Brennu-Njáls saga/103

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
103. kafli

Gestur Oddleifsson bjó í Haga á Barðaströnd. Hann var manna vitrastur svo að hann sá fyrir örlög manna. Hann gerði veislu í móti þeim Þangbrandi. Þeir fóru í Haga við sex tigu manna. Þá var sagt að þar væru fyrir tvö hundruð heiðinna manna og þangað væri von berserks þess er Ótryggur hét og voru allir við hann hræddir. Frá honum var sagt svo mikið að hann hræddist hvorki eld né egg og voru heiðnir menn hræddir mjög. Þá spurði Þangbrandur ef menn vildu taka við trú en allir heiðnir menn mæltu í móti.

„Kosti mun eg yður gera,“ segir Þangbrandur, að vér skulum reyna hvor betri er trúan. Vér skulum gera elda þrjá. Skuluð þér heiðnir menn vígja einn en eg annan en hinn þriðji skal óvígður vera. En ef berserkurinn hræðist þann einn eldinn er eg vígi en veður hina báða þá skuluð þér taka við trú.“

„Þetta er vel mælt,“ segir Gestur, „og mun eg þessu játa fyrir mig og heimamenn mína.“

Og er Gestur hafði þetta mælt þá játuðu miklu fleiri.

Þá var sagt að berserkurinn færi að bænum og voru þá gervir eldarnir og brunnu. Tóku menn þá vopn sín og hljópu upp í bekkina og biðu svo. Berserkurinn hleypur að með vopnum og inn í dyrnar. Hann kemur innar í stofuna og veður þegar þann eldinn er hinir heiðnu menn höfðu vígðan og svo hinn óvígða. Hann kemur að þeim eldinum er Þangbrandur hafði vígt og þorir eigi að vaða og kvaðst brenna allur. Hann höggur sverðinu upp á bekkinn og kom í þvertréð er hann reiddi hátt. Þangbrandur laust með róðukrossi á höndina og varð jartegn svo mikil að sverðið féll úr hendi berserkinum. Þá leggur Þangbrandur sverði fyrir brjóst honum en Guðleifur hjó á höndina svo að af tók. Gengu þá margir að og drápu berserkinn. Eftir það spurði Þangbrandur ef menn vildu taka við trú. Gestur kveðst það eitt um hafa mælt er hann ætlaði að halda. Skírði Þangbrandur þá Gest og öll hjú hans og marga menn aðra.

Réðst þá Þangbrandur um við Gest hvort hann skyldi nokkuð fara í fjörðu vestur en Gestur latti þess og kvað þar vera menn harða og illa viðureignar „en ef það er ætlað fyrir að trúa þessi skuli við gangast þá mun á alþingi við gangast og munu þar þá vera allir höfðingjar úr hverju héraði.“

„Flutti eg á þingi,“ segir Þangbrandur, „og varð mér þar erfiðlegast um.“

„Þó hefir þú mest að gert,“ segir Gestur, „þó að öðrum verði auðið í lög að leiða. En það er sem mælt er að eigi fellur tré við hið fyrsta högg.“

Síðan gaf Gestur Þangbrandi góðar gjafar og fóru þeir suður aftur.

Þangbrandur fór í Sunnlendingafjórðung og svo til Austfjarða. Hann gisti að Bergþórshvoli og gaf Njáll honum góðar gjafar. Þá reið hann austur í Álftafjörð til móts við Síðu-Hall. Hann lét bæta skip sitt og kölluðu heiðnir menn það Járnmeis. Á því skipi fór Þangbrandur utan og Guðleifur með honum.