Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/159

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
159. kafli


Nú er segja frá Kára að um sumarið eftir fór hann til skips síns og sigldi suður um sæ og hóf upp göngu sína í Norðmandí og gekk suður og þá lausn og fór aftur hina vestri leið og tók skip sitt í Norðmandí og sigldi norður um sjá til Dofra á Englandi. Þaðan sigldi hann vestur um Bretland og svo norður með Bretlandi og norður um Skotlandsfjörðu og létti eigi fyrr en hann kom norður í Þrasvík á Katanesi til Skeggja bónda. Fékk hann þá þeim Kolbeini og Dagviði byrðinginn. Sigldi Kolbeinn þessu skipi til Noregs en Dagviður var eftir í Friðarey. Kári var þenna vetur á Katanesi. Á þessum vetri andaðist húsfreyja hans á Íslandi.

Um sumarið eftir bjóst Kári til Íslands. Skeggi fékk honum byrðing. Voru þeir þar á átján. Þeir urðu heldur síðbúnir og sigldu þó í haf og höfðu langa útivist. En um síðir tóku þeir Ingólfshöfða og brutu þar skipið allt í spón en þó varð mannbjörg. Kafahríð var á. Spyrja þeir nú Kára hvað nú skal til ráða taka en hann sagði það ráð að fara til Svínafells og reyna þegnskap Flosa. Gengu þeir þá til Svínafells í hríðinni.

Flosi var í stofu. Hann kenndi Kára er hann kom í stofuna og spratt upp í móti honum og minntist til hans og setti hann í hásæti hjá sér. Flosi bauð Kára að vera þar um veturinn. Kári þá það. Sættust þeir þá heilum sáttum. Flosi gifti þá Kára Hildigunni bróðurdóttur sína er Höskuldur Hvítanesgoði hafði átta. Bjuggu þau þá fyrst að Breiðá.

Það segja menn að þau yrðu ævilok Flosa að hann færi utan þá er hann var orðinn gamall að sækja sér skálavið og var hann í Noregi þann vetur. En um sumarið varð hann síðbúinn. Menn ræddu um að vant væri skip hans. Flosi sagði vera ærið gott gömlum og feigum og sté á skip og lét í haf og hefir til þess skips aldrei spurst síðan.

Þessi voru börn þeirra Kára Sölmundarsonar og Helgu Njálsdóttur: Þorgerður og Ragneiður og Valgerður og Þórður er inni brann. En börn þeirra Hildigunnar og Kára voru þeir Starkaður og Þórður og Flosi. Son Flosa var Kolbeinn er ágætastur maður hefir verið einnhver í þeirri ætt.

Og lúkum vér þar Brennu-Njáls sögu.