Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/155

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
155. kafli


Í þenna tíma komu þeir Kári og Kolbeinn og Dagviður hvíti til Hrosseyjar öllum á óvart og gengu upp þegar á land en nokkurir menn gættu skips. Kári og þeir félagar gengu upp til jarlsbæjarins og komu að höllinni um drykkju. Bar það saman og þá var Gunnar að að segja söguna en þeir Kári hlýddu til á meðan úti. Þetta var jóladaginn sjálfan.

Sigtryggur konungur spurði: „Hversu þoldi Skarphéðinn í brennunni?“

„Vel fyrst lengi,“ sagði Gunnar, „en þó lauk svo að hann grét.“

Og um allar sagnir hallaði hann mjög til en ló víða frá.

Kári stóðst þetta eigi. Hljóp hann þá inn með brugðnu sverði og kvað vísu þessa:

Hrósa hildar fúsir,
hvað hafa til fregið skatnar
hve, ráfáka, rákum?
rennendr Níals brennu.
Varðat veiti-Njörðum
víðeims að það síðan,
hrátt gat hrafn að slíta
hold, slælega goldið.

Þá hljóp hann innar eftir höllinni og hjó á hálsinn Gunnari Lambasyni og svo snart að höfuðið fauk upp á borðið fyrir konunginn og jarlana. Urðu borðin í blóði einu og svo klæðin jarlanna.

Sigurður jarl kenndi manninn þann er vegið hafði vígið og mælti: „Takið þér Kára og drepið hann.“

Kári hafði verið hirðmaður Sigurðar jarls og var allra manna vinsælastur og stóð engi upp að heldur þó að jarl ræddi um.

Kári mælti: „Það munu margir mæla herra að eg hafi þetta verk fyrir yður unnið að hefna hirðmanns yðvars.“

Flosi mælti: „Ekki gerði Kári þetta um sakleysi því að hann er í engum sættum við oss. Gerði hann það að sem hann átti.“

Kári gekk í braut og varð ekki eftir honum gengið. Fór Kári til skips síns og þeir félagar. Var þá veður gott. Sigldu þeir suður til Kataness og fóru upp í Þrasvík til göfugs manns er Skeggi hét og voru með honum mjög lengi.

Þeir í Orkneyjum hreinsuðu borðin og báru út hinn dauða. Jarli var sagt að þeir hefðu siglt suður til Skotlands.

Sigtryggur konungur mælti: „Þessi var herðimaður mikill fyrir sér er svo rösklega vann að og sást ekki fyrir.“

Sigurður jarl svaraði: „Engum manni er Kári líkur í hvatleik sínum og áræði.“

Flosi tók nú til og sagði söguna frá brennunni. Bar hann öllum vel og var því trúað.

Sigtryggur konungur vakti þá til um erindi sín við Sigurð jarl og bað hann fara til orustu með sér í móti Brjáni konungi. Jarl var lengi erfiður en þar kom um síðir að hann gerði á kost. Mælti hann það til að eiga móður hans og vera síðan konungur á Írlandi ef þeir felldu Brján. En allir löttu Sigurð jarl í að ganga og týði ekki. Skildu þeir að því að Sigurður jarl hét ferðinni en Sigtryggur konungur hét honum móður sinni og konungdómi. Var svo mælt að Sigurður jarl skyldi kominn með her sinn allan til Dyflinnar að pálmsunnudegi.

Fór Sigtryggur konungur þá suður til Írlands og sagði Kormlöðu móður sinni að jarl hafði í gengið og svo hvað hann hafði til unnið. Hún lét vel yfir því en kvað þau þó skyldu draga að meira lið. Sigtryggur spurði hvaðan þess væri að von.

Hún sagði að víkingar tveir lágu úti fyrir vestan Mön og höfðu þrjá tigu skipa „og svo harðfengir að ekki stendur við. Heitir annar Óspakur en annar Bróðir. Þú skalt fara til móts við þá og lát ekki að skorta að koma þeim í með þér hvað sem þeir mæla til.“

Sigtryggur konungur fer nú og leitar víkinganna og fann þá fyrir utan Mön. Ber Sigtryggur konungur þegar upp erindi sín en Bróðir skarst undan allt til þess er Sigtryggur konungur hét honum konungdómi og móður sinni. Og skyldi þetta fara svo hljótt að Sigurður jarl yrði eigi vís. Hann skyldi og koma fyrir pálmsunnudag með her sinn til Dyflinnar. Sigtryggur konungur fór heim til móður sinnar og sagði henni hvar þá var komið.

Eftir þetta talast þeir við Óspakur og Bróðir. Sagði þá Bróðir Óspaki alla viðræðu þeirra Sigtryggs og bað hann fara til bardaga með sér í móti Brjáni konungi og kvað sér mikið við liggja. Óspakur kvaðst eigi vilja berjast í móti svo góðum konungi. Urðu þeir þá báðir reiðir og skiptu þegar liði sínu. Hafði Óspakur tíu skip en Bróðir tuttugu. Óspakur var heiðinn og allra manna vitrastur. Hann lagði skip sín inn á sundið en Bróðir lá fyrir utan. Bróðir hafði verið maður kristinn og messudjákn að vígslu en hann hafði kastað trú sinni og gerðist guðníðingur og blótaði nú heiðnar vættir og var allra manna fjölkunnigastur. Hann hafði herbúnað þann er eigi bitu járn. Hann var bæði mikill og sterkur og hafði hár svo mikið að hann drap undir belti sér. Það var svart.