Brennu-Njáls saga/140

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
140. kafli

Og er þeir komu í búðina þá sáu þeir hvar Guðmundur hinn ríki sat og talaði við Einar Konalsson fóstra sinn. Hann var vitur maður. Gengu þeir þá fyrir Guðmund. Hann tók þeim vel og lét ryðja fyrir þeim búðina að þeir skyldu allir sitja mega. Spurðust þeir þá tíðinda.

Ásgrímur mælti: „Ekki þarf þetta á mutur að mæla. Til þess erum vér hér komnir að biðja þig öruggrar liðveislu.“

Guðmundur svarar: „Hvort hafið þér nokkura höfðingja fundið áður?“

Þeir svöruðu að þeir höfðu fundið Skafta Þóroddsson og Snorra goða og sögðu honum allt af hljóði hversu hvorum þeirra fór.

Þá mælti Guðmundur: „Næstum fór mér til yðvar lítilmannlega er eg var yður erfiður. Skal eg nú því skemur draga fyrir yður er þá var eg torsóttari. Og skal eg nú ganga til dóma með yður með alla þingmenn mína og veita yður um allt á þingi þessu og berjast með yður þó að þess þurfi við og leggja mitt líf við yðvart líf. Eg mun og því launa Skafta að Þorsteinn holmunnur son hans skal vera í bardaganum með oss því að hann mun eigi treystast öðru en gera sem eg vil þar sem hann á Jódísi dóttur mína. Mun Skafti þá til fara að skilja oss.“

Þeir þökkuðu honum vel og töluðu lengi síðan svo að ekki heyrðu það aðrir menn.

Guðmundur bað þá ekki ganga fyrir kné fleirum höfðingjum. Kvað hann það vera lítilmannlegt „og munum vér nú á hætta með þetta lið sem nú höfum vér. Þér skuluð ganga með vopnum til allra lögskila en berjast þó eigi svo búið.“

Gengu þeir þá út allir og heim til búða sinna. Var þetta fyrst á fárra manna viti. Líður nú svo þingið.