Brennu-Njáls saga/105

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þorgeir hét maður. Hann var Tjörvason Þorkelssonar langs. Móðir hans hét Þórunn og var Þorsteinsdóttir, Sigmundarsonar, Gnúpa-Bárðarsonar. Guðríður hét kona hans. Hún var dóttir Þorkels hins svarta úr Hleiðrargarði. Hans bróðir var Ormur töskubak, faðir Hlenna hins gamla úr Saurbæ. Þeir Þorkell voru synir Þóris snepils, Ketilssonar brimils, Örnólfssonar, Björnólfssonar, Grímssonar loðinkinna, Ketilssonar hængs, Hallbjarnarsonar hálftrölls úr Hrafnistu. Þorgeir bjó að Ljósavatni og var höfðingi mikill og manna vitrastur.

Kristnir menn tjölduðu búðir sínar og voru þeir Gissur og Hjalti í Mosfellingabúð.

Um daginn eftir gengu hvorirtveggju til Lögbergs og nefndu hvorir votta, kristnir menn og heiðnir, og sögðust hvorir úr lögum annarra og varð þá svo mikið óhljóð að Lögbergi að engi nam annars mál. Síðan gengu menn í braut og þótti öllum horfa til hinna mestu óefna.

Kristnir menn tóku sér til lögsögumanns Hall af Síðu. En Hallur fór að finna Þorgeir goða lögsögumann frá Ljósavatni og gaf honum til þrjár merkur silfurs að hann segði upp lögin. En það var þó ábyrgðarráð er hann var heiðinn.

Þorgeir lá dag allan og breiddi feld á höfuð sér svo að engi maður mælti við hann.

En annan dag gengu menn til Lögbergs.

Þá beiddi Þorgeir sér hljóðs og mælti: „Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni ef vér skulum eiga hafa ein lög allir. En ef sundur skipt er lögunum þá mun sundur skipt friðinum og mun eigi mega við það búa. Nú vil eg þess spyrja heiðna menn og kristna hvort þeir vilja hafa lög þau er eg segi upp.“

Því játuðu allir. Hann kvaðst vilja hafa svardaga af þeim og festu að halda. Þeir játuðu því allir og tók hann af þeim festu.

„Það er upphaf laga vorra,“ sagði hann, „að menn skulu allir vera kristnir hér á landi og trúa á einn guð, föður og son og anda helgan, en láta af allri skurðgoðavillu, bera eigi út börn og eta eigi hrossakjöt. Skal fjörbaugssök á vera ef víst verður en ef leynilega er með farið þá skal vera vítislaust.“

En þessi heiðni var af tekin öll á fárra vetra fresti að eigi skyldi þetta heldur gera leynilega en opinberlega. Hann sagði þá um drottinsdagahald og föstudaga, jóladaga og páskadaga og allra hinna stærstu hátíða.

Þóttust heiðnir menn mjög sviknir vera en þó var þá í lög leidd trúan og allir menn kristnir gervir hér á landi.

Fara menn við það heim af þingi.