Brennu-Njáls saga/134

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
134. kafli

Síðan bjuggust þeir heiman allir. Flosi var í leistabrókum því að hann ætlaði að ganga. Vissi hann að þá mundi öðrum minna fyrir þykja að ganga. Þeir fóru heiman á Hnappavöll en annan aftan til Breiðár en frá Breiðá til Kálfafells, þaðan í Bjarnanes í Hornafjörð, þaðan til Stafafells í Lón en þá til Þvottár til Síðu-Halls. Flosi átti Steinvöru dóttur hans. Hallur tók við þeim allvel.

Flosi mælti til Halls: „Biðja vil eg þig mágur að þú ríðir til þings með mér með alla þingmenn þína.“

Hallur svaraði: „Nú er svo orðið sem mælt er að skamma stund verður hönd höggi fegin. Og er sá nú allur einn í þínu liði er nú hefur eigi höfuðs og hinn er þá eggjaði hins versta verks er eigi var fram komið. En liðveislu mína er skylt að eg leggi til alla slíka sem eg má.“

Flosi mælti: „Hvað leggur þú nú til ráðs með mér þar sem nú er komið?“

Hann svarar: „Fara skalt þú allt norður til Vopnafjarðar og biðja alla höfðingja liðsinnis og munt þú þó þurfa þeirra allra áður en þingi sé lokið.“

Flosi dvaldist þar þrjár nætur og hvíldi sig og fór þaðan austur til Geitahellna og svo til Berufjarðar. Þar voru þeir um nótt. Þaðan fóru þeir austur til Breiðdals í Heydali. Þar bjó Hallbjörn hinn sterki. Hann átti Oddnýju, systur Sörla Brodd-Helgasonar, og hafði Flosi þar góðar viðtökur. Hallbjörn spurði margs úr brennunni en Flosi sagði honum frá öllu gjörla. Hallbjörn spurði hversu langt Flosi ætlaði norður í fjörðuna. Hann kvaðst fara ætla til Vopnafjarðar. Flosi tók þá fésjóð af belti sér og kvaðst vildu gefa Hallbirni.

Hann tók við fénu en kveðst þó ekki gjafar eiga að Flosa „en þó vil eg vita hverju þú vilt að eg launi þér.“

„Ekki þarf eg fjár,“ segir Flosi, „en það vildi eg að þú riðir til þings með mér og veittir að málum mínum. En þó á eg hvorki að telja til við þig mægðir né frændsemi.“

Hallbjörn mælti: „Því mun eg heita þér að ríða til þings með þér og veita þér að málum sem eg mundi bróður mínum.“

Flosi þakkaði honum.

Þaðan fóru þeir Breiðdalsheiði og svo á Hrafnkelsstaði. Þar bjó Hrafnkell Þórisson, Hrafnkelssonar, Hrafnssonar. Flosi hafði þar góðar viðtökur og leitaði hann eftir um þingreið við Hrafnkel og liðveislu. Hrafnkell fór lengi undan en þó kom þar að hann hét að Þórir son hans mundi ríða við alla þingmenn þeirra og vera í slíkri liðveislu sem samþingisgoðar hans.

Flosi þakkaði honum og fór í braut og á Bersastaði. Þar bjó Hólmsteinn Spak-Bersason og tók hann allvel við Flosa. Flosi bað hann liðveislu. Hólmsteinn kvað hann löngu hafa laun selt um liðveislu.

Þaðan fóru þeir á Valþjófsstaði. Þar bjó Sörli Brodd-Helgason, bróðir Bjarna Brodd-Helgasonar. Hann átti Þórdísi dóttur Guðmundar hins ríka á Möðruvöllum. Þeir höfðu það góðar viðtökur. En um morguninn vakti Flosi til við Sörla að hann mundi ríða til Alþingis með honum og bauð honum fé til.

„Eigi veit eg það,“ segir Sörli, „meðan eg veit eigi hvaðan Guðmundur hinn ríki stendur að, mágur minn, því að eg ætla honum að veita hvaðan sem hann stendur að.“

Flosi mælti: „Finn eg það á svörum þínum að þú hefir kvonríki.“

Flosi stóð þá upp og bað taka klæði þeirra og vopn. Fóru þeir þá í braut og fengu þar enga liðveislu.

Þeir fóru fyrir neðan Lagarfljót og yfir heiði til Njarðvíkur. Þar bjuggu bræður tveir, Þorkell fullspakur og Þorvaldur. Þeir voru synir Ketils þryms Þiðrandasonar hins spaka, Ketilssonar þryms, Þórissonar þiðranda. Móðir þeirra Þorkels fullspaks og Þorvalds var Yngveldur Þorkelsdóttir fullspaks. Flosi hafði þar góðar viðtökur. Hann sagði þeim bræðrum deili á um erindi sín og bað þá liðveislu en þeir synjuðu áður en hann gaf þeim þrjár merkur silfurs hvorum þeirra til liðveislu. Þá játuðu þeir að veita Flosa.

Yngveldur móðir þeirra var hjá stödd er þeir hétu alþingisreiðinni og grét.

Þorkell mælti: „Hví grætur þú móðir?“

Hún svarar: „Mig dreymdi að Þorvaldur bróðir þinn væri í rauðum kyrtli og þótti mér svo þröngur vera sem saumaður væri að honum. Mér þótti hann og vera í rauðum hosum undir og vafið að vondum dreglum. Mér þótti illt á að sjá er eg vissi að honum var svo óhægt en eg mátti ekki að gera.“

Þeir hlógu að og kváðu vera loklausu og sögðu geip hennar ekki skyldu standa fyrir þingreiðum sínum.

Flosi þakkaði þeim vel og fór þaðan til Vopnafjarðar og komu til Hofs. Þar bjó þá Bjarni Brodd-Helgason Þorgilssonar, Þorsteinssonar hins hvíta, Ölvissonar, Eyvaldssonar, Öxna-Þórissonar. Móðir Bjarna var Halla Lýtingsdóttir. Móðir Brodd-Helga var Ásvör dóttir Þóris Graut-Atlasonar, Þórissonar þiðranda. Bjarni Brodd-Helgason átti Rannveigu Þorgeirsdóttur, Eiríkssonar úr Goðdölum, Geirmundarsonar, Hróaldssonar, Eiríkssonar örðigskeggja.

Bjarni tók við Flosa báðum höndum. Flosi bauð Bjarna fé til liðveislu.

Bjarni mælti: „Aldrei hefi eg selt karlmennsku mína við fémútu eða liðveislu. En nú er þú þarft liðs mun eg gera þér um vinveitt og ríða til þings með þér og veita þér sem eg mundi bróður mínum.“

„Þá snýrðu öllum vanda á hendur mér,“ segir Flosi, „en þó var mér slíks að þér von.“

Þaðan fóru þeir Flosi til Krossavíkur. Þar bjó Þorkell Geitisson. Þorkell var vinur Flosa mikill áður. Flosi sagði honum erindi sitt. Þorkell kvað það skylt vera að hann veitti honum slíkt er hann væri til fær og skiljast eigi við hans mál. Þorkell gaf Flosa góðar gjafar að skilnaði.

Þá fór Flosi norðan úr Vopnafirði og upp í Fljótsdalshérað og gisti að Hólmsteins Spak-Bersasonar. Flosi sagði honum að allir hefðu vel staðið undir hans nauðsyn og erindi nema Sörli Brodd-Helgason. Hólmsteinn kvað það til þess bera að hann væri engi ofstopamaður. Hólmsteinn gaf Flosa góðar gjafar. Flosi fór upp Fljótsdal og þaðan suður á fjall um Öxarhraun og ofan Sviðinhornadal og út með Álftafirði fyrir vestan og lauk Flosi eigi ferð fyrr en hann kom til Þvottár til Halls mágs síns. Þar var Flosi hálfan mánuð og menn hans og hvíldu sig.

Flosi spurði Hall hvað hann legði til ráðs með honum, hversu hann skyldi nú með fara eða breyta högum sínum.

Hallur mælti: „Það ræð eg að þú sért heima við bú þitt og Sigfússynir en þeir sendi menn til að skipa til búa sinna en þér farið heim að sinni. En þá er þér ríðið til þings, ríðið allir saman og dreifið ekki flokki yðrum. Fari þá Sigfússynir að hitta konur sínar. Eg mun og ríða til þings og Ljótur sonur minn með alla þingmenn okkra og veita þér slíkt lið sem eg má mér við koma.“

Flosi þakkaði honum. Hallur gaf honum góðar gjafar að skilnaði.

Flosi fór þá frá Þvottá og er ekki um hans ferð að tala fyrr en hann kemur heim til Svínafells. Er hann þá heima það er eftir var vetrarins og sumarið allt til þings framan.