Brennu-Njáls saga/44

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
44. kafli

Nú ríða menn heim af þingi. Og er Gunnar kom heim mælti hann til Sigmundar: „Meiri ert þú ógiftumaður en eg ætlaði og hefir þú til ills þína mennt. En þó hefi eg nú gervan þig sáttan við Njál og sonu hans og skyldir þú nú eigi annarri flugu láta koma í munn þér. Ert þú mér ekki skaplíkur. Þú ferð með spott og háð en það er ekki mitt skap. Kemur þú þér því vel við Hallgerði að þið eigið meir skap saman.“

Gunnar taldi á hann langa hríð en Sigmundur svaraði honum vel og kvaðst meir hans ráðum skyldu fram fara þaðan af en þar til hafði verið. Gunnar sagði honum þá hlýða mundu. Hélst með því nokkura hríð.

Jafnan mæltust þeir vel við, Gunnar og Njáll og synir hans, þó að fátt væri meðal annars liðsins.

Sá atburður varð að farandi konur komu til Hlíðarenda frá Bergþórshvoli. Þær voru málgar og heldur illorðar. Hallgerður sat í dyngju því að hún var því vön. Þar var Þorgerður dóttir hennar og Þráinn. Þar var og Sigmundur og fjöldi kvenna. Gunnar var eigi þar né Kolskeggur. Farandkonur þessar gengu inn í dyngjuna. Hallgerður heilsaði þeim og lét gefa þeim rúm. Hún spurði að tíðindum en þær kváðust engi segja. Hallgerður spurði hvar þær hefðu verið um nóttina. Þær sögðust verið hafa að Bergþórshvoli.

„Hvað hafðist Njáll að?“ segir Hallgerður.

„Stritaðist hann við að sitja,“ sögðu þær.

„Hvað gerðu synir Njáls?“ sagði Hallgerður, „þeir þykjast helst menn.“

„Miklir eru þeir að vallarsýn en óreyndir eru þeir mjög,“ sögðu þær. „Skarphéðinn hvatti öxi, Grímur skefti spjót, Helgi hnauð hjalt á sverð, Höskuldur treysti mundriða í skildi.“

„Til stórræða nokkurra munu þeir ætla,“ segir Hallgerður.

„Eigi vitum við það,“ segja þær.

„Hvað gerðu húskarlar Njáls?“ segir Hallgerður.

Þær svöruðu: „Eigi vissum við hvað sumir gerðu en einn ók skarni á hóla.“

„Hví mundi það sæta?“ segir Hallgerður.

Þær svöruðu: „Það sagði hann að þar yrði taða betri en annars staðar.“

„Misvitur er Njáll,“ segir Hallgerður, „þar er hann kann til hversvetna ráð.“

„Hvar er í því?“ sögðu þær.

„Það mun eg til finna er satt er,“ segir Hallgerður, „er hann lét eigi aka í skegg sér að hann væri sem aðrir karlmenn og köllum hann nú karl hinn skegglausa en sonu hans taðskegglinga og kveð þú um nokkuð Sigmundur og lát oss njóta þess er þú ert skáld.“

Hann kveðst þess vera albúinn og kvað þegar vísur þrjár eða fjórar og voru allar illar.

„Gersemi ert þú,“ sagði Hallgerður, „hversu þú ert mér eftirlátur.“

Gunnar kom að í þessu. Hann hafði staðið fyrir framan dyngjuna og heyrt á öll orðtækin. Þeim brá mjög við er þau sáu hann inn ganga. Þá þögnuðu allir en áður hafði þar verið háreysti mikið og hlátur.

Gunnar var reiður mjög og mælti til Sigmundar: „Heimskur maður ert þú og óráðhollur. Þú hrópar sonu Njáls og sjálfan hann er þó er mest vert en slíkt sem þú hefir áður af gert við þá og mun þetta vera þinn bani. En ef nokkur maður hermir þessi orð þá skal sá í brautu verða og hafa þó reiði mína.“

En svo var þeim öllum ótti mikill að honum að engi þorði þessi orð að herma. Síðan gekk hann í braut.

Farandkonurnar töluðu um með sér að þær mundu taka laun af Bergþóru ef þær segðu henni þetta, fóru síðan ofan þangað og sögðu Bergþóru á laun ófregið.

Bergþóra mælti er menn sátu undir borðum: „Gjafar eru yður gefnar feðgum og verðið þér litlir drengir af ef þér launið engu.“

„Hversu eru gjafar þær?“ segir Skarphéðinn.

„Þér synir mínir eigið allir eina gjöf saman. Þér eruð kallaðir taðskegglingar en bóndi minn karl hinn skegglausi.“

„Ekki höfum vér kvenna skap,“ segir Skarphéðinn, „að vér reiðumst við öllu.“

„Reiddist Gunnar þó fyrir yðra hönd,“ segir hún, „og þykir hann skapgóður. Og ef þér rekið eigi þessa réttar þá munuð þér engrar skammar reka.“

„Gaman þykir kerlingunni að, móður vorri, að erta oss,“ segir Skarphéðinn og glotti við en þó spratt honum sveiti í enni og komu rauðir flekkar í kinnur honum en því var ekki vant.

Grímur var hljóður og beit á vörinni. Helga brá ekki við. Höskuldur gekk fram með Bergþóru. Hún kom innar í annað sinn og geisaði mjög.

Njáll mælti: „Kemst þó að seint fari húsfreyja. Og fer svo um mörg mál þó að menn hafi skapraun af að jafnan orkar tvímælis þó að hefnt sé.“

En um kveldið er Njáll var kominn í rekkju heyrði hann að öx kom við þilið og söng í hátt en lokrekkja var önnur og héngu þar á skildir og sér hann að þeir eru í brautu.

Hann mælti: „Hverjir hafa tekið ofan skjöldu vora?“

„Synir þínir gengu út með,“ segir Bergþóra.

Njáll kippti skóm á fætur sér og gekk út og öðrum megin hússins og sér að þeir stefna upp á hvolinn.

Hann mælti: „Hvert skal fara Skarphéðinn?“

„Leita sauða þinna,“ segir hann.

Njáll mælti: „Ekki munduð þér þá vera vopnaðir ef þér ætluðuð það og mun annað vera erindið.“

„Laxa skulum vér veiða faðir ef vér rötum eigi sauðina,“ segir Skarphéðinn.

„Vel væri þá ef svo væri að þá veiði bæri eigi undan,“ segir Njáll.

Þeir fóru leið sína en Njáll gekk inn til hvílu sinnar.

Hann mælti til Bergþóru: „Úti voru synir þínir með vopnum allir og munt þú nú hafa eggjað þá til nokkurs.“

„Allvel skal eg þakka þeim ef þeir segja mér heim víg Sigmundar,“ segir Bergþóra.