Brennu-Njáls saga/20

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
20. kafli

Njáll hét maður. Hann var sonur Þorgeirs gollnis Þórólfssonar. Móðir Njáls hét Ásgerður. Hún var dóttir Áskels hersis hins ómálga. Hún hafði komið út hingað til Íslands og numið land fyrir austan Markarfljót milli Öldusteins og Seljalandsmúla. Sonur hennar var Holta-Þórir faðir þeirra Þorleifs kráks, er Skógverjar eru frá komnir, og Þorgríms hins mikla og Þorgeirs skorargeirs.

Njáll bjó að Bergþórshvoli í Landeyjum. Annað bú átti hann í Þórólfsfelli. Njáll var vel auðigur að fé og vænn maður yfirlits en sá hlutur var á ráði hans að honum óx eigi skegg. Hann var lögmaður svo mikill að engi var hans jafningi, vitur og forspár, heilráður og góðgjarn og varð allt að ráði það er hann réð mönnum, hógvær og drenglyndur, langsýnn og langminnigur. Hann leysti hvers manns vandræði er á hans fund kom.

Bergþóra hét kona hans. Hún var Skarphéðinsdóttir, kvenskörungur mikill og drengur góður og nokkuð skaphörð. Þau Njáll áttu sex börn, þrjá sonu og þrjár dætur og koma þeir allir við þessa sögu.