Brennu-Njáls saga/153
Nú er þar til máls að taka er Flosi er, að þeir riðu austur til Hornafjarðar. Fylgdu Flosa flestir allir þingmenn hans. Fluttu þeir þá austur vöru sína og önnur föng og fargögn öll þau er þeir skyldu hafa með sér. Síðan bjuggu þeir ferð sína og skip. Var Flosi nú við skipið þar til er þeir voru búnir. En þegar er byr gaf létu þeir í haf. Þeir höfðu langa útivist og veðráttu illa. Fóru þeir þá hundvillir.
Það var einu hverju sinni að þeir fengu áföll stór þrjú nokkur. Sagði Flosi þá að þeir mundu nokkur vera í nánd löndum og þetta væru grunnföll. Þoka var á mikil en veðrið óx svo að hríð mikla gerði að þeim. Fundu þeir eigi fyrr en þá keyrði á land upp um nótt eina og varð þar borgið mönnum en skip braut allt í spón og fé máttu þeir ekki bjarga. Urðu þeir að leita sér verma.
En um daginn eftir gengu þeir upp á hæð nokkura. Var þá veður gott. Flosi spurði ef nokkur maður kenndi land þetta. Þar voru þeir menn tveir er farið höfðu áður og sögðust kenna að vísu „og erum vér komnir við Orkneyjar í Hrossey.“
„Fá máttum vér betri landtöku,“ segir Flosi, „því að Helgi Njálsson var hirðmaður Sigurðar jarls Hlöðvissonar er eg vó.“
Leituðu þeir sér þá fylgsnis og reyttu á sig mosa og lágu svo um stund og eigi langa áður Flosi mælti: „Ekki skulum vér hér liggja lengur svo að landsmenn verði þess varir.“
Stóðu þeir þá upp og gerðu ráð sitt.
Flosi mælti þá til sinna manna: „Vér skulum ganga allir á vald jarlsins. Gerir oss ekki annað því að jarl hefir að líku líf vort ef hann vill eftir því leita.“
Gengu þeir þá allir í braut þaðan. Flosi mælti að þeir skyldu engum manni segja tíðindin eða frá ferðum sínum fyrr en hann segði jarli.
Fóru þeir þá til þess er þeir fundu menn þá er þeim vísuðu til jarls. Gengu þeir þá fyrir jarl og kvaddi Flosi hann og allir þeir. Jarl spurði hvað manna þeir væru. Flosi nefndi sig og sagði úr hverri sveit hann var af Íslandi. Jarl hafði spurt áður brennuna og kenndist hann af því þegar við mennina.
Jarl spurði þá Flosa: „Hvað segir þú mér til Helga Njálssonar, hirðmanns míns?“
„Það,“ sagði Flosi, „að eg hjó höfuð af honum.“
Jarl mælti: „Takið þá alla.“
Þá var svo gert. Þá kom að í því Þorsteinn Síðu-Hallsson. Flosi átti Steinvöru systur Þorsteins. Þorsteinn var hirðmaður Sigurðar jarls. En er Þorsteinn sá Flosa höndlaðan þá gekk hann fyrir jarl og bauð fyrir Flosa allt það góss er hann átti. Jarl var hinn reiðasti og hinn erfiðasti lengi. En þó kom svo um síðir við umtölur góðra manna með Þorsteini, því að hann var vel vinum horfinn og gengu margir til að flytja með honum, að jarl tók sættum við þá og gaf Flosa grið og öllum þeim. Hafði jarl á því ríkra manna hátt að Flosi gekk í þá þjónustu sem Helgi Njálsson hafði haft. Gerðist Flosi þá hirðmaður Sigurðar jarls og kom hann sér brátt í kærleika mikla við jarlinn.