Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/12

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
12. kafli


Þá fóru þeir ofan, menn Þorvalds, með byrðarnar. Þjóstólfur tók til ráða skjótt. Höggur hann þá tveim höndum borð skútunnar og gekk sundur borðið um tvö rúm, og hljóp í skip sitt. En á skútunni féll inn sær kolblár og sökk hún niður með öllum farminum. Þar sökk og niður lík Þorvalds og máttu förunautar hans eigi sjá hversu hann var til ger en hitt vissu þeir að hann var dauður.

Þjóstólfur reri inn á fjörðinn en þeir báðu hann illa fara og aldrei þrífast. Hann svaraði engu og reri inn á fjörðinn og þar til er hann kom heim og brýndi upp skipinu og gekk heim og hafði uppi öxina og var hún blóðug mjög.

Hallgerður var úti og mælti: „Blóðug er öx þín. Hvað hefir þú unnið?“

„Nú hefi eg það að gert,“ segir hann, „að þú munt gefin vera í annað sinn.“

„Dauðan segir þú mér Þorvald þá,“ segir hún.

„Svo er,“ sagði hann, „og sjá þú nú nokkurt ráð fyrir mér.“

„Svo skal vera,“ sagði hún. „Eg vil senda þig norður til Bjarnarfjarðar á Svanshól og mun Svanur taka við þér báðum höndum. Er hann svo mikill fyrir sér að þangað sækir þig engi.“

Hann söðlaði hest er hann átti og steig á bak og reið norður til Bjarnarfjarðar á Svanshól og tók Svanur við honum báðum höndum og spurði hann að tíðindum. En Þjóstólfur segir honum víg Þorvalds með þeim atburðum er orðið höfðu.

Svanur mælti: „Slíkt kalla eg menn er eigi láta sér allt í augu vaxa að gera og mun eg því heita þér ef þeir sækja þig hingað að þeir skulu fá af því hina mestu svívirðing.“

Nú er þar til máls að taka er Hallgerður er að hún kvaddi til ferðar með sér Ljót hinn svarta frænda sinn og bað hann söðla hesta þeirra „og vil eg ríða heim til föður míns.“

Hann bjó ferð þeirra. Hún gekk til kistna sinna og lauk upp og lét kalla til sín alla heimamenn sína og gaf þeim nokkura gjöf öllum en þeir hörmuðu hana allir.

Nú reið hún þar til er hún kom á Höskuldsstaði og tók faðir hennar við henni vel því að hann hafði eigi spurt tíðindin.

Höskuldur mælti til Hallgerðar: „Hví fór eigi Þorvaldur með þér?“

Hún svaraði: „Dauður er hann.“

Höskuldur mælti: „Þjóstólfur mun því valda.“

Hún sagði svo vera.

Höskuldur mælti: „Það mun mér síst í tauma ganga er Hrútur segir mér að hér mundi til mikillar ógiftu draga um kaup þessi en ekki mun týja að saka sig um orðinn hlut.“

Nú er þar til máls að taka er förunautar Þorvalds eru að þeir biðu til þess er skip komu að landi. Þeir sögðu víg Þorvalds og báðu sér skips inn til lands. Þeim var léð þegar. Og reru þeir inn að Reykjanesi og fundu Ósvíf og sögðu honum tíðindin.

Hann mælti: „Illa gefast ills ráðs leifar. Og sé eg nú allt eftir hversu farið hefir. Hallgerður mun hafa sendan Þjóstólf til Bjarnarfjarðar en hún mun riðin heim til föður síns. Skulum vér nú safna liði og sækja hann norður þangað.“

Þeir gerðu svo og fóru í liðsbón. Varð þeim gott til manna og riðu til Steingrímsfjarðar og til Ljótárdals og þaða n til Selárdals og svo til Bassastaða og þaðan um hálsinn til Bjarnarfjarðar.

Nú tók Svanur til orða og geispaði mjög: „Nú sækja að fylgjur Ósvífurs.“

Þá spratt Þjóstólfur upp og tók öxi sína.

Svanur mælti: „Gakk þú út með mér. Lítils mun við þurfa.“

Síðan gengu þeir út báðir.

Svanur tók geitskinn eitt og veifði yfir höfuð sér og mælti:

Verði þoka
og verði skrípi
og undr öllum þeim
er eftir þér sækja.

Nú er frá því að segja að þeir ríða á hálsinn Ósvífur og hans förunautar. Þá kom þoka mikil í mót þeim.

Ósvífur mælti: „Þessu mun Svanur valda og væri vel ef eigi fylgdi meira illt.“

Litlu síðar brá svo miklum sorta fyrir augu þeim að þeir sáu ekki og féllu þeir þá af baki og týndu hestunum og gengu í fen ofan sjálfir en sumir í skóginn svo að þeim hélt við meiðingar. Þeir töpuðu af sér vopnunum.

Þá mælti Ósvífur: „Ef eg fyndi hesta mína og vopn þá mundi eg aftur hverfa.“

Og er hann hafði þetta mælt þá sáu þeir nokkuð og fundu hesta sína og vopn. Þá eggjuðu margir á að enn skyldi við leita um atreiðina og var það gert og urðu þeim þegar hin sömu undur. Og fór svo þrem sinnum.

Þá mælti Ósvífur: „Þó að förin sé eigi góð þá skal þó nú aftur hverfa. Nú skulum vér gera ráð vort í annan stað og hefi eg það helst í hug mér að fara og finna Höskuld föður Hallgerðar og beiða hann sonarbóta því að þar er sæmdar von sem nóg er til.“

Síðan riðu þeir til Breiðafjarðardala og er nú ekki fyrr frá að segja en þeir koma á Höskuldsstaði. Þar var þá fyrir með Höskuldi Hrútur bróðir hans. Ósvífur kvaddi út Höskuld og Hrút. Þeir gengu út báðir og heilsuðu Ósvífri en síðan gengu þeir á tal. Höskuldur spurði Ósvífur hvaðan hann kæmi að. Hann kveðst hafa farið að leita Þjóstólfs og fundið hann eigi.

Höskuldur kvað hann kominn mundu norður á Svanshól „og er það eigi allra manna að sækja hann þangað.“

„Því er eg hér kominn,“ sagði Ósvífur, „að eg vil beiða þig sonarbóta.“

Höskuldur svaraði: „Eigi drap eg son þinn og eigi réð eg honum bana en þó heldur þig vorkunn til að leita á nokkurn.“

Hrútur mælti: „Náið er, bróðir, nef augum. Og er nauðsyn að drepa niður illu orði og bæta honum son sinn og rífka svo ráð fyrir dóttur þinni. Er sá einn til að þetta orðtak falli niður sem skjótast því að þá er betur að hér sé fátt til talað.“

Höskuldur mælti: „Vilt þú þá gera um málið?“

„Það vil eg,“ segir Hrútur, „og mun eg ekki hlífa þér í gerðinni því að ef satt skal tala þá hefir dóttir þín ráðið honum banann.“

Þá setti Höskuld dreyrrauðan og mælti ekki nokkura hríð. Síðan stóð hann upp og mælti til Ósvífurs: „Vilt þú nú handsala mér niðurfall að sökinni?“

Ósvífur stóð upp og mælti: „Eigi er það jafnsætti að bróðir þinn geri um. En þó hefir þú svo vel til lagið Hrútur að eg trúi þér vel til málsins.“

Síðan tók hann í hönd Höskuldi og sættust þeir svo á málið að Hrútur skyldi gera og lúka upp gerðinni áður Ósvífur færi heim.

Síðan gerði Hrútur og mælti: „Fyrir víg Þorvalds geri eg tvö hundruð silfurs“ - það þóttu þá vera góð manngjöld - „og skalt þú gjalda þegar bróðir og leysa vel af hendi.“

Höskuldur gerði svo. Þá mælti Hrútur til Ósvífurs: „Eg vil gefa þér skikkju góða er eg hafði út.“

Hann þakkaði honum gjöfina og undi nú vel við þar sem komið var og fór heim.

Litlu síðar komu þeir þannug Hrútur og Höskuldur og skiptu fé því sem þar stóð saman og urðu þeir Ósvífur á það vel sáttir og fóru heim með féið og er nú Ósvífur úr sögunni.

Hallgerður beiddi Höskuld að Þjóstólfur skyldi fara heim. Höskuldur veitti henni það og var lengi margt talað um víg Þorvalds.

Fé Hallgerðar gekk fram og gerðist mikið.