi orð áður en kaupmálið réðst.“

„Betur þætti mér að eg kæmi hvergi í nánd,“ segir Hrútur, „því að hvorigu mun í þessu kaupi gifta, honum né henni. En þó mun eg fara til boðs ef þér þykir sæmd í.“

„Það þykir mér víst,“ sagði Höskuldur og reið heim síðan.

Ósvífur og Þorvaldur buðu og mönnum og var eigi boðið færra en hundraði.

Maður er nefndur Svanur. Hann bjó í Bjarnarfirði á bæ þeim er heitir á Svanshóli. Það er norður frá Steingrímsfirði. Svanur var fjölkunnigur mjög. Hann var móðurbróðir Hallgerðar. Hann var ódæll og illur viðureignar. Honum bauð Hallgerður til boðs síns og sendi Þjóstólf eftir honum. Hann fór og voru vináttumál með þeim þegar.

Nú koma menn til veislunnar og sat Hallgerður á palli og var brúðurin allkát og gekk Þjóstólfur jafnan til tals við hana en stundum talar hann við Svan og fannst mönnum mikið um tal þeirra. Veislan fór vel fram. Höskuldur leysti út fé Hallgerðar með hinum besta greiðskap.

Síðan mælti hann til Hrúts: „Skal eg nokkurar gjafar fram leggja?“

Hrútur svaraði: „Kostur mun þér af tómi að eyða fé þínu fyrir Hallgerði og lát hér stað nema.“